Villa Wolf Pinot Noir 2018 fær toppdóma hjá Víngarðinum

Villa Wolf Pinot Noir 2018 ****+

Ég er afar ánægður með að vínin sem Ernst Loosen gerir í Pfalz skuli vera svona aðgengileg hérna á landi og öll eru þau ýmist verulega góð eða þá framúrskarandi. Ég ætla að játa að rósavínið úr Pinot Noir hefur sennilega alltaf verið það vín sem ég held mest uppá, af þeim sem nú fást, en fast á hæla þess koma svo Pinot Gris, Pinot Noir og Riesling og ég hef frétt að jafnvel muni bætast í þennan hóp einhverntíman um mitt þetta ár. Vonandi verður það. Þessi Pinot Noir er er virkilega góður fulltrúi þessarar þrúgu og svona til upprifjunnar þá var ég með um daginn umfjöllun um Pinot Noir-vínið sem Gérard Bertrand gerir í Languedoc. Mér þykir Villa Wolf vera nokkrum punktum betra og sennilega er það vegna þess að Pfalz er mun tempraðra og heppilegra svæði til ræktunar á þessari einstöku þrúgu.

Það hefur tæplega meðaldjúpan, hindberjarauðan lit og meðalopna angan sem er afar dæmigerð. Þarna má hitta fyrir jarðarber, hindber, appelsínublóm, málm, kanil, negul og steinefni. Það er svo meðalbragðmikið, sýruríkt, fínlegt og langt með öll þau einkenni sem maður sækist eftir í þessari þrúgu. Þarna eru villijarðarber, kirsuber, hindber, appelsínubörkur, málmur, steinefni og austurlensk krydd. Alveg sérlega ljúft og elegant rauðvín sem passar svo vel með allskonar mat. Allt frá forréttum fiski uppí fuglakjöt og jafnvel létta villibráð.

Verð kr. 2.850.- Frábær kaup.

Lesa meira

Louis Jadot Couvent des Jacobins Bourgogne Pinot Noir 2018 fær mjög góða dóma á Víngarðinum

Louis Jadot Couvent des Jacobins Bourgogne Pinot Noir 2018 ****+

Ég hef minnst á það oftar en einu sinni að árgangurinn 2018 í Búrgúnd virðist ætla að verða einn sá besti í röð margra afar frambærilegra árganga. Bæði á þetta á við um rauðu og hvítu vínin og gildir jafnt um dýrari sem ódýrari vín. Sem eru auðvitað afar góðar fréttir fyrir neytendur því verðlagningin á Búrgúndarvínum er yfirhöfuð dýr, svo að þegar ódýrustu vínin sem okkur standa til boða eru góð, þá er full ástæða til að gleðjast.

Flestir ættu að vita að víngerðin Louis Jadot er stórveldi í Búrgúnd og afar mikið af flöskum sem koma úr smiðju þeirra á hverju ári. Couvent des Jacobins er eitt af nokkrum rauðvínum frá Jadot sem hafa skilgreininguna Bourgogne Pinot Noir en önnur eru td Les Petits Pierres, Les Pierres Rouge og svo bara óbreyttur Pinot Noir (og eru ekki til sölu hér), en til að fólk átti sig á fjölbreytninni sem frá Jadot kemur, þá eru til að mynda talin upp nokkur hundruð mismunandi vín frá þeim á vín-appinu Vivino og auðvitað hellingur af árgöngum.

Þetta vín býr yfir ekta Pinot Noir lit, kirsuberjarauðum og tæplega meðaldjúpum. Það hefur einnig dæmigerðan Pinot Noir-ilm þar sem finna má jarðarber og villijarðarber, kirsuber, lakkrís, þurrkaða ávexti, rykug steinefni og austurlensk krydd. Það er svo meðalbragðmikið með ferska sýru og góða endingu. Þessi árgangur er þéttari og lengri en td 2017 og í munni eru dökku berin heldur meira áberandi en í nefinu. Þarna eru svo jarðarber, kirsuber, hindber, brómber, lakkrís, þurrkaðir ávextir, leirkennd steinefni, austurlensk krydd og það endar með snert af fjallagrasamjólk. Virkilega góður árgangur sem er fínn núna og getur vel geymst næstu þrjú árin. Hinsvegar eiga stærri og dýrari vínin eftir að endast áratug eða lengur í viðbót ef þið komist yfir þau. Hafið það með allskonar bragðmeiri forréttum, kæfum, ljósu fuglakjöti og feitum fiski.

Verð kr. 3.695.- Mjög góð kaup.

Lesa meira

Cerro Anon Gran Reserva 2011 fær toppdóma á Víngarðinum.

Cerro Añon Gran Reserva 2011 ****1/2

Það er alveg mögulegt að Gran Reservur muni einn daginn heyra sögunni til, svona miðað við að fleiri og fleiri víngerðir (núna þegar þriðji áratugur 21. aldarinnar er að ganga í garð) kjósa að færa framleiðslu sína til nútímans og þá er gamaldags stíll einsog Gran Reserva ekki efst á forgangslistanum. Bæði er kostnaðurinn mun meiri við að gera Gran Reservur og svo er eftirspurnin eftir sprikklandi ungum og sætkenndum vínum sem hafa verið þroskuð í nýjum frönskum eikartunnum, mun meiri. En, sem betur fer, þá eru enn nokkrir framleiðendur sem halda gömlum víngerðarstílum í heiðri og einn af þeim er Bodegas Olarra. Besta vínið sem frá þeim kemur er þetta, Cerro Añon Gran Reserva sem hægt er að versla hérna og er sennilega einhver best prísaða Gran Reserva sem hægt er að fá núna, miðað við gæði.

Einsog hefðbundið er í Rioja er þetta vín blandað úr þremur þrúgum (vínin í nútímastílnum eru með fáum undantekningum 100% Tempranillo) því auk Tempranillo eru þarna Graciano og Mazuelo. Árgangurinn 2011 hefur lengi verið talinn einn sá besti og því er fengur af þessu víni á íslenska markaðinn. Það hefur dimm-fjólurauðan lit og ríflega meðalopna angan sem er flókin og margbreytileg. Þarna má meða annars rekast á kirsuber, hindber, sultuð skógarber, dökkt súkkulaði, þurrkaðan appelsínubörk, balsam, kókos, kryddbrauð, vanilluskyr, þurrkaða ávexti og kaffi. Eikin er vissulega framarlega en hún er vel ofinn inní ávöxtinn og flýtur ekki ofaná einsog títt er um nútímavín sem hefur verið dúndrað í nýjar eikartunnur og þurfa þverfaglega áfallastreytumeðferð til að hægt sé að drekka þau.

Það er svo rétt ríflega meðalbragðmikið, þurrt, sýruríkt og þétt með talsvert magn af póleruðum tannínum sem skilar langvarandi og fínlegum prófíl. Þarna er gamli Rioja-stíllinn uppá sitt besta og við megum eiga von á að finna kirsuber, hindber, sultuð krækiber, þurrkaðan appelsínubörk, Bounty, balsam, kaffi og rykug steinefni. Verulega flott og fínleg Gran Reserva sem munar engu að fái fullt hús og á þessu verði hlýtur það að teljast með því besta sem í boði er. Hafið það með lambi, nauti eða krónhirti.

Verð kr. 3.550.- Frábær kaup.

Lesa meira

Chateau de la Ragotiére Les Vieilles Vignes 2018 fær frábæra dóma á Vinotek.is

Chateau de la Ragotiére Les Vieilles Vignes 2018 ****1/2

Muscadet hvitvínin eru framleidd í vesturhluta Loire-dalsins í Frakklandi í grennd við borgina Nantes og þau bestu eru frá undirsvæðinu Muscadet Sevre-et-Maine. Þrúgan sem Muscadet-vín eru framleidd úr heitir Melon de Bourgogne.Þetta eru yfirleitt mjög þurr vín og grösug, þeir sem eru að leita að ávaxtabombum verða að fara annað. Á móti kemur að með sjávarréttum eru þetta alveg hreint frábær vín, ekki síst með skelfisk á borð við humar, rækju og hörpuskel. Allra best eru þau með ostrum.

Chateau de la Ragotiere er óðalssetur sem á rætur sínar að rekja til fimmtándu aldar en var keypt af Couillaud-bræðrunum, sem eiga nokkur mjög virt vínhús víða um Loire-dalinn árið 1979.

Vieille Vignes merkir að vínið er gert af þrúgum af gömlum vínvið (50-60 ára) en eftir því sem vínviðurinn eldist verða þrúgurnar á hverjum runna færri en gefa að sama skapi meira bragð. Vínið er fölgult, þétt og sítrusmikil angan, sítrónubörkur og límóna, þurrt, skörp og flott sýra, þétt og fókuserað.

2.499 krónur. Frábær kaup. Þetta er frábært vín með hvítum fiski eða rækjum. Reynið með rækjukokteil.

Lesa meira

Cerro Anon Gran Reserva 2011 fær topp dóma á Vinotek.is

Cerro Anon Gran Reserva 2011 ****1/2

Það var árið 1973 sem að Bodegas Olarra reisti tilkomumikið og nútímalegt víngerðarhús í útjaðri Logrono, höfuðborgar Rioja-héraðsins.  Það var ekki einungis arkitektur hússins sem að vakti athygli heldur einnig hvernig hönnun var nýtt við víngerðarferlið til að mynda með þakhvelfingum sem að draga úr líkunum á hitasveiflum innandyra. Cerro Anon er eitt af vínum Olarra og Gran Reserva-vínið er blanda úr Rioja-þrúgunum Tempranillo (80%), Mazuelo, Graciano og Garnacha.

Dimmrautt vín, byrjandi þroski í litnum. Kröftugt, algjörlega integrerað, leður, jörð, vindlakassi, kaffi, toffí-karamella, súkkulaði, þurrkaðar plómur, Þétt, mikið og langt.Reykur. Mjög mjúkt en undirliggjandi afl, langt og mikið.

3.550 krónur. Frábær kaup fyrir þess Gran Reservu. Með nautakjöti, t.d. beef wellington.

Lesa meira

Francois d'Allaines Bourgogne Pinot Noir 2018 fær frábæra dóma á Vinotek.is

Francois d’Allaines Bourgogne Pinot Noir 2018 ****1/2

Francois D‘Allaines er með vínhús sitt í þorpinu Dermigny í suðurhluta Cote-de-Beaune. Þetta er meira það sem maður myndi kalla bóndabýli en vínhús nema hvað að d‘Allaines er ekki með fjós eða fjárhús við hliðina á húsinu sínu líkt og íslenskir bændur heldur litla víngerð og vínkjallara. Allaine hefur framleitt vín frá 1996 og hefur byggt upp góð sambönd við bændur á svæðinu sem hann kaupir þrúgur af. Þetta litla vínhús hefur byggt upp traust orðspor fyrir vönduð vín sem draga vel fram karaktereinkenni suðurhluta Búrgundarsvæðisins. Við heimsóttum Francois d’Allaines á sínum tíma og má lesa nánar um þessa sjarmerandi víngerð hér.

Þetta er bjartur og ferskur Pinot Noir, liturinn fagurrauður, í nefinu skógarber, jarðarber, rósir og jörð, eikin er mild og sæt, í munni skörp og fínleg tannín og góð sýra, mýkist þegar fær að standa, vel balanserað og gert vín.

3.550 krónur. Frábær kaup fyrir Búrgundarvín á þessu verði.

Lesa meira

Toppdómur fyrir Villa Wolf Pinot Gris 2019 hjá Vinotek.is

Villa Wolf Pinot Gris 2019 ****1/2

Villa Wolf eru vín sem Mósel-gúrúinn Ernst Loosen framleiðir í víngerðarhéraðinu Pfalz en hann tók yfir vínhúsið árið 1996. Í Pfalz er loftslag aðeins heitara en í Mósel og stíll þeirra því annar en Mósel-vínanna. Í Pfalz eru til dæmis mjög fínar aðstæður fyrir ræktun á Pinot-þrúgunum, ekki síst Pinot Noir og Pinot Gris. Hvítvínsþrúgan Pinot Gris er þekkt undir mörgum nöfnum, margir þekkja hana eflaust best undir ítalska heitinu Pinot Grigio. Eins og aðrar Pinot-þrúgur er uppruni hennar í Búrgund í Frakklandi en það var Þjóðverjinn Johann Ruland sem að uppgötvaði hana fyrst sem sérstæða þrúgu og lagði grunninn að vinsældum hennar. Hún er oft nefnd Ruländer í höfuðið á honum í Þýskalandi en líka Grauer Burgunder.Fölgult, í nefi perur, roðarunnaepli og sítróna. Í munni bjart og brakandi ferskt, ungt, þétt og flott. Skarpt, fókuserað og kryddað.

2.395 krónur. Frábær kaup. Tilvalið sem fordrykkur eða með léttum sjávarréttum, flott með sushi.

Lesa meira

Chapoutier Crozes-Hermitage Les Meysonniers 2018 fær frábæra dóma á Vinotek.is

Chapoutier Crozes-Hermitage Les Meysonniers 2018 ****1/2

Hermitage er goðsagnakennd hæð sem gnæfir yfir bæinn Tain l’Hermitage þar sem fljótið Rhone rennur í gegnum. Þetta er ein þekktasta vínekra veraldar en á láglendinu í kringum hæðina er ekki síður að finna oft frábær vín, gerð úr Syrah-þrúgunni eins og Hermitage-vínin, vín sem þurfa ekki eins langan tíma til að ná þroska og kosta brot af stóru Hermitage-vínunum. Chapoutier-fjölskyldan er þekktasti framleiðandi þessa hluta Rhone-dalsins og raunar með virtustu vínhúsum veraldar. Les Meysonniers sem er gert úr Syrah-þrúgum af 25 ára, lífrænt ræktuðum vínvið er líka eins konar „mini“-Hermitage.  Liturinn er djúpur og dökkur, út í fjólublátt þykkur sætur  og kryddaður berjasafi, kirsuber, brómber, nýmulinn pipar, villt rósmarín, blóðberg og fjós. Í munni er vínið þurrt, kröftugt, flottur tannískur strúktúr gerir þetta að höfugu og glæsilegu víni.

3.950 krónur. Frábær kaup. Þetta er vín sem ræður alveg við milda villibráð, hreindýr og gæs. Frábært með lambakjöti. Vínið hefur gott af umhellingu og það má vel leyfa því að þroskast áfram í 2-3 ár að minnsta kosti.

Lesa meira

Vinotek.is fjallar um Chateau Bonnet Reserve 2014

Chateau Bonnet Réserve 2014 ****

Chateau Bonnet er eitt af mörgum vínhúsum í eigu barna André Lurton eftir að hann féll frá á síðasta ári 94 ára að aldri. Það er kannski ekki það vínhús Lurtonanna sem er á þekktasta svæðinu, en Bonnet er í þorpinu Grézillac í Éntre-deux-Mers. Vínhúsið hefur þó ávallt haft ákveðna sérstöðu enda Bonnet heimili Lurton til margra ára. Mér hefur ávallt þótt vænt um þetta vín eftir yndislegan hádegisverð með Lurton-fjölskyldunni í Chateau Bonnet fyrir rúmum tveimur áratugum, þar sem einmittt var borið fram rautt Bonnet í magnum-flösku.

Þetta er klassískt Bordeaux-vín sem gefur alla jafna mikið vín fyrir peninginn, liturinn er dökkrauður og berin í nefi eru rauð, sæt og fín rifsber, smá kónabrjóstsykur, míneralískt. Vel strúkturerað, fín og kröftug tannín halda víninu uppi,

3.150 krónur. Mjög góð kaup. Gefið víninu klukkutíma eða svo til að opna sig. Það borgar sig.

 

Lesa meira

Vingarðurinn fjallar um Purato Catarratto Pinot Grigio 2019

Purato Cataratto Pinot Grigio 2019 ***1/2

Hin ágætu, lífrænu vín frá Purato hafa nokkrum sinnum verið til umfjöllunar hérna í Víngarðinum, bæði Grillo / Viognier-blandan og svo Siccari Appassimento sem ég var reyndar býsna hrifinn af (en einsog lesendur mínir vita er ég sjaldnast ánægður með slík vín, en það vín fékk hjá mér fjórar stjörnur). Cataratto og Pinot Grigio-blandan hefur verið nokkuð lengi til sölu hér á landi og eins Nero D’Avola, en bæði þessi vín hafa í gegnum tíðina fengið hérna þrjár eða þrjár og hálfa stjörnu. Þessi árgangur er hinsvegar bara einn sá besti og vonandi stefnir þetta vín enn hærra á komandi árgöngum.

Cataratto er sannarlega sikileysk þrúga en Pinot Grigio er frönsk/alþjóðleg og útkoman er vel neysluhæf þótt vínið sé ókomplexað og létt. Það hefur ljós-strágulan lit og meðalopinn ilm af hvítum blómum, peru, sítrusávöxtum, grænum eplum, steinaávöxtum og grænum kryddgrösum. Það er svo meðalbragðmikið, þurrt, létt og sýruríkt með keim af sítrónum, perum, grænum eplum, steinaávöxtum og einhverju sem minnir á túnsúru. Heilbrigt og auðvitað lífrænt hvítvín frá Sikiley sem er fínt með léttum forréttum, salötum, súpum, bökum og léttum fiskréttum. Ágætt líka bara eitt og sér.

Verð kr. 2.350.- Góð kaup.

Lesa meira

Villa Wolf Pinot Gris 2018 fær topp dóma hjá Vinotek.is

Villa Wolf Pinot Gris 2018 ****1/2

Hvítvínsþrúgan Pinot Gris er þekkt undir mörgum nöfnum, margir þekkja hana eflaust best undir ítalska heitinu Pinot Grigio. Eins og aðrar Pinot-þrúgur er uppruni hennar í Búrgund í Frakklandi en það var Þjóðverjinn Johann Ruland sem að uppgötvaði hana fyrst sem sérstæða þrúgu og lagði grunninn að vinsældum hennar. Hún er oft nefnd Ruländer í höfuðið á honum í Þýskalandi en líka Grauer Burgunder. Þetta vín frá Villa Wolf í Pfalz-héraði styðst hins vegar við franska heitið Pinot Gris. Vínið er ljóst á lit, í nefinu niðursoðnar perur, melóna, gul epli, það er brakandi ferskt og lifandi, sýrumikið og þykkt.

2.350 krónur. Frábær kaup. Reynið með sushi og krydduðum austurlenskum réttum.

Lesa meira

J. Christopher Willamette Valley Pinot Noir 2014 fær frábæra dóma á Vinotek.is

J. Christopher Pinot Noir 2014 ****1/2

Oregon á vesturströnd Bandaríkjanna kom sér á vínkortið með ræktun á Pinot Noir. Það erum hálf öld síðan að fyrstu Pinot Noir-vínin komu frá Willamette Valley og enn í dag er Willamette það vínhérað í Oregon sem sendir frá sér bestu Pinot-vínin. Nokkur þekkt evrópsk vínhús hafa heillast af aðstæðum á þessum svæði og má þar nefna Búrgundarhúsið Drouhin.

Vínin frá J. Christopher eru samstarfsverkefni tveggja snillinga, annars vegar Ernst Loosen, einhvers þekktasta víngerðarmanns Móseldalsins í Þýskalandi og hins vegar Jay Somers, sem hafði vakið athygli fyrir Pinot-vín í Oregon þegar þeir Loosen kynntust og ákváðu að leiða hesta sína saman.

Þetta Pinot-vín er farið að sýna nokkurn þroska en ber hann mjög vel. Liturinn er farinn að færast úr í rauðbrúnt við röndina og rauður berjaávöxturinn að taka á sig flóknari mynd, kryddaður, þarna eru tóbakslauf, kanilstöng og appelsínubörkur. Mjúkt, ávöxturinn þéttur, smá reykur, langt.

5.895 krónur. Frábær kaup, þetta er flottur, þroskaður Oregon-Pinot. Með til dæmis mildri villibráð, grilluðu nautakjöti. Ostum. 

Lesa meira

Víngarðurinn fjallar um Louis Jadot Chablis 2018

Louis Jadot Chablis 2018 ****+

Fyrir viku var hér pistill um hið frábæra rauðvín Combe aux Jacques Beaujolais Village 2018, sem Louis Jadot framleiðir í samnefndu víngerðarsvæði og einsog ég nefndi þá gerir Louis Jadot víða vín innan Búrgúndar og þetta vín hér er einmitt eitt slíkt.

Chablis er eitt besta þekkta skilgreinda víngerðarsvæði Frakklands og reyndar eitt best heppnaða „vörumerki“ sem nútíma víngerð getur um, enda voru „Chablis“-vín framleidd víða um heim (og þá sérstaklega í Kaliforníu) allt þartil frönskum yfirvöldum tókst að semja um afnám þessarar nafngjafar á sínum tíma. Þótt mér kæmi ekki á óvart að það séu enn framleidd „Chablis“-vín í Kína þá er það ekki tilviljun að víngerðarmenn um allan heim vilji feta í fótspor þessa smáþorps, nyrst í Búrgúnd.

Og hvað er það svo sem gerir Chablis-vín einstök? Þarna er eingöngu leyfð ein hvít þrúga, Chardonnay og jarðvegurinn (á öllum bestu ekrunum) er gamall sjávarbotn sem inniheldur mikið magn af kalki (eða samanþjöppuðum skeljum frá ýmsum tímum) sem gerir vínin afar steinefnarík. Eins er þetta svæði það norðarlega á hnettinum að það má engu muna að þrúgur þroskist yfir höfuð og því eru þessi vín ætíð með afar góða og frísklega sýru.

Þessi Chablis er gylltur að lit með meðalopna og aðlaðandi angan af þroskuðum eplum, sætum sítrónubúðing, vínberjum, steinaávöxtum, hvítum blómum, mjólkurfitu, steinefnum og perujógúrt. Þetta er dæmigerð og ungleg angan en Chablis-vín eru einmitt þekkt fyrir að vera afar ljúf í æsku en eiga einnig mjög farsæla elli (elli er kannski rangt hugtak, bestu Chablis-vínin eru frábær svona 5-10 ára gömul).

Það er svo meðalbragðmikið og þurrt með afar frísklega sýru og til að jafna hana út eru þarna mjúkir og kremaðir fitutónar. Þarna eru epli, sítróna, pera, steinaávextir, perujógúrt, steinefni og hunang. Virkilega vel gert Chablis-vín í mjög góðu jafnvægi og með fína endingu. Hafið þetta vín með allskonar sjávarréttum, feitur fiskur einsog humar eða flatfiskur er klassísk með þessu en ef þið eruð svo heppin að komast í ostrur þá er þetta vínið til að hafa með.

Verð kr. 3.695.- Mjög góð kaup.

Lesa meira

Louis Jadot Combe aux Jacques Beaujolais Village 2018 fær frábæra dóma hjá Víngarðinum

Louis Jadot Combe aux Jacques Beaujolais Village 2018 ****1/2

Þótt víngerðin sem kennd er við Louis Jadot sé eftilvill þekktust fyrir vínin sem gerð eru í Gullnu Hlíðinni (Côte d’Or) þá eru einnig gerð undir hans merkjum önnur vín innan Búrgúndar-svæðisins, einsog Chablis svo dæmi sé tekið og svo einnig Beaujolais, en margir gleyma því að Beaujolais er skilgreint sem Búrgúnd innan frönsku vínlöggjafarinnar.

Louis Jadot á reyndar sjálfstæða víngerð í Beaujolais sem heitir Chateau St. Jacques og frá henni koma mögnuð rauðvín sem vonandi komast einhverntíman í sölu hér á landi. Þau eru flest svokölluð „Cru“-vín, kennd við þorpin eða svæðin í Beaujolais einsog Morgon, Moulin-á-Vent og Fleurie (svo dæmi séu tekin) eða jafnvel enn smærri víngarða. En þeir gera einnig vín sem koma frá víðara svæði og Beaujolais Village þýðir einfaldlega að vínið er upprunið innan besta svæðisins innan Beaujolais án þess að vera með upprunavottun sem kennd er við þorp eða einstakan víngarð.

Eins og öll rauðvín í Beaujolais er þetta gert úr þrúgunni Gamay sem að mínu viti er afar spennandi þrúga sem hefur möguleika á að verða að stórkostlegu víni, sé rétt farið með hana. Þótt hún hafi hlotið miður gott umtal síðustu áratugi, vegna Beaujolais-Nouveau vínanna, þá eru hin hefðbundnu rauðvín frá þessu svæði í engu lík þeim fjólubláa og nýgerða djús sem margir halda að sé eina vínið sem frá þessu svæði kemur. Þvert á móti eru þau sýrurík, fíngerð og hafa hreint ótrúlega þroskamöguleika og eru þannig í flokki með þrúgum einsog Nebbiolo, Sangiovese og Pinot Noir svo einhver dæmi séu tekin.

Þetta vín er þétt og fjólurautt að sjá með rétt ríflega meðalopinn ilm af kirsuberjum, gospillu, jarðarberjum, bláberjasultu, lyngi og rykugum steinefnum. Það er svo meðalbragðmikið með afar góða sýru, þétt en fíngerð tannín og framúrskararndi jafnvægi sem skilar því mikilli endingu. Þarna má finna kirsuber, jarðarber, bláberjasultu, krækiber, kóla, austurlensk krydd og steinefni. Alveg frábært rauðvín, létt og fínlegt einsog flest rauðvín frá Búrgúnd en hefur samt heilmiklar töggur og virkar því vel með matnum. Passar með allskonar mat, ljósu sem dökku kjöti, kæfum, forréttum og jafnvel fiski.

Verð kr. 2.895.- Frábær kaup.

Lesa meira

Fimm stjörnu dómur um Barahonda Summum 2017 á Víngarðinum.

Barahonda Summum 2017 *****

Þeir sem hafa orðið sér útum Barahonda Organic Barrica 2017 (****+) hafa eftilvill rekist á stóra vínið frá þessari frábæru víngerð sem kallast Summum og vonandi hafa einhverjir reynt það nú þegar, því þar er á ferðinni alveg hreint framúrskarandi og persónulegt rauðvín.

Einsog ég minntist á þegar ég skrifaði um Organic Barrica-vínið þá er víngerðin Barahonda staðsett í héraðinu Yecla sem er ríflega eitthundrað kílómetra norðvestur af bænum Alicante og það sem einkennir landslagið þarna er þunnt lag af leirkenndu, og sendnum jarðvegi yfir þéttum kalkstein. Og það er einmitt þessi kalksteinn sem stendur uppúr í hæstu víngörðunum (þeir eru í um 700 metra hæð yfir sjávarmáli) og þaðan koma fínlegustu, sýruríkustu og bestu þrúgurnar í Yecla. Þetta vín inniheldur einmitt slíkar þrúgur.

Það er að öllu leiti úr þrúgunni Monastrell, helstu einkennisþrúgu svæðisins (sem við þekkjum líka sem Mourvédre) og vínviðurinn er ekki bara í mikilli hæð, hann er líka gamall og eftir gerjun er þetta vín þroskað í 16 mánuði í bandarískum eikartunnum svo útkoman er þétt, flókin og mikil en um leið fíngerð og matarvæn.

Það hefur ríflega meðaldjúpan, kirsuberjarauðan lit og nokkuð opna angan af rauðum berjum, líkjörskenndum kirsuberjum, plómum, negul, dökku súkkulaði. þurrkuðum ávöxtum, rykugum steinefnum og kremuðum vanillutónum. Það er svo bragðmikið, þurrt og þétt með frísklega og góða sýru og langan og kryddaðan keim. Þarna eru Mon Chéri-molar, plómur, rauð ber, þurrkaðir ávextir, kakó, krækiberjasulta, negull og vanilla. Dásamlegt og gómsætt vín sem er, þrátt fyrir stærðina, fínlegt og matarvænt og er best með flottum nautasteikum, lambi og villibráð. Fullt hús af stjörnum og vel þess virði!

Verð kr. 3.995.- Frábær kaup.

Lesa meira

Barahonda Organic Barrica 2017 fær mjög góða dóma á Víngarðinum

Barahonda Organic Barrica 2017 ****+

Eitt af þeim skilgreindu víngerðarsvæðum á Spáni sem lítið hefur farið fyrir hérna á Íslandi er Yecla, og kannski ekki furða, því það er fjarri því að vera stórt að flatarmáli og fá starfandi víngerðarhús (Consejo Regulador telur einungis upp 8 víngerðarhús og tæplega 500 ræktendur). Þarna inn til landsins (Yecla er norð-norðvestur af Alicante til að auðvelda Íslendingum að staðsetja svæðið) er heitt og þurrt og mest er ræktað af þrúgunni Monastrell sem við þekkjum einnig undir nafninu Mourvédre, en fyrr á öldum fluttist þessi þrúga frá Valensíu á Spáni meðfram strönd Miðjarðarhafsins og alla leið til Frakklands þar sem hún er einnig mikið ræktuð í dag.

Þetta lífræna vín frá Víngerðinni Bodegas Barahonda er einmitt að stærstum hluta til úr þrúgunni Monastrell en að auki er þarna hin franska þrúga Syrah og vínið er þroskað í nokkra mánuði í eikartunnum sem skilar sér í afar blíðu og ljúffengu víni. Það býr yfir ríflega meðaldjúpum rauðfjólubláum lit og hefur meðalopinn ilm af kirsuberjum, austurlenskum kryddum einsog negul og kanil, hindberjum, marsipan, lakkrískonfekti, þurrkuðum ávöxtum, plómum, leirkenndri jörð og eik. Þetta vín hefur sætkenndan og aðlaðandi undirtón og er býsna margslungið af ekki flóknara víni að vera.

Það er svo ríflega meðalbragðmikið með mjúk tannín og afar frískandi sýru á móti þessum sólþroskaða ávexti svo jafnvægið og lengdin eru sérlega góð. Þarna má finna sprittlegin kirsuber, lakkrískonfekt, marsipan, negul, kanil, þurrkaða ávexti, pipar, krækiberjasultu og steinefni. Virkilega flott og neytendavænt rauðvín sem ég mæli með að þið verðið ykkur útum og ég veit að þið munuð heillast af því rétt einsog ég. Prófið það með bragðmeiri mat, hægeldaðir pottréttir eru frábærir með því, grillmatur og flottir svínakjötsréttir.

Verð kr. 2.650.- Frábær kaup.

Lesa meira

Louis Jadot Couvent des Jacobins Bourgogne Pinot Noir 2017 fær góða dóma á Víngarðinum

Louis Jadot Couvent des Jacobins Bourgogne Pinot Noir 2017 ****

Það eru liðnir einir fimm árgangar frá því ég fékk þetta vín síðast inn á borð Víngarðsins til smökkunar. Sem er auðvitað stórmerkilegt, því ég hefði getað svarið fyrir að það hefði verið í fyrra frekar en í hitteðfyrra og segir manni að tíminn virðist fljúga frá manni á einhverjum óútskýrðum hraða. En árgangurinn 2012 fékk sömu einkunn hjá mér á sínum tíma (fjórar stjörnur) þótt mér þyki þessi árgangur kannski tveimur punktum síðri, amk um þessar mundir, en þess verður að sjálfsögðu að geta að þessi vín geta lifað og breyst á löngum tíma og oft til batnaðar.

Louis Jadot er auðvitað eitt stærsta og besta vínhús í Búrgúnd og bæði á það margar spildur sem það gerir vín úr, en einnig er keypt mikið af þrúgum (frá öðrum bændum) á þeim bæ, sem brúkuð eru í ódýrari vínin er frá þeim koma. Í heild sinni hefur mér fundist að þessi ódýrari vín frá Jadot vera nokkuð góð og þá frekar hvítu vínin en þau rauðu, en inná milli hef ég reyndar smakkað verulega góða árganga af þessum rauðu Búrgúndarvínum frá þeim, sem þó hafa ekki verið send sem sýninshorn í Víngarðinn.

Þetta vín hefur meðaldjúpan og dæmigerðan lit af Pinot Noir, kirsuberjarauðan, og meðalopinn ilm af jarðarberjum, hindberjum, sætum kirsuberjum og austurlensku kryddi einsog negul og kanil. Það er svo meðalbragðmikið og þurrt með ferska sýru, fínt jafnvægi og endingu. Þarna má greina jarðarber, brómber, krækiber, kirsuber, leirkennd steinefni og fjallagrös. Rauð Búrgúndarvín eru fínleg og sýrurík og það er þetta vín svo sannarlega. Ég, persónulega, er aðeins meira fyrir rauða ávöxtinn þegar hann verður ofaná en þetta er engu að síður vel gert og dæmigert og fínt með allskonar mat. Forréttir, fuglakjöt, villibráð og jafnvel nautasteik koma öll vel til greina.

Verð kr. 3.350.- Mjög góð kaup.

Lesa meira

Víngarðurinn fjallar um Mucho Mas

Mucho Más (án árg.) ***1/2

Alltaf kann ég betur við að sjá árganga á vínflöskum, hvort sem þeir hafa verið góðir eða slæmir á því svæði sem vínið kemur frá. Maður veit þó amk aldur vínsins og getur því ályktað hvort það sé í réttu ástandi fyrir neyslu. Mörg vín eru reyndar árgangslaus, til dæmis langflest Kampavín en það er vegna þess að þau eru blönduð úr fleiri en einum árgangi og því ekki hægt að tilgreina hann sérstaklega. Eins eru flest einföld freyðivín, einsog td Prosecco án árgangs og til skamms tíma var ekki tilgreint um árgang á flestum kassavínum.

Þetta vín er nefnilega án árgangs og ekki nóg með það, þá er upprunastaðurinn skráður vera Spánn, sem merkir að það er blanda af vínum eða þrúgum frá fleiri en einu skilgreindu víngerðarsvæði. En þrátt fyrir blandaðan uppruna og árgangsleysi er þetta allsekki verra vín en mörg sem koma frá einum bletti og einum árgangi.

Það er heldur ekkert uppgefið á flöskumiðanum hvaða þrúga eða þrúgur eru í þessu víni (miðinn segir manni eiginlega nákvæmlega ekkert) en ef maður leitar á hinum svokallaða alneti þá kemur fljótlega í ljós að það er blanda úr hinni spænsku Tempranillo-þrúgu og hinni frönsku Syrah og til viðbótar má einnig lesa að það kemur frá norður- og miðhluta Spánar og það er þroskað lítillega í bandarískum eikartunnum.

Það býr svo yfir rétt ríflega meðaldjúpum, plómurauðum lit og í nefinum má greina kirsuber, hindber, jarðarber, bláberjasultu, þurrkaða ávexti, balsam og lakkrís. Þetta vín er með sætan undirtón í nefinu og sá sætleiki er einnig vel greinanlegur í munninum en það hefur einnig prýðilega sýru svo sætan verður aldrei óþægileg og jafnvægið er reyndar furðu gott. Tannín eru einnig mjúk og endingin bara ágæt. En það er líka ríflega meðalbragðmikið og þarna má finna sætan rauðan ávöxt, sultuð bláber, plómur, þurrkaða ávexti, balsam, krydd og lítilsháttar steinefni. Þetta er stórt en ekki flókið hversdagsvín og ég veit að mikilli reynslu að þetta er akkkúrat vín sem allir Íslendingar elska: bragðmikið, þétt og með sætan undirtón. Hafið með allskonar kjötmat, pottréttum, pasta og það þolir alveg vel kryddaðan mat.

Verð kr. 1.999.- Mjög góð kaup.

Lesa meira

Umfjöllun um J.Christopher Willamette Valley Pinot Noir 2014 á Víngarðinum

J. Christopher Willamette Valley Pinot Noir 2014 ****+

Það eru margir á þeirri skoðun að útilokað sé að gera góð Pinot Noir vín utan heimahagana í Búrgúnd og undanfarin ár hefur líka vel tekist til með að heilaþvo stóran hóp vínunnenda svo þeir trúa því að einungis örfáir framleiðendur í Gullhlíðinni fögru geti gert góð vín. Ekki ósvipað og sértrúarsöfnuðurinn sem telur að súlfítlaus náttúruvín séu góð á bragðið.

En þessu er ég hjartanlega ósammála og undanfarin ár hef ég smakkað mörg verulega góð Pinot Noir vín frá ýmsum löndum og frá hinum og þessum upprunasvæðum, sem gefa Pinot Noir-vínum frá Búrgúnd lítið sem ekkert eftir. Eitt af þeim er þetta hér, frá framleiðandanum J. Christopher sem gerir sín vín í Willamette-dalnum í Oregon og þið ættuð endilega að prófa.

J. Christopher-víngerðin er í miklum tenglsum við Ernst Loosen, hinn óþreytandi víngerðarmann í Moseldalnum í Þýskalandi en hann hefur einnig unnið náið með Chateau St. Michelle í Washington (fyrir utan að gera frábær vín í Pfalz sem við könnumst vel við, Villa Wolf). Þessi Pinot Noir hefur dæmigerðan jarðarberjarauðan lit sem er tæplega meðaldjúpur, enda er litdýpt á Pinot Noir-vínum sjaldan mikil. Það hefur svo meðalopna angan þar sem blandast saman jarðarber, súr kirsuber, hindber, lakkrís, leirkennd steinefni og austurlensk grillsósa. Þetta er ilmur sem er ákaflega rauður og dæmigerður fyrir þessa frábæru þrúgu.

Það er svo meðalbragðmikið, mjúkt og sýruríkt með langt og fínlegt bragð og þarna eru einnig jarðarber, kirsuber, hindber, lakkrís, steinefni og austurlensk krydd. Ég er bara verulega ánægður með þetta vín sem minnir á góð Village-vín frá Búrgúnd og hægt að hafa með allskonar mat, bragðmiklum forréttum, ljósu og dökku fuglakjöti og rauðu kjöti.

Verð kr. 5.895.- Góð kaup.

Lesa meira

Louis de Grenelle Grand Cuvée Saumur Brut fær frábæra dóma á Vinotek.is

Louis de Grenelle Grand Cuvée Brut ****1/2

Við þekkjum fyrst og fremst Loire af vínunum sem ræktuð eru austast í héraðinu, Sancerre og Pouilly-Fumé. Meðfram fljótinu Loire þar sem það rennur frá miðju Frakklands til austurs að Atlantshafi er hins vegar að finna fjölda þorpa þar sem eru framleidd einstök hvítvín, rauðvín og freyðivín.  Saumur er eins konar hjarta svæðisins, þar sem mörg af helstu vínhúsum Loire eru með höfuðstöðvar sínar. Í Saumur einkennist jarðvegurinn af sérstakri tegund kalksteins sem á frönsku nefnist „tuffeau“ og undir borginni hafa verið grafnir út endalausir vínkjallarar úr kalksteininum.

Cave de Louis de Grenelle er eitt þessara vínhúsa og í kílómetralöngum kjallaragöngum þess er freyðivín hússins sem gerð eru með hinni hefðbundnu kampavínsaðferð, látin þroskast.  Grand Cuvée er blanda úr þrúgunum Chenin Blanc og Chardonnay, vínið er ljósgult, freyðir þétt og örugglega,  mikill sítrus, kremað, þurrt og þykkt, sýrumikið og ferskt, smá beiskja í lokin.

 

2.750 krónur. Frábær kaup. Tilvalinn fordrykkur.

Lesa meira

Vinotek.is fjallar um Sirius Rouge 2016

Sirius Bordeaux 2016 ****

Sirius er rauðvín frá Sichel-fjölskyldunni í Bordeaux sem meðal annars á nokkur af þekktustu vínhúsum héraðsins, s.s. Chateau Palmer og Chateau Angludet í Margaux. Sichel framleiðir einnig nokkur einfaldari vín og er Sirius flaggskipið í þeim flokki, vín þar sem þrúgur koma af einfaldari ekrum en Grand Cru-vínin en aðferðirnar við víngerðina eru nokkurn veginn þær sömu. Vínið hefur flottan dökkfjólubláan lit, angan af sólberjum og krækiberjum, eik sem kemur með reyk og góður tannískur strúktúr. Mjög flottur AOC Bordeaux.

2.495 krónur. Frábær kaup. Með til dæmis öndinni.

Lesa meira

Sirius Rouge 2016 fær mjög góða dóma á Víngarðinum

Sirius 2016 ****

Í hafsjó þeirra vína sem reglulega koma í reynslusölu íslenskra vínbúða er sorglega lítið af nýjum Bordeaux-vínum, sem útaffyrir sig er dálítið merkilegt því ekkert annað svæði í heiminum ber ábyrgð á eins miklu magni af víni og raunin er þar. Maður skyldi því ætla að vín frá þessu fremsta vínræktarsvæði heimsins væru vel sýnileg í vínbúðunum, en sé nánar að gáð þá eru vissulega til nokkur af betri vörumerkjunum og þau auðvitað á svo miklu verði að venjulegur neytandi treystir sér aldrei til að smakka þau.

Reyndar hafa innflytjendur lagt sig í líma við að koma með á markaðinn alveg virkilega vel prísaðar flöskur frá Bordeaux sem verðsins og gæðanna vegna ættu að vera reglulega á borðum áhugafólks, en einhverra hluta vegna hefur þetta gengið hálf illa og kannski er bara smekkur íslensku þjóðarinnar ekki þarna, sem er auðvitað sorglegt því Bordeaux er ekki bara að magni til stærsta víngerðarsvæði heimsins heldur er hvergi annarsstaðar jafnmikið af góðum vínum framleidd á einum bletti og einmitt þar. Ég ætla því að skora á ykkur lesendur að fara og versla eitt gler af þessu Bordeaux-víni og uppgötva hversu fín þessi vín eru.

Sichel-fjölskyldan á sér nokkuð langa sögu í Bordeaux, en frá því 1883 hefur hún verið að versla með vín (er svokallaður „Negotiant“) og hefur að auki keypt nokkrar eignir í Bordeaux sem hún rekur núna með glæsibrag. Þekktustu húsin sem Sichel-fjölskyldan á eru Chateau Palmer og Chateau Angludet í Margaux en að auki á hún fleiri smærri eignir og nú síðast jók hún við eignasafnið nær Miðjarðarhafinu, í Corbiéres. Sirius er auðvitað ekki sjálfstætt vínhús, það er blandað úr þrúgum sem Sichel-fjölskyldan á en komast ekki í úrvalsflokkinn í hverju Chateau-i og þar að auki kaupir hún þrúgur af traustum framleiðendum til að blanda þetta vín sem er alveg verulega gott, sé tekið tillit til verðsins og upprunans. Það er að stærri hluta (60%) Merlot en afgangurinn er Cabernet Sauvignon.

Það hefur rétt ríflega og meðaldjúpa, plómurauða áru og nefið er dæmigert og meðalopið en þar má rekast á plómur, sólber, græna papriku, krækiber, rauð sultuð ber, hangikjöt og vanillu. Það er fínt að láta þetta vín anda stutta stund og við það springur það hraðar út og ávöxturinn eykst til muna. Það er svo rétt ríflega meðalbragðmikið, þurrt með góða sýru, mjúk tannín og ákaflega gott jafnvægi. Ávöxturinn er auðvitað ekki sérlega flókinn, en hann er upprunalegur og aðlaðandi. Þarna má svo finna krækiber, brómber, sólberjahlaup, plómur, græna papriku, tóbak og rykug steinefni. Virkilega auðdrekkanlegt og matarvænt rauðvín sem er frábært með íslensku lambi og öðru rauðu kjöti.

Verð kr. 2.495.- Frábær kaup.

Lesa meira

Víngarðurinn fjallar um Herencia Altés Cupatge 2018

Herencia Altés Cupatge 2018 ****

Í fljótu bragði minnist ég þess ekki að vín frá héraðinu Terra Alta á Spáni hafi ratað í hillur vínbúðanna fyrr en þá núna. Terra Alta liggur dálítið inn til landsins, syðst og vestast í Katalóníu og einosg nafnið gefur til kynna eru víngarðarnir þar í töluverðri hæð yfir sjávarmáli enda eru vínin frá þessu svæði yfirhöfuð fínlegri en margt það sem ræktað er nær sjávarmálinu, einsog til dæmis í Penédes og Priorat. Þarna eru ræktaðar allskonar þrúgur, bæði spænskar og alþjóðlegar og fátt virðist því til fyrirstöðu að þarna verði gerð framúrskarandi vín, enda hefur héraðið uppá margt að bjóða, meðal annars ríkulegt magn af kalksteini í jarðveginum sem margoft hefur sýnt sig að er lykillinn af því að gera fínleg og margslungin vín.

Þetta lífræna rauðvín er blandað úr þrúgunum Syrah, Garnatxa og Carignan og býr yfir meðaldjúpum, plómurauðum lit. Það er svo meðalopið í nefinu kryddað og rautt enda eru mest áberandi þarna jarðarber, kirsuber, austurlensk krydd, þurrkaður appelsínubörkur og lakkrís. Það er svo rétt meðalbragðmikið í munni, sýruríkt og fínlegt með ferska sýru og töluvert langvarandi bragð sem heldur góðu jafnvægi allan tíman. Þarna eru jarðarber, kirsuber, sítrusávextir, hindber, austurlensk krydd og lakkrís. Sérlega ljúffengt vín sem minnir að mörgu leiti í stíl á vín úr Pinot Noir og er fínt með allskonar mat, villibráð, dekkra fuglakjöti og ljósu kjöti.

Verð kr. 2.795.- Mjög góð kaup.

Lesa meira

Barahonda Summum 2017 fær 5 stjörnur á Vinotek.is

Barahonda Summum 2017 *****

Yecla er víngerðarsvæði í Murcia sem er að finna tæplega hundrað kílómetra vestur af Alicante. Þetta er þurrt og heitt svæði, aðstæður sem henta þrúgum á borð við Monastrell (sem sumir þekkja undir franska heitinu Mourvédre) afskaplega vel. Barahonda Summum frá Senorio de Barahonda  er magnaður Monastrell sem sýnir vel hvers þessi þrúga er megnug í Yecla. Svarblár liturinn er djúpur og þykkur og ávöxturinn heitur, dökkur og kryddaður. svört, sultuð ber, bláber, dökkt súkkulaði og lakkrís. Í munni er vínið feitt og mikið um sig, sýran vegur á móti, kröftug mjúk tannín. Hörkuflott vín.

3.895 krónur. Frábær kaup. Þetta er vín sem þarf braðmikið kjöt. Hentar líka vel með hægelduðum réttum, s.s. lambaskönkum eða uxahölum.

Lesa meira

Barahonda Organic Barrica 2017 fær frábæra dóma á Vinotek.is

Barahonda Organic Barrica Monastrell Syrah 2017 ****1/2

Við fjölluðum á dögunum um hið frábæra Summum frá vínhúsinu Barahonda í Yecla, sem er víngerðarsvæði í Murcia sem er að finna tæplega hundrað kílómetra vestur af Alicante. Þetta er þurrt og heitt svæði, aðstæður sem henta þrúgum á borð við Monastrell (sem sumir þekkja undir franska heitinu Mourvédre) afskaplega vel. Í víninu Organic Barrica er henni blandað saman við Syrah en Barrica er spænska heitið yfir litlar (225 lítra) eikartunnur sem vínið hefur verið geymt í fyrir átöppun.

Þetta er sjarmerandi vín, liturinn er dökkur, út í fjólublátt, það eru dökk ber í nefi, þroskuð kirsuber, ávöxturinn kryddaður, þarna má greina súkkulaði, kanilstöng og lakkrís. Ferskt og ungt, tannín mjúk, vel uppbyggt matarvín.

2.650 krónur. Frábær kaup, kröftugt vín sem þolir vel kröftuga rétti.

Lesa meira

Umfjöllun um Telmo Rodriguez Corriente 2016 á Víngarðinum.

Telmo Rodrigues Corriente 2016 ****+

Allt alvöru vínáhugafólk á að hafa einhvern grun um hver Telmo Rodrigues er, en þessi spænski víngerðarmaður hefur komið ansi víða við á undanförnum áratugum. Hans þekktustu vín eru sennilega bundin við Rioja en hann gerir einnig fjölmörg önnur vín útum allan Spán (ég er persónulega alveg heillaður af hvítvínunum hans). Við hér uppá Íslandi höfum svo, sem betur fer, verið heppin að mörg af hans vínum hafa staðið okkur til boða og þar er líklega fremst Lanzaga en árgangarnir 2010 og 2012 fengu báðir fullt hús í Víngarðinum á sínum tíma, enda vandfundin betri Rioja-vín. LZ-vínið hefur einnig komið tvisvar inn á borð Víngarðsins og fengið í bæði skiptin fjórar og hálfa stjörnu. Þetta vín er að mörgu leiti ekki langt frá LZ í byggingu en nafnið Corriente („hversdags“) bendir til að það sé einfaldara. Það er þá bara rétt á yfirborðinu.

Einsog önnur Rioja-vín frá Telmo er það blandað úr Tempranillo, Graciano og Garnacha og kemur frá þeim hluta Rioja sem kallast Alavesa. Það býr yfir þéttum og djúpum lit af svörtum kirsuberjum og hefur dæmigerða, meðalopna angan af kræki- og brómberjum, súrum kirsuberjum, plómum, þurrkuðum appeslsínuberki, sveskjusteinum, leirkenndum steinefnum og mildri eikartunnu. Það er svo ríflega meðalbragðmikið, með þétt en mjúk tannín, góða sýru og unglega áru. Það hefur frábært jafnvægi og endingin er góð. Þarna má svo greina brómber, krækiberjasultu, bláber, plómur, sveskjusteina, kirsuber, kakó, leirkennda jarðartóna og sæta vanillutóna. Verulega vel gert Rioja-vín og það munar ekki miklu að það fái fjóra og hálfa stjörnu. Hafið með allskonar betra kjötmeti en lamb, naut og folald er líklega best með því.

Verð kr. 2.995.- Frábær kaup.

Lesa meira

Herencia Altés Garnatxa Blanca 2018 fær góða dóma á Víngarðinum.

Herencia Altés Garnaxta Blanca 2018 ****+

Rétt einsog margar ævafornar vínþrúgur sem eru gjarnar á að stökkbreytast er Grenache-fjölskyldan orðin býsna fjölbreytt. Hún kallast auðvitað Garnacha á Spáni þar sem hún er upprunin (nú eða Garnaxta uppá Katalónsku) og af henni eru fjölmörg afbrigði útum allan Spán og á Miðjarðarhafsströnd Frakklands. Sú algengasta er auðvitað sú rauða, sem við þekkjum best en einnig eru til afbrgiði með sérstaklega loðin blöð (Garnacha Peluda), „grá“ útgáfa (Grenache Gris), Grenache Rosé og svo sú hvíta, Grenache Blanc eða Garnatcha Blanca uppá Spænsku, sem er þeirra útbreiddust og af henni má fá virkilega góð hvítvín, haldi vínbændur og víngerðarmenn rétt á spöðunum.

Hún getur nefnilega gefið mjög mikið magn af sér, þessi ágæta þrúga, en það kemur auðvitað verulega niður á gæðunum, svo til þess að uppskera fyrstaflokks þrúgur verða menn að eiga gamlan vínvið, halda uppskerunni í lágmarki og að rækta hana í einhverri hæð yfir sjávarmáli. Og það er einmitt raunin með hið hvíta Garnaxta Blanca frá Herencia Altés.

Ég var með dóm um hið rauða Herencia Altés Cupatge 2018 (****) núna um daginn en sjálfum finnst mér hvíta vínið vera meira spennandi og reyndar alveg ferlega gott vín á allan hátt. Þétt, margslungið og sýruríkt og passa með allskonar mat.

Það er ljós-strágult að lit með rétt ríflega meðalopna angan af perum, eplum, sítrónubúðing, perubrjóstsykri, hvítum blómum, mandarínum, læm, perujógúrt, grænum kryddgrösum og blautum steinefnum. Það er svo meðalbragðmikið og þurrt með góða sýru, þéttan ávöxt og afar fína endingu. Þarna eru sítrónur, mandarína, pera, soðin epli, jógúrt, þryddgrös og svo endar það í nánast söltum steinefnum. Verulega gott og persónulegt hvítvín frá framúrskarandi víngerð. Hafið með allskonar bragðmeiri forréttum, feitum fiski og ljósu fuglakjöti.

Verð kr. 2.550.- Frábær kaup.

Lesa meira

Toppdómur um Cerro Anon Reserva 2015 á Vinotek.is

 Cerro Anon Reserva 2015 ****1/2

Það var árið 1973 sem að Bodegas Olarra reisti tilkomumikið og nútímalegt víngerðarhús í útjaðri Logrono, höfuðborgar Rioja-héraðsins.  Það var ekki einungis arkitektur hússins sem að vakti athygli heldur einnig hvernig hönnun var nýtt við víngerðarferlið til að mynda með þakhvelfingum sem að draga úr líkunum á hitasveiflum innandyra. Cerro Anon er eitt af vínum Olarra og Reserva-vínið er blanda úr fjórum meginþrúgum Rioja, Tempranillo, Garnacha, Graciano og Mazuelo. Þetta er sígilt og tignarlegt Rioja-vín, Dökkur krækiberja og sólberjaávöxtur, eikin er áberandi, það er notuð bæði ný frönsk og amerísk eik við víngerðina, sem gefur kaffi og kókostóna, reyk. Vínið er kröftugt en tannínin eru þroskuð og mjúk, áferðin þægileg, vínið langt. Frábært með mat.

2.795 krónur. Frábær kaup. Tilvalið vín með nautakjöti, þess vegna nautalund Wellington. Einnig með lambakjöti.

Lesa meira

Cerro Anon Crianza 2016 fær topp dóma á Vinotek.is

Cerro Anon Crianza 2016 ****1/2

Cerro Anon er eitt af vínunum frá Bodegas Olarra í Rioja. Þetta er blanda úr Tempranillo, Garnacha og Graciano sem ræktaðar eru í Rioja Alta og Alavesa. Þetta er vín sem sameinar ágætlega það besta úr nýja og gamla stílnum í Rioja, það hefur massívan ávöxt eins og nýbylgjuvínin, dökkum og djúpum en er líka með áberandi amerískri eik, þykkri kókosangan og creme brulée, þétt og langt í munni, þurrt og míneralískt.

2.495 krónur. Frábær kaup. Með nautakjöti. 

Lesa meira

Selvapiana Chianti Rufina 2016 fær góða dóma hjá Vinotek.is

Selvapiana Chianti Rufina 2016 ****1/2

Fattoria Selvapiana er gamalgróið vínhús á einhverju besta svæði Toskana, sem við sjáum alltof lítið af, Chianti Rufina, austur af borginni Flórens. Vínekrur Rufina-svæðisins eru í um 400 metra hæð yfir sjávarmáli og vínin þaðan eru þétt og yfirleitt með langlífari Chianti-vínum. Rétt eins og annars staðar í Chianti myndar Sangiovese meginuppistöðu vínsins en í víninu er líka örlítið af öðrum klassískum þrúgum héraðsins, Canaiolo, Colorino og Malvasia Nera.

Dimmrautt, út í fjólublátt á lit, þroskaðar plómur, bláber og tóbakslauf, skógarangan, vínið hefur þéttan og góðan strúktúr, tannín sem gefa því breidd og dýpt, það hefur mikla lengd og nægilega sýru til að geta haldið áfram að þroskast og þróast í allmörg ár til viðbótar. Opnið tímanlega og umhellið gjarnan.

2.995 krónur. Frábær kaup á þessu verði, hálf viðbótarstjarna fyrir hlutfall verðs og gæða. Vín með risotto eða pastaréttum þar sem tómatar eru grunnur sósunnar, s.s. Bolognese. 

Lesa meira

Raventos i Blanc “Blanc de Blancs” 2016 fær fimm stjörnu dóm hjá Vinotek.is

Raventos i Blanc "Blanc de Blancs" 2016 *****

Raventos-fjölskyldan hefur verið fyrirferðarmikil í vínrækt Katalóníu allt frá árinu 1497 og þær eru ekki margar víngerðarfjölskyldurnar í heiminum sem geta státað af slíkri, samfelldri sögu. Á nítjándu öld varð fjölskyldan fyrst til að framleiða cava-freyðivín og hún var lengi helsti eigandi vínhússins Codorniu. Josep Maria Raventos i Blanc seldi hins vegar hlut sinn í því fyrirtæki árið 1988 og hóf að framleiða cava undir eigin nafni. Vínhús hans ræktar þrúgur á 46 skikum sem hver og einn hefur sína sérstöðu. Raventos i Blanc leggur mikla áherslu á að vínin endurspegli uppruna sinn og svæði og fyrir nokkrum árum sagði hann skilið við skilgreininguna Cava DO sem flest freyðivínin falla undir og notar í staðinn svæðisskilgreininguna Conca del Riu Anoia, lítið víngerðarsvæði milli ána Anoia og Fox.

Blanc de Blanc er Cava-vín sem getur alveg keppt við mörg kampavín þótt það kosti ekki nema brot af verði kampavíns. Fölgult, þéttur ávöxtur í nefi með sítrus og blóm í fyrrirúmi, margslungið, míneralískt, mjög sýrumikið, þurrt og ferskt.

2.750 krónur. Frábær kaup - eiginlega geggjuð kaup. Getur vel keppt við kampavín. 

Lesa meira

Chapoutier Belleruche Cotes du Rhone 2017 fær frábæra dóma á Víngarðinum

Chapoutier Belleruche Côtes du Rhône 2017 ****1/2

Enn á ný er hérna dómur um Côtes du Rhône-vínið frá Chapoutier en þetta er í fjórða skiptið sem það kemur inn á borð Víngarðsins. Það var helst árgangurinn 2013 sem ekki var að gera mikið fyrir mig en núna síðast var það árgangurinn 2016 sem fékk fjórar plús og þá var ég viss um að varla yrði lengra komist með ekki flóknara vín. Þar hafði ég auðvitað rangt fyrir mér einsog vanalega því árgangurinn 2017 er enn betri og fer að slaga uppí bestu Rónar-ekrurnar einsog Gigondas og Cairanne.

Það er að venju að mestu leiti úr þrúgunum Grenache og Syrah að það hefur fjólurauðan, meðaldjúpan lit. Það er meðalopið í nefinu, ungt og ferskt með angan sem minnir á kirsuber, hindber, rifsber, sultuð krækiber, brómber, dökkt súkkulaði, lakkrís, lyng, kryddjurtir og steinefni. Það er svo ríflega meðalbragðmikið í munni með góða sýru og mjúk tannín. Það er ennþá ungt og mun án nokkurs vafa verða enn betra á næstu mánuðum. Þarna má svo greina rauð skógarber, sultuð kræki- og brómber, plómur, lakkrís, kakó, þurrkaðan appelsínubörk og rykug steinefni. Það hefur frábært jafnvægi og óvenju mikla lengd og er bæði í senn aðgengilegt og mikið. Þetta er vín með góðum grillmat, rauðu kjöti, fínum og hægelduðum pottréttum, norður-afrískum mat og bragðmeiri villibráð. Einhver bestu kaup sem þið getið gert þessa dagana.

Verð kr. 2.499.- Frábær kaup.

Lesa meira

Envinate Albahra 2017 fær frábæra dóma á Víngarðinum

Albahra 2017 ****1/2

Undanfarin ár hefur víngerðarteymið sem kallar sig Envínate fengið mikla athygli á Spáni og nú útum allan heim. Víngerðarteymi er betra að kalla þau heldur en víngerð því þetta er hópur sex fyrrum samnemenda sem ákvaðu fyrir nokkrum árum að gera vín ferkar en að eignast víngerðir og nú gera þau vín vítt og breytt um Spán og oft á svæðum sem hafa ekki hlotið mikla athygli. Um þessar mundir eru frægustu vín þeirra gerð á Kanaríeyjum og eru þau svo eftirsótt að varla er hægt að finna gler af þeim nema á dýrustu og bestu veitingahúsum Spánar og Bandaríkjanna. Þetta vín kemur einmitt frá skilgreindu víngerðarsvæði sem fáir hafa heyrt nefnt, Almansa sem er norður og lítillega í vestur af hinum vinsæla dvalarstað Alicante á suðurströnd Spánar. Þarna í Almansa gætir þó ekki heitrar og rakrar sjávargolu heldur er þarna heitt og þurrt og vínin eru sérstæð.

Einsog ég nefndi þá eiga sexmenningarnir ekki vínekrur en hafa gert langtímaleigusamninga við eigendurna og sjá þau algerlega um víngarðana og víngerðina. Þeirra sérstaða er að nota upprunalegar og staðbundnar þrúgur og í þessu víni eru það Garnacha Tintorera (sem einnig heitir Alicante Bouschet) og svo Moravia Agria sem er svo staðbundin og lítið útbreidd að ég hafði sjálfur ekki heyrt hana á nafn fyrr en ég bragðaði þetta vín. Og vínið er magnað.

Það hefur meðaldjúpan en þéttan og fjólurauðan lit og meðalopna angan þar sem blandast saman kirsuber, hindber, lakkrískonfekt, steinefni, Miðjarðarhafs-kryddjurtir einosg rósmarín og sítrus eða sítrónumelissa (sem er ekki algengur ilmur í rauðvíni þótt maður finni hann vissulega í hvítvíni). Það er svo ríflega meðalbragðmikið í munni, sýruríkt og mjög þurrt og hefur einstaka lengd sem telja má í mínútum. Það hefur þétta en mjúka tanníngrind og þarna má finna kirsuber, hindber, krækiber, lakkrís, steinefni og kryddjurtir. Alveg hreint framúrskarandi vín, ólíkt flestu því sem þið hafið smakkað og tilheyrir þeim flokki vína þar sem ferskleikinn og fínleikinn fara saman. Svipað og vín úr Nebbiolo, Pinot Noir, Mencia og Nerello. Frábært matarvín sem ræður við allskyns mat, bæði kjöt og fisk og þolir töluverð krydd. Einnig íhugunarvín fyrir vínnörda sem njóta þess að smakka eitthvað sem þeir hafa ekki smakkað áður.

Verð kr. 3.380.- Frábær kaup.

Lesa meira

Telmo Rodriguez Gago 2013 fær mjög góða dóma á Víngarðinum

Gago g 2013 ****1/2

Vínið með þetta sérstæða nafn kemur frá víngerðinni Compañia de Vinos Telmo Rodriguez sem staðsett er innan hins skilgreinda víngerðarsvæðis Toro, norðan og vestan við höfuðborgina Madrid á hásléttu Spánar. Það er einn af þekktustu víngerðarmönnum Spánar, Telmo Rodriguez sem er með fingurna í þessu víni (einsog mörgum öðrum á Spáni) en ég hef áður skrifað um annað vín frá þessari víngerð sem einnig má versla í vínbuðunum og nefnist Dehesa Gago. Það var þá árgangurinn 2014 af Dehesa Gago sem ég tók fyrir á sínum tíma og hann fékk hjá mér fjóra og hálfa stjörnu.

Þetta vín er eingöngu úr hinu staðbundna afbrigði af Tempranillo sem kallast Tinto de Toro og hefur mjög þéttan, kirsuberjarauðan lit. Það er svo rétt ríflega meðalopið í nefinu með angan sem minnir á sólber, sultuðu krækiber, sprittlegin kirsuber, heyrúllur, kaffi, lakkrís, tússpenna, eikartunnur og leirkennda jarðvegstóna.

Það er svo mjög þurrt í munni með áberandi ferska sýru og þétt tannín einsog jafnan er með vínin frá þessu svæði. Það hefur keim af sultuðum krækiberjum, kirsuberjum, þurrkuðum ávöxtum, lakkrís, kaffi, dökku súkkulaði, vanillu og steinefnum. Verulega stórt og mikið rauðvín og sver sig sannarlega í ætt þessara kjarnmiklu rauðvína frá Toro sem tæplega geta talist fínleg en hafa á móti mikið af persónulegum sjarma. Hafið þetta vín með bragðmiklum mat, steikum, pottréttum og grilli.

Verð kr. 3.995.- Mjög góð kaup.

Lesa meira

Chapoutier Belleruche Cotes du Rhone 2017 valið vín mánaðarins í Gestgjafanum

Chapoutier Belleruche 2017 ****1/2 

Þetta Cotes du Rhone-vín frá Chapoutier er orðið sígilt.  Vínið er vinsælt enda vel gert og dæmigert Cotes du Rhone, blanda af grenache-og syrah-þrúgum. 

Þessi árgangur er alveg þess virði að taka fram og smakka aftur, hann hefur fengið óspart lof frá vínrýnum víða um heim.  Sterkur og ferskur ilmur af skógarberjum.  Áberandi ristuð eik. 

Vínið er einstaklega mjúkt í munni, góð og þroskuð tannín, fíngert jafnvægi, langt eftirbragð með berjum og kaffi.  Frábært vín sem kallar á lambakjöt, t.d. hrygg og einnig nautasteik.

Okkar álit: Frábært vín í góðum árgangi sem ætti að hamstra en geyma ekki of lengi.  Frábær kaup.

Verð: 2.499 kr.

Lesa meira

Muriel Reserva 2013 fær mjög góða dóma hjá Víngarðinum

Muriel Reserva 2013 ****+

Miðað við hversu mörg, fjölbreytt og frábær vín okkur standa til boða frá Rioja, er eiginlega grátlegt að hugsa til þess hversu rígfastir neytendur eru í sömu vörumerkjunum. Ekki að mest seldu vínin frá Rioja séu eitthvað ómeti, þvert á móti, en mikið væri það nú gaman að neytendur prófuðu fleiri tegundir til að kynnast á eigin skinni að innan Rioja eru nokkrir stílar í gangi, sem eru afar góðir þótt þeir séu ólíkir.

Auðveldast er að skipta Rioja í tvennt eftir nýja og hefðbundna stílnum. Sá hefðbundni snýst um að blanda þremur til fjórum þrúgutegundum saman og þroska vínin lengi í (gömlum) bandarískum eikartunnum svo útkoman er mild, þroskuð og nokkuð flókin. Nýji stíllinn snýst oftar er ekki að nota einungis Tempranillo, tína berin seint og þroska svo í stuttan tíma í nýjum, frönskum eikartunnum. Útkoman er kraftmikil, berjarík og mjög eikuð. Síðarnefndi stíllinn er um þessar mundir nánast alsráðandi og aftur og aftur heyri ég útundan mér að neyendur falla unnvörpum í stafi yfir gegnheila rauða massanum og þykkfljótandi eikinni. Og alltílagi með það. En það er bara svo margt annað í boði.

Svo má að auki skipta rauðvínunum frá Rioja í grófa og fínlega stílinn og þá geta þau vín verið hvort heldur er af nýja eða gamla skólanum og til glöggvunar er það svipaður munur og á Bohemian Rhapsody með Queen og Sound of Silence með Simon og Garfunkel. Bæði góð lög en nokkuð ólík.

Muriel Reserva tilheyrir nefnilega fínlega stílnum í Rioja. Ekki að vínið sé ekki býsna breitt og vítt heldur snúast heildaráhrifin þegar öllu er á botnin hvolft um jafnvægi og fínleika. Þesskonar vín eru gjarnan há í sýru en sætan og eikin allsekki eins framarlega.

Þetta er býsna þétt vín að sjá með lit sem minnir á svört kirsuber og hefur nokkuð opinn og dæmigerðan ilm af bláberjum, sultuðum brómberjum, krækiberjahlaupi, kaffi, kalkríkum jarðvegi, heybagga, sólberjum, plómum, eik og bleki sem minnir á nýprentað dagblað. Þetta er flókinn og heillandi ilmur sem gaman er að velta fram og aftur. Í munni er það svo þurrt og ríflega meðalbragðmikið með töluverða, ferska sýru, afar gott jafnvægi og vel pússuð tannín. Þarna má greina bláber, sultuð brómber, krækiberjahlaup, sólber, kaffi, steinefni, þurrkaða ávexti, plómur og blek. Þótt ég hafi ekki fjallað um Reservuna 2012 í Víngarðinum á sínum tíma, þá var það vín framúrskarandi gott og fékk fjórar og hálfa stjörnu hjá mér, svona prívat. Árgangurinn 2013 er ekki alveg eins fókuseraður og það er helst greinanlegt eftir miðjuna, en þá raknar þessi árgangur aðeins of fljótt upp. Engu að síður verulega gott og fínlegt vín sem er fínt með rauðu kjöti með ekki of flóknu meðlæti.

Verð kr. 2.850.- Frábær kaup.

Lesa meira

Louis de Grenelle Grande Cuvée Saumur Brut fær mjög góða dóma á Víngarðinum

Louis de Grenelle Grande Cuveé Brut (án árg.) ****+

Fyrir utan sjálft kampavínshéraðið Champagne er gerður aragrúi af allskonar freyðivínum í Frakklandi. Flest þeirra eru skilgreind sem Crémant en það þýðir nokkurnvegin að þau eru gerð með hefðbundinni kampavínsaðferð (seinni gerjunin er í flösku en ekki í tank einsog td flest Prosecco og Asti-vín eru gerð) en úr þeim þrúgum sem má rækta í héraðinu. Þetta vín kemur einmitt frá Leiru-dalnum (Loire) og það er blandað úr helstu hvítu þrúgu dalsins, Chenin Blanc ásamt Chardonnay og útkoman er virkilega góð.

Það er gyllt að lit með nokkuð fínlegar loftbólur og meðalopinn ilm af sætri sítrónu, sítrónusmjöri, eplaböku, vínarbrauði, mandarínum, hunangi, flatköku, brenndu smjöri og ögn af austurlenskum ávöxtum. Það er svo nokkuð bragðmikið með frábæra sýru og mikinn og þéttan ávöxt. Þarna er sítrónubúðingur, bökuð epli, vínarbrauð, hunang, flatkaka og mjólkurfita. Virkilega skemmtilegt og bragðmikið freyðvín sem er auðvitað gott eitt og sér en er ekki síðra með forréttum og jafnvel léttum aðalrétti líka.

Verð kr. 2.950.- Frábær kaup.

Lesa meira

Raventos i Blanc “Blanc de Blancs” 2016 fær mjög góða dóma hjá Víngarðinum

Raventos I Blanc Blanc de Blancs 2016 ****+

Raventos er nafn sem allir þeir sem áhuga hafa á Cava-freyðivíni þekkja en þessi fjölskylda lagði grunnin að stórfyrirtækinu Codorníu á nítjándu öldinni. Einn af meðlimum fjölskyldunnar ákvað svo að draga sig útúr fyrirtækinu og seldi Codorníu vínekrur sínar en hélt reyndar eftir þeim bestu. Uppúr því varð til víngerðin Raventos I Blanc og víngerðarmaðurinn Pepe Raventos er jafnan talinn upp þegar frægustu víngerðarmenn Spánar eru dregnir fram.

Þetta er hefðbundið Cava að öðru leiti en því að það er árgangsvín (sem yfir höfuð er ekki) og svo er nánast enginn sykur sett útí vínið svo það er ákaflega þurrt og elegant. Það er blandað úr hefðbundnum Cava-þrúgum og hefur ljósgylltan lit og dæmigerða, meðalopna angan. Þarna eru sítrónur, læm, steinefni, möndlumassi, gul epli og smjördeig sem hefur brunnið örlítið í kantinn. Það er þurrt og glæsilegt einsog áður sagði með töluverða frískandi sýru og afar fínlega búbblur. Þarna má svo finna sítrónu, gul epli, læm, möndlumassa, greipaldin, ristaðar hnetur og sölt steinefni. Verulega flottur Cava, einn af þeim glæsilegustu og bestu sem finna má hérna um þessar mundir og er frábær sem lystauki en gengur líka með léttum forréttum.

Verð kr. 2.995.- Frábær kaup.

Lesa meira

Dr. Loosen Wehlener Sonnenuhr Trocken GG 2015 fær 5 stjörnur hjá Víngarðinum

Dr. Loosen Wehlener Sonnenuhr Riesling Großes Gewächs Dry 2015 *****

Ég segi fyrir mig, þá er Riesling ein af þremur bestu hvítvínsþrúgum sem þessi veröld hefur töfrað fram í gegnum aldirnar. Og þrátt fyrir að hún sé ræktuð útum allan heim með ágætum árangri er heimavöllur hennar Þýskaland þar sem gæði hennar verða mest og vínin sem úr þessari þrúgu fást geta verið einhver stórkostlegustu hvítvín þessa heims.

Hana má finna í allskyns útgáfum og margir þekkja hana í hálfsætum og töfrandi Kabinett-vínum frá vesturhluta Þýskalands og þá aðallega við árnar Rín og Mosel. Færri þekkja sætu Spätlese-, Auslese-, Beerenauslese- og Eiswein-vínin úr henni enda eru þau flest seld og drukkin af heimamönnum Þýðverskum. Á undanförnum árum (með hlýnandi loftslagi og breyttum smekk) þá hafa þýsku Rieslin-vínin svo í auknum mæli verið gerð þurr og alkóhólríkari (nær vínstílnum sem við þekkjum í Alsace) án þess þó að glata ferskleika sínum og núna má finna allskonar Riesling-vín í Þýskalandi, þurr og mikil og létt og fínleg og sennilega hafa þau aldrei verið betri en akkúrat núna.

Dr. Loosen ætti að vera öllum kunnur fyrir frábær vín sem hafa fengist hérna í gegnum tíðina og þetta hér, er einmitt eitt af hans betri, Großes Gewächs Riesling frá víngarðinum Sonnenuhr í þorpinu Wehlen í miðjum Móseldalnum. Þetta Großes Gewächs er reyndar hugtak sem hefur ekki sést neitt að ráði hérna heima en það er tiltölulega nýtt í þýskri vínlöggjöf. Það er best að útskýra það sem samsvarandi hugtak við Grand Cru í Frakklandi og þessa skilgreiningu má nota við þurr VDP-vín (VDP eru samtök bestu hvítvínsframleiðanda Þýskalands) frá bestu víngörðunum. Og þetta vín er einmitt eitt slíkt.

Það er strágyllt að lit með meðalopna angan af hvítum blómum, sítrónubúðing, verbena, fresíum, vínberjum, steinaávöxtum, ananas og eplaböku. Þetta er silkimjúk og örlítið búttuð angan, afar sumarleg og sætkennd.

Í munni er það hinsvegar þurrt og sýruríkt með fínlega og afar langa endingu. Þarna má finna sítrónu, verbena, ananas, steinaávexti, eplaböku, og mjúk steinefni. Þetta er flókið og fínlegt vín, afar lifandi og langvarandi þar sem hvert bragðið kemur á fætur öðru. Það er samt sem áður matarvænt, hefur heilmiklar töggur og þetta er vín sem ég get lofað að lifir og þroskast næstu tuttugu árin. Einstakt vín. Hafið með allskonar bragðmeiri forréttum, asískum mat, ljósu kjöti, feitum fiski og svo er það einnig íhugunarvín, svona eitt og sér. Ótrúlegt að hugsa til þess að meðan vínsnobbarar láta selja sér mun dýrari þorpsvín frá Búrgund þá hreyfist þetta vín varla í hillum vínbúðanna. Þetta hér er nebbnilega á pari við Grand Cru.

Verð kr. 3.995.- Frábær kaup.

Lesa meira

Lanzaga 2012 fær frábæra dóma hjá Víngarðinum og 5 stjörnur

Lanzaga 2012 *****

Bodega Lanzaga í Rioja er í góðum höndum undradrengsins Telmo Rodrigues sem er einn af mörgum frábærum víngerðarmönnum Spánar um þessar mundir. Hann kemur nálægt fjölmörgum vínum útum allan Spán, allt frá Alicante til Valdeorras með viðkomu í Toro en þetta vín hér eitt af fjórum vínum sem hann gerir í Rioja og þegar árgangurinn er framúrskarandi einsog 2012 var þá getur maður verið nokkuð öruggur með útkomuna.

Fyrir löngu var það árgangurinn 2010 sem var hér til umfjöllunar og þótt hann hafi fengið fimm störnur þá er 2012 enn betra og mun líklegra til þess að eiga lengri og betri lífdaga. Það er sem áður aðallega úr Tempranillo en til viðbótar eru þarna Graciano og Garnacha. Það hefur mjög þéttan plómurauðan lit og rétt ríflega meðalopna angan af sultuðum blá- og aðalbláberjum, toffí, mokkasúkkulaði, þurrkuðum ávöxtum, krækiberjahlaupi, heybagga, beiskum möndlum, vanillu og kókos. Það er lengi að opnast og á þessari stundu myndi ég ekki hika við að umhella því svona einsog þremur klukkustundu fyrir neyslu.

Það er þurrt og mjög þétt í munni með afar ferska og unglega sýru, lengi að koma (og lengi að fara!) og þá birtist flauelsmjúkur og fínlegur ávöxtur með langvarandi bragð. Þarna má svo finna krækiber, sultuð bláber, sólberjahlaup, dökkt súkkulaði, toffí, kaffi, vanillu og ristaðan kókos. Hreint út sagt stórkostlegt vín á alla kanta, mikið en fínlegt, tannínríkt en mjúkt, ávaxtaríkt en þurrt og það mun batna næstu árin í kjallaranum. Góð hugmynd að kaupa kassa og taka eina á ári næstu 12 árin. Þetta er einsog öll vín frá Rioja, gert til að hafa með mat og það gengur með öllum jólamatnum nema kannski súkkulaðimolunum á eftir, en þó getur það vel verið. Ég hef bara ekki prófað það. Best með lambi, nauti, svíni og villibráð en fínt með fiskinum líka. Svo er þetta líka dæmigert íhugunarvín sem gott er að hafa í glasinu allt kvöldið!

Verð kr. 3.999.- Frábær kaup.

Lesa meira

M. Chapoutier Les Meysonniers Crozes Hermitage 2016 fær fimm stjörnur hjá Víngarðinum

M. Chapoutier Les Meysonniers Crozes Hermitage 2016 *****

Það er þakklátt hlutskipti að fá núna í hendurnar öll þessi stóru vín að dæma áður en jólahátíðin brestur á. Og þau eru fleiri en tvö og þrjú sem að mínum dómi verða að kallast framúrskarandi og fá fullt hús stiga (fyrir utan öll góðu vínin sem ég fæ engin sýnishorn af og þið verðið bara að prófa sjálf). Eitt þessara vína er nýjasti árgangur af Crozes Hermitage-víninu frá Michel Chapoutier og þótt Crozes Hermitage teljist sjaldan vera í sömu deild og sjálf Hermitage-vínin þá hefur víngerðarfólkinu hjá Chapoutier einhvernvegin tekist að búa til nánast fullkomið rauðvín sem getur vel keppt við marga af þeim sem eru að framleiða Hermitage. Ég fullyrði að minnsta kosti að þau Hermitage-vín sem ég byrjaði að smakka fyrir rúmum 30 árum voru ekki svona góð, þótt ég efist ekki um að menn geri allmennt betur öll vín, nú á dögum.

Crozes Hermitage er skilgreint víngerðarsvæði í kringum sjálfa Hermitage-hæðina við þorpið Tain, sem rís tignarlega við fljótið Rhône og undir allri hæðinni er gegnheilt granínt sem gefur vínunum þessa sérstöku byggingu. Sjálf Hermitage-hæðin er í raun agnarsmá og hefur brattar suðurhlíðar þar sem nokkrir vínræktendur eiga mis-stóra skika og verða að sinna vínviðnum í manndrápshalla svo nánast öll vélræn aðstoð er útilokuð. Enda eru Hermitage-vín dýr í framleiðslu. Norðan, austan og sunnan við Hermitage-hæðina er svo nokkuð stærra svæði sem kallast Crozes Hermitage og þar eru ekrur misgóðar og skiptir þá miklu máli að kaupa þrúgur af bestu ræktendunum eða eiga sjálfur góðar ekrur með réttum jarðvegi og réttri afstöðu til sólar. Ekki spillir svo að Chapoutier gerir nánast öll sín vín á lífrænan hátt og það hefur síður en svo dregið úr gæðum þeirra undanfarna árganga.

Þetta vín býr yfir þéttum, plómurauðum lit og hefur meðalopna, nokkuð sveitalega angan þar sem finna má jarðarber, hindber, pipar, sultuð krækiber, austurlensk krydd einsog negul og kanil, dökkt súkkulaði, steinefni, beiskar möndlur og, einsog títt er um vín frá Norður-Rhône (og mörgum þykir ekki smekkleg lýsing), nýja mykju. Þetta er dæmigerð ung og upprunaleg angan og það er ekki hefð í Hermitage að nota mikið af nýjum eikartunnum til að þroska vínið, heldur eru notaðar stærri ámur eða eldri tunnur og því verður eikarilmurinn aldrei jafn megn og td í stórum Bordeaux-vínum eða þykkum, spænskum rauðvínum.

Það er svo ríflega meðalbragðmikið í munni, mjög þétt, þurrt og langvarandi með góða sýru og afar vandaða tanníngrind sem heldur utan um þennan mikla og fínlega ávöxt. Þarna má finna krækiber, hindber, kirsuber í spritti, pipar, kúmen, dökkt súkkulaði, tóbak og heilmikið af steinefnum, allt ofið saman í magnaða heild. Glæsilegt rauðvín, ekta Syrah frá Norður-Rhône og einsog skapað fyrir villibráðina á jólunum.

Verð kr. 3.395.- Frábær kaup.

Lesa meira

Chapoutier Belleruche Cotes du Rhone 2016 fær mjög góða dóma hjá Víngarðinum

M. Chapoutier Belleruche Côtes-du-Rhône 2016 ****+

Ég bind töluverðar vonir við að hin frábæra víngerð Michel Chapoutier sé að vinna sér traustan sess á meðal íslenskra neytenda, enda eru vínin frá þessari framsæknu og merkilegu víngerð afar vel gerð og matarvæn. Þótt enn hafi ekki sést hérna vínin Hermitage eða St. Joseph (svo einhver dæmi séu tekin af þeirra bestu vínum) eru þau sem í boði eru, hverju öðru betra. Gott dæmi um það er þetta hér, Belleruche Côtes-du-Rhône sem eflist með hverjum árgang.

Til upprifjunnar má nefna að árgangurinn 2011 fékk hér fjórar stjörnur og árgangurinn 2013 fékk þrjár og hálfa (2012 fékk ekki dóm en var nánast jafn góður og 2016) . Nú er árgangurinn 2016 kominn í hillur og hann er hreint út sagt frábær. Sennilega sá besti af þeim sem ég hef bragðað.

Þetta vín er auðvitað upprunið í Rónar-dalnum og blandað úr þrúgunum Grenache og Syrah. Það hefur meðaldjúpan, rúbínrauðan lit og meðalopna angan af rauðum, sultuðum berjum, dökkum berjum, austurlensku kryddi, pipar, lakkrís og rykugum steinefnum. Það er þurrt og sýruríkt í munni, nokkuð bragðmikið og hefur þétt en fínkornótt tannín. Þarna má greina rauð ber (td jarðarber), bróm- og krækiber, timjan, rósmarín, negul, pipar, balsam, kaffi og lakkrís. Virkilega mikið um sig af svona hversdagslegu víni að vera og fer vel með allskonar bragðmeiri kjötréttum, hægelduðum pottréttum og pasta. Alhliða vín.

Verð kr. 2.499.- Frábær kaup.

Lesa meira

Umfjöllun um Chateau Goumin 2015 á Víngarðinum

Chateau Goumin 2015 ****

Í öllu því flóði af rauðvínum sem skilar sér í hillur vínbúðanna er það útaf fyrir sig merkilegt að héraðið Bordeaux vilji oft gleymast. Kannski ekki skrítið því víngerðarfólk annarsstaðar í Frakklandi, á Spáni, Ítalíu og í Suðurálfum getur oftar en ekki boðið betri vín á betra verði og því verða þau vín oftar fyrir valinu. Ég er nú samt á því að við verðum af og til að kíkja á upprunalega vínstílinn sem menn reyna að líkja eftir útum allar jarðir, því góður Bordó er bara engu líkur og alveg sama hvað menn hamast við að gera kópíur af þeim vínum þá er orgínallinn oftast bestur.

Fyrir tæpum fjórum árum var hérna í Víngarðinum árgangurinn 2011 til skoðunar og fékk þá þrjár og hálfa stjörnu. Árgangurinn 2015 er til muna betri og á fínu verði svo það er full ástæða að prófa hann. Rétt einsog áður er þetta vín blandað til helminga úr Merlot og Cabernet Sauvignon og býr yfir ríflega meðaldjúpum fjólurauðum lit. Það er meðalopið í nefinu og hefur dæmigerða angan af sólberjum, plómu, sultuðum bróm- og krækiberjum, papriku og leirkenndri jörð.

Það er þurrt og meðalbragðmikið með góða sýru og mjúk tannín og þarna má finna, sólber, plómu, krækiber, súkkulaði, og leirkennd steinefni. Verulega glæsilegt rauðvín og einsog alltaf er það jafnvægið sem einkennir góðan Bordeaux, ekki krafturinn. Hafið með rauðu kjöti, sérstaklega lambakjöti og hörðum ostum.

Verð kr. 2.450.- Mjög góð kaup.

Lesa meira

M. Chapoutier Bila Haut Occultum Lapidem 2014 fær fimm stjörnur hjá Víngarðinum

M. Chapoutier Bila Haut Occultum Lapidem 2014 *****

Það er óhætt að ganga að gæðunum vísum hjá Michel Chapoutier og hans besta ekra í Languedoc er án efa Bila Haut sem er skilgreind sem Cotes du Roussillon Village.  Þar eru að jafnaði gerð 6 mismunandi vín og er Bila Haut Occultum Lapidem (Viskusteinninn) eitt af þeim bestu.  Aðeins sérútgáfurnar Crysopée, v.i.t. og r.i. standa ofar í röðinni, en af þeim vínum er reyndar gert afar lítið magn.

Occultum Lapidem er blandað úr þrúgunum Syrah, Grenache og Carignan og hefur gegnheilan og dimman, kirsuberjarauðan lit.  Það er ríflega meðalopið í nefinu með flókna og kryddaða angan af hind- og jarðaberjum, bláberjasultu, austurlesnkum kryddum, reykelsi, bananastöng, tímjan, rósmaríni, pipar og utan um þetta er svo silkimjúk eikarangan.

Í munni er það kröftugt, þurrt og sýruríkt með mjúk og mikil tannín og það hefur langa og feita endingu.  Þarna  eru rauð ber, dökk sultuð ber, kryddjurtir, pipar og eik.  Ferlega flott og margslungið vín frá Suður-Frakklandi.  Alls ekki eins sætt og mörg önnur vín frá sama svæði og fínlegra en maður á von á.  Athugið að það eru tveir árgangar í gangi núna í Vínbúðinni og ekki er ólíklegt að 2015 sé auðfundnari.  Vonandi kemur dómur um hann fljótlega.  Eins má benda á vel heppnaða gjafaöskju með þessu víni og Norður Rónanum Les Meysonniers Crozes-Hermitage sem er á fínu verði (kr. 7.950.-).  Hafið þetta vín með kröftugum steikum, grillmat og bragðmikilli villibráð.

Verð kr. 3.595.- Frábær kaup.

Lesa meira

M.Chapoutier Eleivera Douro 2014 fær frábæra dóma á Vinotek.is

Michel Chapoutier er einn fremsti víngerðarmaður Frakklands og hann hefur á undanförnum árum fært út kvíarnar með framleiðslu á vínum utan heimaslóðanna í Hermitage í Rhone-dalnum. Eitt af þeim svæðum sem heillað hefur Chapoutier er hvað mest er Douro-dalurinn í Portúgal sem er að verða eitthvert mesta spennandi raunvínsgerðarsvæði Evrópu þessa stundina.

Vínið Eleivera er inngangsvínið í vínseríunni sem Chapoutier framleiðir í Douro, það er dökkt, enn ungt og þarf svolítinn tíma til að opna sig. En það borgar sig að gefa því þann tíma. Ávöxturinn er dökkur, kryddaður og míneralískur, hefur yfir sér svalt og ferskt yfirbragð. Sultuð sólber, dökk kirsuber, áberandi blómaangan, mjúkt og mikið.

2.695 krónur. Frábær kaup á því verði. Rautt kjöt og mild villlibráð. 

Lesa meira

Felsina Berardenga Chianti Colli Senesi 2015 fær frábæra dóma á Vinotek.is

Fattoria Felsina er eitt af bestu vínhúsunum í suðurhluta Chianti Classico-svæðisins en ekrur vínhússins eru á mörkum Chianti Classico og Chianti Colli Senesi, eru farnar að teygja sig inn á svæðið sem kennt er við Siena. Vínið Berardenga er Chianti Colli Senesi, hreint Sangiovese-vín. Dökkrautt með smá fjólubláum tónum, í nefi þroskuð kirsuber og skógarber, blómaangan, jörð og austurlensk krydd. Elegant og fínt í munni, fín sýra og góður tannískur strúktur.

2.795 krónur. Frábær kaup. Flott matarvín með mildri villibráð eða nautakjöti. 

Lesa meira

Gaba do Xil Godello 2016 fær frábæra dóma á Vinotek

Gabo de Xil er enn eitt vínið frá Telmo Rodriguez, einhverjum magnaðasta víngerðarmanni Spánar, sem hingað berst. Rodriguez er oft nefndur í sömu andrá og snillingurinn Alvaro Palacios í Priorat. Rodriguez gerir vín víða um Spán og leitast við að draga fram sérkenni og styrk hvers svæðis fyrir sig og þeirra vínþrúgna sem þar eru ræktaðar. Áður höfum við m.a. fjallað um vín hans frá Rioja, Alicante og Toro .Þetta hvítvín er hins vegar frá Valdeorras í Galisíu og þrúgan er Godello, þrúga sem aðallega má finna á norðversturhluta Spánar og nýtur vaxandi vinsælda. Ljógult á lit, angan af sætum, ljósum ávöxtum, ferskjur, „tutti frutti“-tyggjó, blóm,  fókuserað, míneralískt með vott af þægilegri seltu í lokin. Algjörlega magnað.

2.850 krónur. Frábær kaup. Magnað vín með mat. 

Lesa meira

Telmo Rodriguez Lanzaga 2010 fær frábæra dóma á Vinotek.is

Telmo Rodriguez Lanzaga 2010 *****

Telmo Rodriguez er einn af virtustu og bestu víngerðarmönnum Spánar og oft nefndur í sömu andrá og snillingurinn Alvaro Palacios í Priorat. Rodriguez gerir vín víða um Spán og leitast við að draga fram sérkenni og styrk hvers svæðis fyrir sig og þeirra vínþrúgna sem þar eru ræktaðar. Heimaslóðir hans eru hins vegar í Rioja-héraðinu og þar framleiðir hann vínið Lanzaga og síðan einnig ofurvínið Altos de Lanzaga og einnar ekru vínið Las Beatas.

Þetta er magnað Rioja-vín, með þeim betri sem hér eru í boði og hafa verið í boði og þá ekki einungis vegna þess hve stórkostlegur 2010 árgangurinn er almennt. Svarblátt á lit, angan af mjög dökkum berjum, krækiberjum, kirsuberjum, leður og reykur, kryddað með áberandi og kröftugri eik, sem þó er vel samofin ávextinum, vínið ennþá ungt, mjög kraftmikið. Þetta er vín sem þarfnast umhellingar, og helst geymslu.

3.995 krónur. Frábær kaup. Einhver bestu kaup í rauðvínum þessa stundina. 

Lesa meira

Fonterutoli Chianti Classico 2013 fær frábæra dóma á Vinotek.is

Fonterutoli Chianti Clasico 2013 ****1/2

Fonterutoli eru vín frá Mazzei-fjölskyldunni, einni þekktustu vínfjölskyldu Toskana-héraðsins á Ítalíu. Þetta vín, sem er eins konar „annað“ vín fjölskyldunnar á eftir chateau eða öllu heldur kastalavíninu Castello di Fonterutoli, hefur löngum verið með þeim allra bestu í sínum flokki. Nútímalegt og tignarlegt í senn.

Mjög dökkt á lit, massíft og mikið, heldur hlutunum þétt að sér í fyrstu, þarf tíma til að opnast, þetta er þungaviktar Chianti Classico. Dökk ber, krækiber, sólber, þarna er líka kóngabrjóstsykur og krydd, sýrumikið, þétt, tannískt, virkilega vel strúktúrerað.

3.395 krónur. Frábær kaup. 

Lesa meira

Vinotek gefur Telmo Rodriguez Al-muvedre Monastrell 2014 mjög góða dóma

Al-muvedre Tinto Monastrell 2014 ****1/2

Alicante er óneitanlega svæði sem er þekktara fyrir strendurnar sínar en vínin. Þarna er engu að síður þó nokkur vínrækt og vín þaðan kom oft frábærlega á óvart en þið getið lesið nánar um vínræktina í Alicante með því að smella hér. Í vínbúðunum voru fyrir nokkrum árum fáanleg vín frá hinum stórgóða vínhúsi Sierra Salinas og nú er komið í hillurnar vínið Al-muvedre frá Telmo Rodriguez, sem er þekktastur fyrir víngerð sína í Toro (ekki láta Toro-vínði g Dehesa Gago fram hjá ykkur fara en það er líka til í vínbúðunum). Þetta Alicante vín er hins vegar úr þrúgunni Monastrell sem einhverjir kannast eflaust betur við undir hinu franska heiti hennar Mourvédre.

Dökkrautt, bjart og berjamikið, kirsuber ríkjandi, þroskuð, jafnvel vottur af þurrkuðum berjum, plómur, nokkuð kröftugt, þetta er 14% vín en þó aldrei þungt, þökk sé flottri sýru, þurrt, svolítið míneralískt.

2.250 krónur. Frábær kaup. Verulega gott matarvín. 

Lesa meira

Felsina Berardenga Chianti Classico 2013 fær frábæra dóma á Vinotek.is

Felsina Berardenga Chianti Classico 2013 ****1/2

Fattoria Felsina er eitt af bestu vínhúsunum í suðurhluta Chianti Classico-svæðisins en ekrur vínhússins eru á mörgum Chianti Classico og Chianti Colli Senesi, eru farnar að teygja sig inn á svæðið sem kennt er við Siena.

Felsina Berardenga er tignarlegur og fágaður Chianti Classico, dökkrauð ber og villt ber, kryddað, smá negull og tóbakslauf, kryddjurtir, þétt, tannískt og míneralískt í lokin. Langt.

3.495 krónur. Frábær kaup. Með lambi, nauti eða hörðum ostum. 

Lesa meira

Dehesa Gago 2014 valið bestu rauðvínskaupin árið 2016 hjá Vinotek.is

Það var af nógu að taka þegar kom að góðum rauðvínskaupum.Það vín sem þó stendur upp úr þegar að horfum til baka er víni G Dehesa Gago 2014 frá vínhéraðinu Toro.

Þvílíkt vín á þvílíku verði.

Lesa meira

Chateau de Tracy Pouilly Fume 2014 fær frábæra dóma á Vinotek.is

Chateau de Tracy er vínhús í hjarta Frakklands með langa og mikla sögu. Rekja má sögu víngerðarinnar aftur til fjórtándu aldar en það er greifinn af d’Estutt d’Assay sem nú hefur aðsetur í þessu tignarlega chateau-i.

Ljóst á lit, í nefi afskaplega elegant, fínleg angan, greni, græn ber, sætur sítrus, grösugt og töluvert mineralískt. Þykkt, fersk sýra og mjúkur ávöxtur. Hrikalega flott.

3.791 króna. Frábær kaup. ****1/2

Lesa meira

Domaine la Moriniere Chardonnay 2015 fær góða dóma hjá Vinotek.is

Domaine la Moriniere Chardonnay 2015 ****

Chardonnay er ekki þrúga sem maður tengir yfirleitt við Loire-dalinn í Frakklandi sem er jú hvað þekktastur fyrir að vera eitt af meginræktunarsvæðum Sauvignon Blanc.  En engu að síður er hana að finna þar eins og víðast hvar annars staðar eins og þetta vín frá Domaine la Moriniere sannar.

Það er fölgult á lit, gul epli og græn í nefi, hvít blóm og smá sítrus, þægilega ferskt og fínt í munni.

1.999 krónur. Frábær kaup á þessu verði, snotur franskur Chardonnay.  Hálf auka stjarna fyrir hlutfall verðs og gæða.

Lesa meira

Suavia Soave Classico 2015 fær frábæran dóm á Vinotek.is

Suavia Soave Classico 2015 ****1/2

Þorpið Soave norður af Verona er ein helsta miðstöð hvítvínsframleiðslu á Ítalíu og í hjarta svæðisins má finna Soave Classico. Nafnið Soave mun koma af germönskum ættbálki er kallaði sig Svevía er flutti á þessar slóðir til forna og umbreyttist nafnið fyrst í Suavi og loks Soave. Suavi er líka vínhús Tessari-fjölskyldunnar. Hún hefur ræktað vínþrúgur í Soave frá því á nítjándu öld og árið 1982 stofnuðu hjónin Giovanni og Rosetta sitt eigið vínhús. Það er nú rekið af dætrum þeirra, þeim Meri, Valentínu og Alessöndru.

Tvær meginþrúgur má finna á svæðinu, Garganega og Trebbiano og Suavi Soave Classico er hreint Garganega. Það hefur fölan lit, ferska angan, sítrus, græn og gul epli, þurrt hey, smá krydd, í munni brakandi ferskt, skarpt og míneralískt. Unaðslegt matarvín.

2.695 krónur. Frábær kaup. 

Lesa meira

Víngarðurinn fjallar um Louis Jadot Macon Chardonnay 2014

Louis Jadot Mâcon Chardonnay 2014 ****+

Það er munur á Chardonnay frá Gullströndinni (Côte d’Or) og þeim sem eru gerð sunnar í Búrgúnd. Stundum er það lítilsháttar munur en oftast nær er hann vel greinanlegur og þá má yfirleitt segja að þau sem gerð eru í Mâcon séu suðrænni, ögn alkóhólríkari og með meira af austurlenskum ávöxtum. Þau frá suðurhlutanum eru að jafnaði einnig minna jarðbundin, endast skemur en geta á hinn bóginn verið ansi sjarmerandi í æsku sinni.

Þetta vín er einmitt frá suður-Búrgúnd og gert af hinu vel þekkta vínhúsi Louis Jadot. Það hefur gylltan lit með smá grænum tónum og meðalopna angan af sítrónu, eplum, peru, hvítum blómum, kerfil, apríkósum, læm, ananas, mjólkurfitu, mangó og melónu. Utan um þetta er léttur eikarilmur svo nefið verður að teljast afar skemmtilegt og dæmigert.

Í munni er það þurrt, sýruríkt og mjúkt með góða lengd og í mjög góðu jafnvægi. Það er alltumlykjandi einsog gott Chardonnay frá þessum slóðum á að vera og með glefsur af sítrónu, eplapæi, peru, grænum kryddgrösum, ananas, læm, rauðu greipaldin, rjóma, eik og toffí. Verulega góður Chardonnay sem munar engu að fái fjóra og hálfa stjörnu. Hafið með bragðmeiri fiskréttum, skelfisk, ljósu kjöti, mörgum forréttum og svo er það æði, barasta eitt og sér.

Verð kr. 2.999.- Frábær kaup.

Lesa meira

Planeta Chardonnay 2014 fær fimm stjörnur hjá Víngarðinum

Planeta Chardonnay 2014 *****

Ég veit fyrir víst að þetta vín á sér marga aðdáendur frá fornu fari, enda var þetta vín lengi til sölu hér á árum áður og illu heilli datt það úr sölu á sínum tíma. Það hefur nú snúið aftur og er enn betra en áður, fíngerðara og fágaðra og enn „Búrgúndarlegra“ en það var.

Það er gert á Sikiley og er nú með skilgreininguna DOC Menfi, sem skiptir örugglega flesta litlu máli en segir okkur nördunum að það er gert innan skilgreinds víngerðarsvæðis á suð-vestanverðri Sikiley. Það hefur djúp-gylltan lit og ríflega meðalopinn ilm sem er þéttur og efnismikill. Sem fyrr er eikin áberandi en allsekki í sama mæli og áður og nú er hún líka ekki eins ristuð og áður var, sem hjálpar víninu að halda glæsileikanum allt til enda. Þarna má finna sæta sítrustóna, vanillu, bökuð epli, hunang, mangó, ananas, tússpenna, kókos og hlaupnammi. Virkilega spennandi og margslungin angan.

Í munni er það sýruríkt, þétt, þurrt og langavarandi, mun fínlegra en áður og býsna nálægt þorpinu Puligny í stíl. Það er vel bragðmikið og með keim af sætum sítrusávöxtum, bökuðum eplum, hunangi, reyk, vanillu, steinefnum og austurlenskum ávöxtum. Virkilega góður kostur fyrir þá sem heillast af stórum og finlegum Chardonnay-vínum og svo kostar það bara brot af því sem sambærileg hvítvín frá Búrgúnd kosta. Hafið með bragðmiklum fiskréttum, td humri og feitari fiski, ljósu kjöti, allskonar forréttum og svo er þetta vín sem hægt er að njóta uppá sitt einsdæmi. Berið það allsekki fram of kalt! 10-14°C er mjög fínt hitastig.

Verð kr. 4.480.- Frábær kaup.

Lesa meira

Ser Lapi Chianti Classico Riserva 2013 fær 5 stjörnur hjá Víngarðinum

Ser Lapo Chianti Classico Riserva 2013 *****

Eitt af öruggustu og bestu Chianti-vínum sem eru í boði núna er Fonterutoli og bæði Chianti Classico og Castello di Fonterutoli eru fádæma góð. Og þann flokk fyllir Ser Lapo sem er Riserva útgáfan af Chianti Classico-víninu þeirra.

Vínið er kennt við forföður Mazzei-fjölskyldunnar, Ser Lapo sem fyrstur manna greinir frá Chianti-víni á prenti fyrir rúmum 500 árum og núna á 21. öldinni er familían ennþá að gera frábær vín sem verða bara betri og betri með árunum.

Þetta vín hefur meðaldjúpan kirsuberjarauðan lit og þéttan kannt. Það er ríflega meðalopið og dæmigert í nefinu með þennan einstæða ilm sem einkennir vínin frá Toskana: Þarna eru kirsuberjakonfekt, hindber, leður, plóma, vanilla, súkkulaði, þurrkaður appelsínubörkur, mómold, heybaggi, kaffi og ryk. Framúrskarandi skemmtilegt vín í nefi og það borgar sig að umhella þessu víni.

Í munni er það meðalbragðmikið, þurrt með áberandi sýru og töluvert áberandi þroskuð tannín. Það er matarvænt og bestu eiginleikar þess koma tæpast í ljós fyrr en það hefur verið parað með rétta matnum. Það má finna í því kirsuber, krækiber, brómber, vanillu, súkkulaði, sólber og kaffi. Þeta er eitt af þessum vínum sem ætlar aldrei að enda og hæglega getur maður verið að dreypa á því í nokkra klukkutíma því það tekur sífelldum breytingum. Það endist líka í nokkur ár í kjallaranum fyrir ykkur sem hafið gaman að slíku. Hafið með fínum og einföldum réttum úr rauðu kjöti þar sem bæði vín og matur fá að njóta sín.

Verð kr. 3.650.- Frábær kaup.

Lesa meira

Umfjöllun um Domaine de Tariquet Róse de Pressée 2015 á Vinotek.is

Domaine de Tariquet Róse de Pressée 2015  ***1/2

Rósavínið frá Domaine de Tariquet í Gascogne í suðvesturhluta Frakklands svíkur ekki frekar en önnur vín þessa ágæta vínhúss. Það er fallega rauðbleikt með sumarlegri angan af hindberjum og rifsberjasultu, berin halda áfram út í gegnum bragðið, vínið hefur fínan ferskleika og er ekta, ekta sumarvín.

2.190 krónur. Mjög góð kaup. Flottur fordrykkur eða sem vín með sumargrillinu. 

Lesa meira

Vinotek.is fjallar um Ser Lapo 2013

    Ser Lapo Chianti Classico Riserva 2013 ****

Ser Lapo er eitt af vínum Mazzei-fjölskyldunnar sem er áhrifamikil í víngerð Chianti-svæðisins í Toskana á Ítalíu og á þar meðal annars vínhúsið Fonterutoli þar sem fjölskyldan hefur stundað vínrækt frá 1435. Ser Lapo Mazzei var einn af forfeðrum fjölskyldunnar og mun hafa verið sá fyrsti sem að notaði heitið „Chianti“ yfir vín svæðisins.

Angan vínsins er þurr, þarna eru þurrkaðir ávextir, kirsuber og kryddjurtir, blóðberg, reykur, jörð og eik. Það er smá blek í nefinu og leður, tannín eru kröftug og vínið hefur góða sýru. Matarvín.

3.650 krónur. Mjög góð kaup. 

Lesa meira

Pazo Cilleiro Albarino 2015 fær frábæran dóm hjá Vinotek.is

Pazo Cilleiro Albarino 2015 ****

Við erum loksins farin að sjá hér í búðunum í auknum mæli vín frá frábærum spænskum vínhéruðum á borð við Rias Baixas í Galisíu. Þetta er gamalgróið svæði en hefur verið í mikilli sókn og ný vínhús að spretta upp. Pazo Cilleiro er eitt þeirra og þetta er annar árgangurinn sem kemur þaðan. En þetta er samt algjörlega fullburða vín gert úr hinni unaðslegu Albarino-þrúgu héraðsins í samvinnu eins af þekktari víngerðarmönnum Rias Baixas, Pepe Rodriguez og vínhússins Bodega Muriel í Rioja.

Fallegur ljósgulur litur, tær angan, mikill sítrus, sætur lime og greipávöxtur, sætar perur og melónur en líka þurrkaðar kryddjurtir, þurrt, ferskt með góðu biti, langt og mikið.

2.295. krónur, Frábær kaup.

Lesa meira

Fantini Farnese Sangiovese BIO 2014 fær góða dóma hjá Víngarðinum

Fantini Farnese Sangiovese 2014 ****

Ég hef áður skrifað um Montepulciano d’Abruzzo 2013 (***1/2) og Terre di Chieti Sangiovese 2013 (***1/2) en þessi lífræni Sangiovese frá Marche tekur þeim báðum fram og er satt að segja afskaplega fínt hversdagsrauðvín.

Það hefur rétt ríflega meðaldjúpan, rauðfjólubláan lit og meðalopna angan af súkkulaðihúðuðum kirsuberjum, lakkrískonfekti, bláberjasultu, þurrkuðum appelsínuberki og reykelsi.

Í munni er það meðalbragðmikið, sýruríkt og ferskt með fína byggingu og mjúk en töluverð tannín og rétt einso og Terre di Chieti, minnir það mun meira á Montepulciano d’Abruzzo en Sanagiovese frá Toskana. Þarna eru kirusber, súkkulaði, hind- og bláber, þurrkaður appelsínubörkur, plóma, mokka, negull og lakkrís. Býsna feitur og heitur stíll fremur en hinn kaldi Toskana-stíll og ekki spillir að vínið er lífrænt. Hafið með allskyns kjötkenndum hversdagsmat, pottréttum, pasta og skinkum og solleis.

Verð kr. 2.250.- Frábær kaup.

Lesa meira

umfjöllun um Cantine San Marzano Il Pumo Rosso 2012 á Víngarðinum

Cantine San Marzano Il Pumo Rosso 2012 ***1/2

Í febrúar skrifaði ég um Il Pumo Negroamaro (***1/2) frá sama vínsamlagi og þessi Rosso sem blandaður er úr staðbundnum þrúgum héraðsins Salento (eða kannski væri réttara að segja Púglíu því vínið er IGP Salento) er af svipuðum meiði, þótt mér finnist hann heldur nær því að bæta við sig hálfri stjörnu í viðbót. Það kæmi mér ekki á óvart ef vínið væri að stærstum hluta úr Negroamaro og Primitivo, þótt vissulega geti fleiri þrúgur, svona lagalega séð, verið í blöndunni, en það er svosem ekki gefið upp.

Það býr yfir vel þéttum kirsuberjarauðum lit og ríflega meðalopnum ilm sem er sólbakaður og sætkenndur, rétt einsog maður býst við þaðan, neðst á Ítalíuskaganum. Þarna eru kirsu- og hind- og jarðarber, þurrkaðir ávextir, sprittlegnar sveskjur, jörð, kanill, ilmvatn og reykelsi.

Í munni er það meðalbragðmikið, sætkennt og sólþrungið með mjúk tannín og skortir helst sýruna á móti þessum þroskaða ávexti til að halda því lengur á lífi. Þarna má finna jarðar-, hind- og kirsuber, þurrkaða ávexti, lakkrískonfekt, steinefni og krydd. Hafið með hversdagslegri og einfaldari Miðjarðarhafsmat, krydduðum grillmat og pasta. Það er góð hugmynd að henda því í ísskáp í hálftíma áður en það er borið fram til að auka sýruna og gera það ferskara.

Verð kr. 1.999.- Mjög góð kaup.

Lesa meira

Dr. Loosen Erdener Treppchen Riesling Kabinett 2015 fær mjög góða dóma á Vinotek.is

Dr. Loosen Erdener Treppchen Riesling Kabinett Trocken 2015

Nöfn þýskra vína geta orðið ansi löng og vígaleg og það á við hér. Vínið er frá einum af bestu framleiðendum Þýskalands, Ernst Loosen í Móseldalnum og kemur af Treppchen-ekrunni við þorpið Erden. Treppchen mætti þýða sem litlu tröppurnar en ekran er mjög brött eins og oft vill verða í bröttum hlíðunum upp af Mósel og voru á öldum áður útbúnar tröppur til að hægt væri að komast að vínviðnum. Jarðvegurinn í Edener Treppchen einkennist af dökku, rauðleitu og járnríku hellubergi sem gefur vínunum mikinn kraft.

Vínið er ljóst, ungt með ríkulegu magni af sítrus í nefi, sætur greip og limeávöxtur í bland við ferskjur og ástaraldin og ferskar kryddjurtir. Í munni þykkt, ferskt, sætur og gómsætur ávöxturinn blandast þar krydduðu biti og míneralískri festu. Fyrirmyndarvín.

2.595 krónur. Frábær kaup. Eitt og sér eða með til dæmis krydduðum austurlenskum mat. 

Lesa meira

Umfjöllun um Planeta la Segreta Bianco 2014 á Vingarðinum

Planeta La Segreta Bianco 2014 ****

Það kannast efalaust margir við víngerðina Planeta frá Sikiley en vín frá þessari víngerð voru lengi til sölu hér og féllu í afar góðan jarðveg. Margir sem ég þekki minnast td hinnar (duglega) eikuðu Chardonnay-útgáfu (sem er á leið aftur í vínbúðir bráðlega, en er nú mun meira elegant en þegar 21. öldin gekk í garð) en ég sjálfur var alltaf hrifnastur af Cometa (eikað Fiano) og svo La Segreta hvítt og rautt. Nú hafa þessi vín sumsé snúið aftur í hillur vínbúðanna og ég skora á ykkur öll að fara nú á stúfana og næla ykkur í eintak, því þetta eru einstaklega vel gerð og matarvæn vín.

Þótt flöskumiðinn sé nýr eru La Segreta vínin sem fyrr blönduð úr mörgum þrúgum og það hvíta er sett saman úr þrúgunum Grecanico, Chardonnay, Fiano og Viognier og þeir sem hafa nördast í vínfræðunum gera sér grein fyrir að þarna eru 2 ítalskar þrúgur og 2 franskar og úr sikileyskum jarðvegi verður þetta afar gómsæt blanda. Það er ljós-gyllt að lit með rétt rúmlega meðalopna og spennandi angan hvítum blómum, peru, melónu, austurlenskum ávöxtum, hunangi, sætum sítrus, agúrku og steinefnum. Virkilega flottur ilmur með þroskaðan ávöxt sem gaman er að láta kitla nefið.

Í munni er það meðalbragðmikið, þurrt með góða sýru, mikla lengd og framúrskarandi byggingu. Þarna er sítrus, pera, ferskja, austurlenskir ávextir, hunang og krydd. Matarvænt og spennandi vín sem munar bara hársbreidd að fái hálfa störnu í viðbót sem gerir það að virkilega góðum hvítvínskosti. Ég er amk glaður að geta farið og sótt mér þetta vín til að hafa með matnum. Hafið með allskonar bragðmeiri fiskréttum, humar og skeldýrum, ljósu fuglakjöti, pasta og grænmetisréttum. Býsna fjölhæft.

Verð kr. 2.499.- Frábær kaup

Lesa meira

Dr. L Riesling Dry 2014 fær frábæra dóma hjá Víngarðinum

Dr. L Dry Riesling 2014 ****

Ernest Loosen er einn af merkilegri víngerðarmönnum Moseldalsins og ég þreytist ekki á að benda ykkur á að vera duglegri við að smakka betri þýsk Riesling-vín. Frá honum koma perlur einsog Villa Wolf og Dr. Loosen (hvít og rauð, gleymum ekki hinu frábæra Villa Wolf Pinot Noir) en þetta er „nýtt“ vín, þurr Riesling frá Mosel en meira í áttina að Alsace þótt hinn hreini og hárbeitti Mosel-stíll skíni fagurlega í gegn.

Það hefur ljósan, strágulan lit með grænni slikju og örlitla kolsýru sem lyftir því enn meira upp. Nefið er meðalopið, dæmigert og alveg einstaklega hreint og fagurt. Þarna má finna vínber, sæta sítrónu, epli, ferskju, hvít blóm, nektarínu, austurlenska ávexti og strokleður.

Það er þurrt og meðalbragðmikið með afar góða sýru og kolsýran kitlar mann hæfilega mikið án þess að verða nokkurntímann áberandi. Það býr yfir djúpum og hreinum ávexti, frábærri bygginu og merkilega mikilli endingu. Þarna eru sítróna, epli, nektarína, pera og greipaldin. Ferskt, dæmigert og svo dásamlega hreint svo manni finnst að maður geti hæglega drukkið heila flösku (þótt landlæknir og ég sjálfur mæli kannski ekki endilega með því) án þess að finna fyrir því. Endilega farið nú og prófið þessa dásemd og hafið með flottum fiskréttum, austurlenskum mat (samt ekki of mikið af hvítlauk eða engifer) og ljósu kjöti.

Verð kr. 2.295.- Frábær kaup.

Lesa meira

Planeta La Segreta Rosso 2014 fær mjög góða dóma hjá Víngarðinum

Planeta La Segreta Rosso 2014 ****

Einsog þið vitið þá er ég afar ánægður með að geta nú verslað vínin frá Planeta aftur og þá sérstaklega La Segreta Bianco sem mér finnst svaðalega gott af svo ódýru hvítvíni að vera en hið rauða kemur fast á hæla þess og er einnig virkilega vel gert rauðvín. Það er sett saman úr þrúgunum Nero d’Avola (sem er helmingur blöndunnar), Merlot, Syrah og Cabernet Franc. Auðvitað stórfurðuleg blanda (fyrir alla sem hafa vínnördast undanfarin ár) en meikar einhvernveginn sens þarna á Sikiley.

Það hefur vel þéttan fjólurauðan lit með fínan kannt og rétt ríflega meðalopinn ilm þar sem finna má plómu, sultuð rauð ber, reykelsi, austurlensk krydd, einhver hlaup-nammi, fjólur og grillsósu (þessa frá HP sem mamma keypti alltaf, fæstu hún enn?). Býsna óhefðbundin angan, en Nero d’Avola er líka sérstæð þrúga.

Í munni er það þurrt með góða sýru, fínt jafnvægi og góða endingu. Tannín eru mjúk og það er reglulega matarvænt. Þarna má greina plómu, lakkrís, negul, rauð sultuð ber, kakó og græna stilka. Virkilega gott rauðvín sem er fínt með allskonar mat, þó helst rauðu og ljósu kjöti, pasta, pottréttum og krydduðum réttum.

Verð kr. 2.499.- Frábær kaup.

Lesa meira

Umfjöllun um Il Pumo Rosso 2013 á Vinotek.is

San Marzano Il Pumo Rosso 2013 ****

Nokkrir bændur í þorpinu San Marzano í Púglía á Ítalíu tóku sig saman árið 1962 og mynduðu vínsamlag kennt við þorpið. Í dag eiga um 1200 vínbændur aðild að samlaginu sem rekur einhverja nútímalegustu víngerð héraðsins.

Rosso Salento er flott Púglía-vín, heitt og þykkt. Í nefi þurrkaðir ávextir, sveskjur, plómur, þroskað, vottur af lakkrís, þarf tíma til að opna sig, gefur mikið ef maður gefur því tíma. Fín fylling og þægilegt vín með mjúkum tannínum.

1.999 krónur. Frábær kaup, virkilega flott og mikið vín fyrir verð. 

Lesa meira

Veuve Fourny Blanc de Blancs Premier Cru fær mjög góða dóma á Vinotek.is

Vve Fourny Blanc de Blancs Premier Cru ****1/2   

Í stórum dráttum má segja að framleiðsla á kampavíni skiptist í tvennt. Annars vegar eru það stóru frægu kampavínshúsin sem að framleiða kampavín úr eigin þrúgum en ekki síst aðkeyptum þrúgum frá bændum. Hins vegar eru það minni framleiðendur sem framleiða kampavín í litlu magni úr þrúgum af einum ekrum, á ensku eru slík kampavín kölluð „growers champagne“ eða „champagne de vigneron“ á frönsku.

Veuve Fourny er slíkt vínhús á einu af betri svæðum Champagne, Cote Blancs. Þetta kampavín er Blanc de Blancs sem merkir að það er eingöngu gert úr hvítum Chardonnay-þrúgum. Það er mjög þurrt, þarna er sítrus og epli, í bland við smá ger, kex og hnetur, ferskt og þægilegt. Flott kampavín.

6.995.- krónur. Mjög góð kaup.

Lesa meira

Umfjöllun um Dr. Loosen Wehlener Sonnenuhr Kabinett 2013 á Vinotek.is

Dr. Loosen Wehlener Sonnenuhr Riesling Kabinett 2013 ****1/2

Wehlener Sonnenuhr er einn af þekktari ekrunum í Móseldalnum í Þýskalandi, afskaplega brött og grýtt. Hún er nefnd eftir fornu sólúri sem er á ekrunni miðju.

Þetta vín frá Ernst Loosen er tignarlegt og flott, létt í áfengi en með verulega dýpt, þokka og kraft. Míneralískt, kryddað, greipbörkur, örlítil apríkósa. Í munni springur það út, þétt, fókuserað og bjart, með blöndu af sætu og ferskri sýru í lokin, skilur eftir bragð af ávexti og ristuðum möndlum. Virkilega flott vín.

kr. 2.959.-

Lesa meira

Umfjöllun um Villa Loosen Riesling á Vinotek.is

Villa Loosen Riesling 2013 ****

Villa Loosen Riesling er hvítvín frá einum virtasta framleiðanda Móseldalsins í Þýskalandi, Dr. Loosen. Raunar einum besta framleiðanda Þýskalands. Þetta er með einföldustu vínum hans, létt í stílnum og áfengi (8,5%) en engin eftirgjöf í gæðum og hreinleika bragðsins.

Arómatískt, sítrusmikið, gul epli, grænn ávöxtur og riesling er líka eitt af fáum vínum sem gjarnan angar af þroskuðum vínberjum. Sætur og þykkur ávöxtur í munni, sætur og ljúffengur, góð sýra á móti.

1.750 krónur. Mjög góð kaup. Reynið t.d. með austurlenskum mat. 

Lesa meira

Delas Cotes du Rhone 2013 fær góða dóma á Vinotek.is

Delas Cotes du Rhone 2013 ****

Delas er gamalgróið vínhús í Rhone-dalnum í Frakklandi, stofnað af samnefndri fjölskyldu fyrir um 160 árum og er nú í eigu Deutz-kampavínshússins.

St. Esprit frá Delas er klassískt og vel gert Cotes-du-Rhone, Syrah-þrúgan er ríkjandi, með krydduðum, kröftugum ávexti, þarna eru dökk ber, smá rabarbari, fennel, þétt, vel uppbyggt með góðum tannínum.

2.595 krónur. Mjög góð kaup. Frábært matarvín. Gefið smá tíma til að opna sig.

Lesa meira

Umfjöllun um Finca la Colonia Cabernet Sauvignon 2014 á Víngarðinum

Finca La Colonia Cabernet Sauvignon 2014 ***1/2

Ég ætla að leiðrétta mig aftur að Finca La Colonia er ekki einfaldasta og ódýrasta línan frá Bodegas Norton en engu að síður er þetta vel frambærilegt vín sem gott er að bragða á. Það hefur dimman plómurauðan lit og meðalopna angan af plómu, rauðum berjum, sólberjasultu, kirsuber og grænni papriku. Þetta er einfaldur og dæmigerður ilmur en aðlaðandi.Í munni er það meðalbragðmikið með góða sýru en svolítið stutt í annan endan sem dregur það niður. Þarna má finna sólber, kirsuber, plómu og papriku. Einfalt og prýðilegt hversdagsvín sem fer vel með rauðu kjöti, pasta og pottréttum.Verð kr. 2.395.- Mjög góð kaup.

Lesa meira

Dr. Loosen Wehlener Sonnenuhr Kabinett 2013 fær góða dóma hjá Víngarðinum

Dr. Loosen Wehlener Sonnenuhr Riesling Kabinett 2013 ****

Sólúrs-vínekran í Wehlen er ein af þessum framúrskarandi góðu í Móseldalnum þar sem Riesling-þrúgan gefur af sér einhver bestu hvítu vín jarðarkringlunnar og í höndunum á jafn góðum víngerðarmanni og Ernst Loosen má alltaf búast við frábærri flösku.

Þetta vín er gulgrænt að lit og inniheldur vott af kolsýru (sem dregur síður en svo úr gæðum þess). Í nefinu sem er unglegt og meðalopið má finna vínber (!), sítrónu, læm, koppafeiti, rykuga jörð, hvít blóm og grænar kryddjurtir.Í munni er það hálfþurrt, með töluverða sýru (og kolsýru að auki), er ferskt og líflegt með þennan óviðjafnanlega þokka sem einkennir Riesling frá góðum svæðum. Það má greina í því epli, sítrónu, vínber, jörð og rautt greipaldin. Langlíft og glæsilegt vín sem vantar bara einn punkt að fá hálfa stjörnu í viðbót. Gott eitt og sér og með allskyns fiskmeti, reyktum fiski og jafnvel asískum brögðum. Fjölhæft og glæsilegt vín.Verð kr. 2.959.- Mjög góð kaup.

Lesa meira

Umfjöllun um Norton Malbec Reserva 2012 á Vinotek.is

Norton Malbec Reserva 2012 ****

Vínhúsið Norton í Mendoza í Argentínu er traustur kostur í argentínskum vínum og framleiðir vín sem eru í senn bæði klassískt argentínskt og nútímaleg.

Dökkt og þétt á litt. Plómur, þroskaðar mikið súkkulaði, mokkakaffi, nokkuð kryddað. Feitt og þykkt, mjög mjúk tannín. Nautakjötsvín.

2.995 krónur. Góð kaup. 

Lesa meira

Umfjöllun um Purato Nero d’Avola 2014 á Vinotek.is

Purato Nero d’Avola Terre Siciliane 2014 ***1/2

Purato eru ung og þægileg vín frá Feudo di Santa Tresa á Sikiley sem er einn helsti framleiðandi lífrænt ræktaðra vína á þessari suður-ítölsku eyju.

Þetta er ljúfur Nero d’Avola, rauður berjaávöxtur, brómber og hindber, smá kirsuber. Ávöxturinn ungur bjartur í munni. Með ljósu kjöti, ágætt að bera fram örlítið kælt (en ekki kalt).

1.999 krónur. Góð kaup.

Lesa meira

Massolino Langhe Chardonnay 2013 fær góða dóma á Wine Review Online

Massolino Langhe Chardonnay 2013

“A restrained Chardonnay, showing no glitz or flash, but rather excellent balance and enticing autumn fruit flavors that linger effortlessly long after you have taken a sip. It is a very classy white wine, one that does not resemble any other, but proudly stands on its own.” 91 points – Paul Lukacs

Lesa meira

Calmel & Joseph Villa Blanche Chardonnay 2014 fær frábæra dóma hjá Þorra Hrings á Víngarðinum

Calmel & Joseph Villa Blanche Chardonnay 2014 ****1/2

Þessi Chardonnay frá Languedoc kom mér skemmtilega á óvart þótt hann eigi fátt sameiginlegt með forsetaembætti Bandaríkjanna nema kannski nafnið, en Villa Blanche þýðir auðvitað Hvíta Húsið. Ég hef nú þegar skrifað um þrjú rauðvín frá þeim kumpánum Calmel og Joseph (öll ****) en þetta finnst mér bera af þeim og þótt sumir þykist vera orðnir leiðir á Chardonnay þá ættu allir að prófa þetta vín, þótt ekki væri nema til að átta sig á að þessi þrúga er sannarlega í efstu fimm sætunum yfir bestu hvítu þrúgur veraldarinnar. Sama hvaðan hún kemur.

Það hefur ljós-gylltan lit og rétt meðalopna angan af hvítum blómum, nektarínu, peru, soðnu epli, grænum kryddjurtum, sætri sítrónu, hunangsmelónu, ananas, perubrjóstsykri og smá agúrku.

Í munni er það ferskt, þurrt og ávaxtaríkt, með frísklega sýru, fínasta jafnvægi og endist afar vel. Það hefur mjúkt fitulag í kringum miðjuna sem gerir það afar girnilegt en þarna er sítróna, pera, hunang, smjör, rautt greipaldin, mandarína, melóna og steinefni. Virkilega ljúffengt og matarvænt hvítvín sem er gott með bragðmeiri og feitari fiskréttum, ljósu fuglakjöti, humri og svo er það frábært eitt og sér.

Verð kr. 2.499.- Frábær kaup.

Lesa meira

Real Compania de Vinos Tempranillo VS 2010 fær góða dóma hjá Vinotek.is

Real Compania del Vinos Tempranillo VS 2010 ***1/2

Real Compania de Vinos eru vín framleidd undir stjórn Rioja-vínhússins Bodega Muriel á svæðinu Castile-La Mancha.Þetta er eldra Tempranillo-vínið frá vínhúsinu.

Dökkrautt, angan björt, rauð ber, vanilla, kóngabrjósykur, kryddjurtir, mynta. Ferskt og þægilegt í munni, mjúkt, fín sýra. Ágætis rauður Spánverji með t.d. tapas, spænskri skinku og Manchego-osti.

2.195 krónur. Mjög góð kaup.

Lesa meira

Umfjöllun um Louis Jadot Chablis 2014 á Vinotek.is

Louis Jadot Chablis 2014 ****

Louis Jadot er eitt af þekktustu “négociant”-húsunum í Búrgund og á ekrur á flestum helstu svæðum héraðsins.

Þetta er hörku Chablis, svolítið suðrænn og flottur. Sætur sítrus, ferskjur og hitabeltisávöxtur. Bjart og sólríkt, örlítið míneralískt.

3.495 krónur. Mjög góð kaup.

Lesa meira

Umfjöllun um Santa Tresa Grillo Viognier 2014 á Vinotek.is

Santa Tresa Grillo Viognier 2014 ***1/2

Þetta lífrænt ræktaða hvítvín frá Sikiley er blanda úr tveimur þrúgum.  Önnur þeirra er ein algengasta hvítvínsþrúga Sikileyjar, Grillo, en hin er suður-frönsk og nefnis Viognier.

Þær ná vel saman í þessu víni og mynda heillandi heild.

í nefinu eru ferskjur og sultaðar sítrónur, ávöxturinn er sætur og feitur, ágætis ferskleiki, kryddbit í lokin.

Fínasta vín.

2.350 krónur. Góð kaup.

Lesa meira

Víngarðurinn fjallar um Finca la Colonia Chardonnay 2014

Finca La Colonia Chardonnay 2014 ***1/2

Þessi argentínski Chardonnay er ljós-gylltur að lit og býr yfir rétt tæplega meðalopinni angan af peru, melónu, sætri sítrónu, læm og smjöri. Þetta er ferskur, dæmigerður og létt- eða óeikaður ilmur sem er afar kunnuglegur en hreint ekki svo óaðlaðandi og engin furða að Chardonnay skuli vera ein af bestu hvítvínsþrúgum heimsins: það er eiginlega erfitt að gera úr henni vond vín þótt sum séu auðvitað dálítið hvert öðru líkt.

Í munni er það meðalbragðmikið, þurrt, með góða sýru, prýðilega byggingu og fína endingu af ekki stærra víni að vera. Þarna má finna glefsur af sætri sítrónu, læm, peru, rauðu greipaldin, smjöri og melónu. Fínasta hversdags-hvítvín sem er gott með bragðmeiri fiskréttum, ljósu pasta, bökum og léttari forréttum.

Verð kr. 2.395.- Góð kaup.

Lesa meira

Calmel & Joseph Vieux Carignan 2012 valið vín mánaðarins í Gestgjafanum

Calmel & Joseph Vieux Carignan 2012

Vínin frá Languedoc eru loksins að skila sér til okkar í góður úrvali, gæðavín á góðu verði sem hafði verið spáð að yrðu samkeppnishæfust við vínin frá Nýja heiminum.  Calmel & Joseph er gott dæmi um það.  Nútímaleg vín sem halda samt fast í hefðir, m.a. í þrúgum sem eru notaðar og eru aðgengileg.  Hér er carignan-þrúga af gömlum vínvið (mestallur vínviðurinn eldri en 100 ára!) sem þýðir að vínin úr henni eru þétt og bragðmikil.  Engin undantekning hér; þéttur og ríkur, sætur ilmur af dökkum berjum, kryddi, ristaðri eik, vottur af jörð og kaffi.  Fíngerð og þroskuð tannín, góður ávöxtur, ferskt vín og langt eftirbragð - það er mjög athyglisvert og flott matarvín.  Gott með villibráð (hreindyr, gæs eða önd) en líka með mjög góðri (íslenskri) nautasteik.

Okkar álit: Fágað vín, flott matarvín með villibráð eða góðri nautasteik.

Verð: 2.995 kr. ****

Lesa meira

Víngarðurinn fjallar um Norton Cabernet Sauvignon Reserva 2011

Norton Cabernet Sauvignon Reserva 2011 ****

Norton-víngerðin ætti að vera ykkur kunn, því að vín frá henni hafa fengist hér í meira en áratug og þetta vín hér er amk gamall kunningi minn. Það býr yfir þéttum og gegnheilum, fjólurauðum lit og ilm af sætum og sultuðum blá- og aðalbláberjum í bland við mintu, plómu, sólberjahlaup, eik og rauð ber. Það tekur svolitla stund að opna sig og mætti vera flóknara í nefinu en í munni er það með töluverða fyllingu, þurrt, þétt og inniheldur gnótt af fínlegum tannínum. Það hefur góða sýru, er unglegt og með góða lengd sem ætti að gera það mjög heppilegt með matnum. Það má finna glefsur af sólberjahlaupi, aðalbláberjasultu, vanillu, plómu, svörtum pipar og leirkenndum jarðartónum. Alveg hreint úrvals vín frá Argentínu sem fer vel með rauðu kjöti hverskonar og jafnvel einhverri villibráð.

Verð kr. 2.995.- Mjög góð kaup.

Lesa meira

Fonterutoli Chianti Classico 2012 fær frábæra dóma hjá Víngarðinum

Fonterutoli Chianti Classico 2012 ****1/2

Ég skrifaði í fyrra um árganginn 2011 (****) af þessu sama víni og eins hef ég skrifað um Badiola 2012 (****) og Castello di Fonterutoli (eina vínið sem fékk fullt hús stiga hjá mér á síðasta ári) frá sömu víngerð.Árgangurinn 2012 er að mínu viti enn betri og fínlegri en árgangurinn 2011 var í fyrra en til að gæta fyllstu sanngirni þá eru þetta vín sem hafa langan líftíma og geta hæglega bætt við sig hinum og þessum víddum á nokkrum mánuðum svo það væri gaman að dæma árganginn 2011 aftur núna.

Þetta vín hefur dimm-fjólurauðan lit og meðalopna angan sem er þétt, dökk yfirlitum og ungleg en þarna eru áberandi eik, sultuð rauð og dökk ber, leður, lakkrís, læknastofa (og ég er ekki frá því að þarna slæðist inn linoleumgólfdúkur), kirsuber, Mon Chéri-molar og balsam.

Í munni er það vel bragðmikið, þétt, þurrt, dimmt og unglegt með töluverða sýru og mikil mjúk tannín sem tryggir mikla endingu (og líftíma í flösku). Það hefur glefsur af krækiberjasultu, kirsuberjum, lakkrís, súkkulaði, vanillu, plómu, balsam og þurrkuðum appelsínuberki. Þrátt fyrir stærðina er það fínlegt og fágað og þarna er maður að fá mikið fyrir aurana. Hafið með bragðmeiri og fínni steikum, nauti og lambi. Grilluð hrossalund og þetta hérna er ekkert slor, skal ég segja ykkur.

Verð kr. 3.495.- Frábær kaup.

Lesa meira

Umfjöllun um Chateau Bonnet Reserve 2010 á Vinotek.is

Chateau Bonnet Reserve 2010 ****

Chateau Bonnet er eitt af mörgum vínhúsum í eigu André Lurton. Það er kannski það vínhús sem er á þekktasta svæðinu, en Bonnet er í þorpinu Grézillag í Éntre-deux-Mers. Vínhúsið hefur þó ávallt haft ákveðna sérstöðu enda Bonnet heimili Lurton til margra ára.

Þetta Reserve vín, Merlot og Cabernet til helminga, er virkilega flott Bordeaux-vín fyrir peninginn. Þroskuð dökk ber, sólber, bláber,  vanilla, smá reykur og angan af ristuðum kaffibaunum sem kemur meira fram eftir því sem vínið opnar sig. Vel balanserað vín, nokkuð margslungið með góða dýpt. F’int með lambi eða önd.

2.850 krónur. Mjög góð kaup.

Lesa meira

Vinotek.is fjallar um Chateau des Jacques Moulin a Vent 2010

Chateau de Jacques 2010 ****

 

Chateau de Jacques er vín sem var lengi til í vínbúðunum og naut mikilla vinsælda fyrir rúmur tveimur áratugum eða svo. Einhvern tímann hvarf það svo úr hillunum og hefur ekki sést í langan tíma. Því miður, þetta er eitt af þeim vínum sem að slæmt var að missa. Þetta er Chateau-vín frá Beaujolais-þorpinu Moulin-á-Vent

En þetta er vín sem er alls ekkert líkt flestum Beaujolais-vínumk þetta er vandað Beaujolais Cru sem á meira sameiginlegt með mörgum Búrgundarvínum, þótt þrúgan sé Gamay. Þroskaður, rauður berjaávöxtur, kirsuber, rifsber, kryddað með nokkurri eik, þétt í munni, tannískt og mikið um sig fyrir Beaujolais. Ræður alveg við lambakjöt.

3.695 krónur. Mjög góð kaup.

Lesa meira

Umfjöllun um Fantini Farnese Sangiovese 2013 á Vinotek.is

Fantini Farnese Sangiovese 2013

Terre de Chieti heitir svæðið í Abruzzo á Ítalíu þaðan sem Sangiovese þrúgurnar sem notaðar eru í þetta rauðvín koma. Sangiovese er auðvitað þrúga sem yfirleitt er tengd við Toskana og Chianti en hana má vissulega finna víðar á Ítalíu.

Í nefi berjaávöxtur, kirsuber, dökk skógarber, reykur, krydd, anís. Í munni þykkt, með ferskri sýru, töluvert kryddað, með áberandi eik. Flott ítalskt matarvín.

1.999 krónur. Mjög góð kaup. ***1/2

Lesa meira

Umfjöllun á Vinotek.is um Norton Reserva Cabernet Sauvignon 2011

Norton Reserva Cabernet Sauvignon 2011 ****1/2

Bodegas Norton er vínhús í Mendoza-héraði í Argentínu, sem nú er í eigu austurrísku Swarowski-fjölskyldunnar, sem þekkt er fyrir kristalsframleiðslu sína.

Þetta er þykkt og mikið vín, feitur og sætur sólberja- og bláberjaávöxtur, kaffitónar, mjög mjúkt í munni, þétt með vott af svörtum pipar. Vín fyrir grillaðar nautasteikur.

2.995 krónur.

Lesa meira

Umfjöllun um Luis Felipe Edwards Pinot Noir 2013 á Víngarðinum

Luis Felipe Edwards Pinot Noir 2013 ***1/2

Um daginn var hér pistill um stóra bróður þessa víns, Gran Reserva Family Selection (****), og þetta er líka alveg ágætis vín. Það kemur reyndar frá heitara svæði (Maule) en hið fyrrnefnda og hefur tæplega meðaldjúpan rúbínrauðan lit. í nefinum má greina hind- og jarðarber, fennel og appelsínubörk.

Í munni er það sýruríkt, með meðalfyllingu, fínleg tannín og sæmilegustu endingu. Það er fínlegt og hefur glefsur af hind- og jarðarberjum, stjörnuanís, tyggjói, mómold og jafnvel slæðist þarna inn eitthvað sem minnir á Marc eða Grappa. Hafið með önd og kjúkling/kalkún, pottréttum og austurlenskum mat.

Verð kr. 1.895.- Mjög góð kaup.

Lesa meira

Víngarðurinn fjallar um Finca La Colonia Sauvignon Blanc 2014

Finca La Colonia er ódýrasta og einfaldasta vínið frá víngerðinni Bodegas Norton í Mendoza í Argentínu og hvernig sem ég leitaði á flöskunni fann ég ekki árganginn skráðan (vona þá að réttir aðilar leiðrétti mig en vínið getur tæpast verið eldra en 2014 hvort eð er).

Það er gul-grænt að lit með meðalopna og frekar evrópskan Sauvignon Blanc ilm, þótt örlitlir austurlenskir tónar slæðist þarna inn. Þar má greina peru, sítrónu, læm, rifsber, ananas, hvít blóm, nektarínu, guava og steinefni. Fersk, sumarleg og spennandi angan.

Í munni er það þurrt og sýruríkt í góðu jafnvægi og afar aðgengilegt þótt það sé ekki mjög flókið. Þarna er sítróna, læm, pera, ananas, steinefni. rifsber og apríkósa. Það er evrópskt í stíl, matarvænt og sumarlegt. Hafið með ljósu kjöti, meðalbragðmiklum fiskréttum, salötum, geitaosti og svo er ekkert mál að hafa það sem fordrykk.

Verð kr. 2.395.- Mjög góð kaup. ****

Lesa meira

Umfjöllun um Villa Wolf Pinot Noir 2012 á Vinotek.is

Villa Wolf Pinot Noir 2012 ****

Þjóðverjar eru ekki þekktir fyrir framleiðslu rauðvína en engu að síður eru inn á milli ræktuð virkilega aðlaðandi og heillandi rauðvín, ekki síst í heitari héruðum á borð við Baden og Pfalz.

Þetta rauðvín frá Villa Wolf (sem er vínhús í eigu meistarans Ernst Loosen) er einmitt í Pfalz. Það er kennt við þrúguna Pinot Noir, sem hér er ekki kennd við hið þýska nafn sitt, Blauer Spätburgunder.

Stíll vínsins er ekki ósvipaður betri Pinot Noir frá t.d. Alsace í Frakklandi. Léttur, ávaxtaríkur og þægilegur. Sneisafullt af rauðum berjum í nefi, skógarberjum, hindberjum og kirsuberjum, þarna er jörð og jafnvel örlítið súkkulaði. Þetta er ekki vín sem er mikið um sig en það heldur sér afskaplega vel, og nær að breiða vel úr sér á fínlegan hátt, milt, ekki áberandi tannín, sýran létt. Einfaldlega afskaplega neysluvænt rauðvín sem  fer vel með hvítu kjöti og jafnvel bleikum fiski.

2.495 krónur. Mjög góð kaup.  

Lesa meira

Víngarðurinn fjallar um Villa Wolf Riesling 2013

Villa Wolf Riesling 2013 ****

Ég hef áður skrifað um Pinot Gris og Pinot Noir (bæði ****) frá Villa Wolf, sem mér finnast alveg framúrskarandi góð og á góðu verði og þessi Riesling er ekki síðri. Hann er reyndar, rétt einsog hin vínin, mun franskari í stíl en hinn þýski uppruni þess gefur til kynna.

Hann er ljós-strágylltur að lit með sæta og blómlega angan þar sem finna má sætan sítrus, epli, peru, hvít blóm, pipar, jasmín og steinefni en þarna eru líka feitari, austurlenskir ávextir á bakgrunni (rétt einosg í Pinot Gris).

Í munni er það tæplega hálfþurrt með mjög góða sýru, ferskt, létt og glæsilegt bragð og afar alsaskt í stíl þótt það hafi kannski ekki alveg þyngdina. Á móti er það léttleikandi og og í frábæru jafnvægi með góða lengd. Þarna er sætur sítrus, mandarína, pera, rautt greipaldin og epli. Ferskt, sumarlegt en líka mjög matarvænt sem gerir þetta fjölhæft vín að öllu leiti. Hafið eitt og sér eða með vatnafiski, tælenskum mat, ljósu fuglakjöti og eggjabökum.

Verð kr. 1.975.- Frábær kaup.

Lesa meira

Víngarðurinn fjallar um Santa Tresa Fiano 2013

Feudo di Santa Tresa Fiano 2013 ***1/2

Þótt Fiano sé þrúga sem ættuð er frá meginlandi Ítalíu hefur hún breiðst víða út á Sikiley, ekki síst fyrir þær sakir að gefa af sér frekar sýrurík og ljúffeng vín við erfið skilyrði (hiti og sól eru stundum erfið skilyrði fyrir hvítar þrúgur) sem sannarlega eru stundum á Sikiley. Þetta vín er, einsog önnur vín frá Santa Tresa, lífrænt og bara þokkalegt.

Það hefur frekar fölan sítrónugulan lit og tæplega meðalopna angan af ananas, sætum sítrusávöxtum, stikilsberjum, peru, ferskju og guava. Þetta er dálítið búttuð og Alsace-leg angan enda er Fiano fremur feitlagin þrúga að eðlisfari.

Í munni hefur það meðalfyllingu, afar góða sýru og er þurrara og ferskara en maður ályktar eftir að hafa rekið nefið oní glasið. Þar má rekast á glefsur einsog peru, stikilsber, rautt greipaldin og ferskjujógúrt. Frísklegt og matarvænt hvítvín með góða lengd sem ætti að ganga vel með allskyns fiskmeti, salötum, bökum og ljósu pasta.

Verð kr. 2.495.- Góð kaup.

Lesa meira

Víngarðurinn fjallar um Santa Tresa Grillo Viognier 2013

Feudo di Santa Tresa Grillo Viognier 2013 ***1/2

Ég skrifaði um daginn um annað hvítt vín frá þessari sömu sikileysku víngerð (Fiano ***1/2) og Cerasulo di Vittoria (rautt ***1/2) og rétt einsog þau vín er þetta lífrænt vín. Það er blandað úr þrúgunum Grillo (sem er upprunin á Sikiley) og Viognier (sem flestir þekkja frá Rhône eða Languedoc).

Það er gyllt að lit með angan af hunangi, apríkósum, peru, sætri sítrónu, einhverri mjólkurfitu og ögn af austurlenskum ávaxtakokteil. Þetta er ekki neitt sérstaklega flókinn ilmur en ljúfur er hann.

Í munni er það meðalbragðmikið, með fína sýru og gott jafnvægi en hefur ekki úthaldið, sem dregur það ögn niður. Þarna má finna apríkósur, hunang, sætan sítrus, peru og grænar jurtir. Einfalt en ljúffengt hvítvín sem er létt, sumarlegt og gott. Hafið með léttum forréttum, ljósu pasta, salötum og bökum. Gott eitt og sér.

Verð kr. 2.350.- Góð kaup.

Lesa meira

Selvapiana Bucerchiale Riserva 2011 fær toppeinkunn hjá Vinotek.is

Selvapiana Bucerchiale Riserva 2011

Bucherchiale er með allra bestu vínum svæðisins Chianti Rufina í Toskana. Rufina er minnsta en líka eitthvert magnaðasta undirsvæði Chianti. Ekran Bucerchiale er rúmir tólf hektarar að stærð og í um 200 metra hæð yfir sjávarmáli. Sumarið 2011 var hagstætt fyrir vínrækt í Rufina en eitt af því sem setti mark sinn á árganginn er mikil hitabylgja sem skall á héraðinu í ágúst og flýtti uppskerinu nokkuð. Þrúgutínslan hófst síðustu daga ágústmánaðar sem hefur aldrei gerst áður.

Vínið hefur gífurlega djúpan og dökkan lit, smá byrjandi þroska í röndinni. Angan flókin, margslungin þar sem mjög þroskuð kirsuber, rifsber og krækiber renna saman við kryddjurtir, jörð og tóbakslauf. Það er heitt, það er byrjað að þroskast og hverfa frá ávextinum og það sýnir á sér nýja hlið í hvert skipti sem nefi er stungið í glasið. Afskaplega þéttriðið og djúpt í munni, mjög tannískt en tannín eru mjúk og þroskuð, sætleiki í ávextinum. Algjörlega hreint magnað vín. Umhellið.

4.995 krónur. Frábær kaup.

Lesa meira

Luis Felipe Edwards Chardonnay Gran Reserva 2013 fær góða dóma hjá Víngarðinum

Luis Felipe Edwards Gran Reserva Family Selection Chardonnay 2013 ****

Þessi ágæti Chardonnay sem kemur frá Casablanca-dalnum vestan við Santiago í Chile hefur gylltan lit meðalopna angan. Vínið er ögn eikað einsog finna má og hefur að auki feitan keim eftir maló-laktíska gerjun sem verður þó aldrei of yfirþyrmandi. Þarna má finna niðursoðna peru, sæta sítrónu, vanillu, eplapæ, passjón, mangó og guava. Þarna eru líka smjör og reykur og í heild sinni má helst benda á vín frá Mâcon eða Rully sem fyrirmynd.

Í munni er það rétt ríflega meðalbragðmikið með töluverða frískandi sýru, fínasta jafnvægi og prýðilega endingu. Það má greina í því glefsur af sætri sítrónu, niðursoðinni peru, eplaböku, eik, reyk, ananas, gauva, passjón, pipar og rauðu greipaldini. Fínasta vín sem er gott með bragðmeiri og feitari fiskréttum, ljósu fuglakjöti og allskonar forréttum.

Verð kr. 2.595.- Mjög góð kaup.

Lesa meira

Víngarðurinn fjallar um Luis Felipe Edwards Cabernet Sauvignon 2013

Luis Felipe Edwards Cabernet Sauvignon 2013 ***1/2

Einsog flest frá Luis Felipe Edwards er þessi Cabernet ljúfur og góður án þess að vera neitt framúrskarandi og það væri gaman að fá Carménere frá honum í hillurnar, en það vín hefur fengið einna bestu dómana undanfarið í útlendu pressunni.

Það hefur þéttan rauðfjólubláan lit og ilm af suðrænum Cabernet; plóma sólber, þurrkaðir ávextir og evkalyptus. Sprittið er eilítið laust frá meginlandinu en það er ekki til stórra vandræða. Í munni er það meðalbragðmikið, ungt og ferskt með góða sýru og mjúk tannín. Það hefur einsog jafnan með suðræn Cabernet-vín, sætkenndan ávöxt sem endist vel og einfaldan keim af plómu, sólberjum, rauðum berjum og súkkulaði. Einfalt en ljúft hversdagsvín sem er fínt með rauðu kjöti, pasta og pottréttum.

Verð kr. 1.895.- Mjög góð kaup.

Lesa meira

Luis Felipe Edwards Chardonnay Gran Reserva 2013 fær góða dóma á Vinotek.is

Luis Felipe Edwards Gran Reserva Chardonnay 2014 ****1/2

Luis Felipe Edwards er stærsta fjölskyldurekna vínhúsið í Chile og hefur það vaxið hratt á síðustu árum, ekki síst vegna vinsælda vínanna víða á útflutningsmörkuðum.

Gran Reserva Chardonnay er stútfullt af mildum suðrænum ávexti í bland við hófstillta eik.

Í nefi er sannkölluð ávaxtakarfa, ferskjur, sætar melónur, ástaraldin og sítróna, örlítil vanilla. Ferskt og þykkt, svolítið smjörkennt.

2.564 krónur. Mjög góð kaup á því verði, hálf auka stjarna fyrir hlutfall verðs og gæða.

Lesa meira

Vinotek.is fjallar um Santa Tresa Grillo Viognier 2013

Santa Tresa Grillo Viognier 2013 ***1/2

Þetta lífrænt ræktaða hvítvín frá Sikiley er blanda úr tveimur þrúgum. Önnur þeirra er ein algengasta hvítvínsþrúga Sikileyjar, Grillo en hin er suður-frönsk og nefnist Viognier.

Þægileg fersk angan af sítrus, ferskjum og apríkósum, hvít blóm. Í munni hefur vínið svolítið þykka áferð en sömuleiðis ágætis sýru sem brýtur það upp og gefur því léttleika, vottur af vanillu og eik. Mjög flott vín.

2.350 krónur. Mjög góð kaup.

Lesa meira

Umfjöllun um Capoccia Nero d’Avola 2013 hjá Víngarðinum

Feudo di Santa Tresa Capoccia (Rautt) 2013 ****

Áður hef ég skrifað um hvíta útgáfu með þessu sama nafni en þetta hér er sett saman úr þrúgunum Nero d’Avola og Cabernet Sauvignon og að hluta til eru þrúgurnar þurrkaðar fyrir gerjun, rétt einsog í appassimento-vínum en sem betur fer er það ekki mjög skrælnað þetta vín, og heldur betra en hin hvíta útgafa.

Það hefur ríflega meðaldjúpan, plómurauðan lit og meðalopna, nokkuð dökka, angan þar sem greina má sultuð ber, þurrkaða ávexti, súkkulaðihjúpaðan lakkrís, lím og möndlumassa. Þetta er ilmur sem er í áttina að Amarone en heldur ferskari og rauðari.

Í munni er það ríflega meðalbragðmikið með mjúk tannín en sýran mætti gjarnan vera nokkrum grömmum meiri mín vegna því vínið leysist aðeins upp eftir miðjuna. Það er þó bara lítilsháttar og þarna eru plómur, þurrkaður appelsínubörkur, dökk sultuð ber, þurrkaðir ávextir, lakkrís og kóla. Ekta vín til að gleðja Íslendinga í skammdeginu og hafa með bragðmeiri Miðjarðarhafsmat, rauðu og hægelduðu kjöti og krydduðum mat td frá Norður-Afríku.

Verð kr. 2.495.- Mjög góð kaup.

Lesa meira

Víngarðurinn fjallar um Santa Tresa Cerasuolo di Vittorio 2012

Feudo di Santa Tresa Cerasuolo di Vittoria Classico 2012 ***1/2

Á austanverðri Sikiley er hið skilgreinda víngerðarsvæði Cerasuolo di Vittoria þar sem gerð eru vín úr rauðum, staðbundnum þrúgum héraðsins; Nero d’Avola og Frappato. Ekki nóg með það, þetta vín er líka lífrænt.

Það er tæplega meðaldjúpt að sjá (Frappato er afar litdauf þrúga þótt Nero d’Avola geti verið ansi massív á köflum) með kirsuberjarauðan lit og ágætan kannt. Það er tæplega meðalopið í nefinu og með keim af rauðum berjum, bláberjasultu, lyngi, grenitrjám og kryddjurtum, þá einkanlega tímjan.

Í munni er það með tæpa meðalfyllingu, fína sýru og góða endingu. Það hefur mjúk tannín en skortir einhvern þéttleika í ávöxtinn til að teljast yfir meðallagi. Þarna má finna rauð ber, lyng, kryddjurtir og beiskan lakkrís í lokin. Hafið með einfaldari ítölskum mat, td pasta og tómatsósu eða þannig réttum.

Verð kr. 2.495.- Ágæt kaup.

Lesa meira

Selvapiana Chianti Rufina 2012 fær frábæra dóma í Gestgjafanum

Selvapiana Chianti Rufina 2012 ****1/2

Chianti Rufina er ekki algeng sjón í hillum vínbúðanna hérlendis en þetta undirhérað í Chianti er í norðausturhluta Chianti-héraðsins sem er skipt í 7 undirhéruð.  Selvapiana-vínhúsið hefur fengið lof vínrýna í gegnum árin. 

Vel þroskuð rauð kirsuber og safarík, koma fyrst ásamt (apótekara) lakksrísi og blómum, til að enda með tóbaksangan.  Vínið er margslungið, góð og lifandi sýra, fíngerð tannín, endist lengi á bragðlaukunum og endar á þessum safaríkum kirsuberjum og lakkrís. 

Fágað Chianti, sennilega með því besta sem fæst.  Gott með öllum betri ítölskum réttum og með lambakjötinu okkar.

Okkar álit: Einstakt Chianti, fágað og gómsætt – gerist varla betra.

Verð: 3.495 kr.

Lesa meira

Víngarðurinn fjallar um Luis Felipe Edwards Chardonnay 2013

Luis Felipe Edwards Chardonnay 2013 ***1/2

Luis Felipe Edwards er bara ansi stór fjölskylduvíngerð, á Chileskan mælikvarða og frá henni koma nokkur athyglisverð vín. Þetta er hér er Chardonnay sem ræktaður er í Valle Central, suður af höfuðborginni Santiago.

Vínið hefur strágylltan lit og meðalopna angan þar sem finna má peru, soðin epli, melónu, sítrónu, ananas og læm. Þetta er sætkennd og nokkuð exótísk angan og dæmigerð fyrir Chardonnay frá heitari ræktunarsvæðum.

Það er meðalbragðmikið með ferska sýru og ágætt jafnvægi þótt það sé hvorki flókið né persónulegt. Það er þurrt og endist vel með keim af sítrónu, læmi, ananas, peru, epli, jörð og greipaldin. Þetta er bara ljómandi vín sem sómir sé vel á hversdagsborðum landsmanna. Hafið með fiski, salötum, ljósu pasta og ljósu fuglakjöti.

Verð kr. 1.895.- Mjög góð kaup.

Lesa meira

Santa Tresa Fiano 2013 fær góða dóma á Vinotek.is

Santa Tresa Fiano 2013 ***1/2

Fiano þrúgan er yfirleitt tengd við Kampaníu á Suður-Ítalíu en hefur nú tekið stökkið yfir Messina-sundið til Sikileyjar. Lífræna vínhúsið Santa Tresa hóf ræktun á Fiano árið 2010 og þetta er fyrsti árgangurinn sem að lítur dagsins ljós.

Stíllinn er nokkuð frábrugðin þeim í Kampaníu, vínið er grösugt, svolítið kryddað, ávöxturinn fyrst og fremst sítrus, sítróna og límóna. Þurrt, þétt og þykkt í munni, sýrumikið.

2.495 krónur. Mjög góð kaup.

Lesa meira

Víngarðurinn fjallar um Calmel & Joseph Cotes du Roussillon Villages 2012

Calmel-Joseph Côtes-du-Roussillon Villages 2012 ****

Það mættu alveg fleiri vín frá Roussillon fást hér því flest eru þau afar upprunaleg og skemmtileg. Þetta vín er frá framleiðanda sem hefur verið að fá mikla athygli undanfarin ár fyrir stórskemmtileg vín svo það er gaman að geta verslað þetta í hillum vínbúðanna núna.

Það er blandað úr þrúgunum Syrah, Grenache og Carignan og hefur þéttan og djúpan, fjólurauðan lit. Í nefinu sem er meðalopið, má finna afar suður-franska tóna af sultuðum rauðum berjum, pipar, kardimommum, grænum kryddjurtum, negul, lími og kemískum steinefnatónum. Það er svolítið sprittað til að byrja með en það lagast þegar vínið fær að anda.

Í munni er það bragðmikið, þétt og með góða sýru og töluverð fínkorna tannín sem hjálpa til við að húða þennan dökka ávöxt og tryggja víninu mikla endingu. Þarna er krækiberjasulta, bláberjabaka, kryddjurtir, lakkrískjarni, kirsuber, pipar og steinefni. Persónulegt og stórskemmtilegt vín sem er fínt með bragðmiklum Miðjarðarhafsmat.

Verð kr. 2.995.- Mjög góð kaup.

Lesa meira

Víngarðurinn fjallar um Massolino Barbera d’Alba 2013

Massolino Barbera d’Alba 2013 ****

Barbera er frábær þrúga sem fleiri ættu að kynna sér hið snarasta enda eru fá vín í heiminum jafn lystaukandi og matarvæn og þau. Massolino er afar góður framleiðandi í Piemonte og ég hef áður ritað um Nebbiolo og Chardonnay frá honum (bæði ****).

Þetta er meðaldjúpt vín að sjá, rúbínrautt með góðan kannt og unglega „fjólubláa“ angan þar sem finna má súr kirsuber, hindber, krækiberjasultu, fjólur, beiskar möndlur, súkkulaði, lyng og balsam. Það er góð hugmynd að umhella þessu víni eða gefa því góðan tíma til að opnast í glasinu, því til að byrja með getur það verið svolítið klemmt.

Í munni er það þurrt, ferskt, sýruríkt og unglegt með töluverð mjúk tannín en jafnvægið er mjög gott og lengdin líka. Það er ríflega meðalbragðmikið, kannski ekki svo flókið en það bætir það upp með því að vera afar ljúffengt. Þarna eru rauð og dökk sultuð ber, beiskar möndlur, súkkulaði, kardimommur og negull. Sérlega matarvænt og lifandi vín sem er fínt með allskyns ítölskum mat, allt frá villisvepparísottó til hægeldaðra nautakinna. Eða bara með hverju sem er.

Verð kr. 3.690.- Góð kaup.

Lesa meira

Víngarðurinn fjallar um Finca La Colonia Malbec 2014

Finca La Colonia Malbec 2014 ***1/2

Ég hef áður skrifað um Cabernet Sauvignon og Sauvignon Blanc í þessari línu frá víngerðinni Norton í Mendoza í Argentínu og hér er Malbec-vínið þeirra og það er bara fínt líka. Kannski það besta?

Það hefur þéttan og gegnheilan rauðfjólubláan lit og nefið er blanda rauðum og dökkum sultuðum berjum, apótekaralakkrís, sveskjum í Armagnac, vanillu, heybagga, plómu, mómold og stálplötu.

Það hefur góða meðalfyllingu, er ungt, þurrt og með ferska sýru, mjúk tannín og ágæta endingu þótt það skorti kannski flækjuna sem maður gjarnan vill fá líka. Það má finna krækiber, rauð sultuð ber, papriku, vanillu, pipar og málm. Prýðilegt hversdagsrauðvín sem er fínt með flestu kjötmeti, bragðmeiri pottréttum og pasta.

Verð kr. 2.395.- Mjög góð kaup.

Lesa meira

Gestgjafinn mælir með Sant Tresa Fiano 2013 og gefur víninu 4,5 glös

Santa Tresa Fiano 2013 ****1/2

Fiano er ein af þessum staðbundnu ítölsku þrúgum sem lítið sjást fyrir utan heimaslóðirnar, Suður-Ítalíu, nýlega varð hún þó landnemi á Sikiley þar sem hún þrífst einstaklega vel.  Girelli fjölskyldan (meðal virtustu vínframleiðenda á Ítalíu) er fólkið á bak við Santa Tresa, 50 ha land sem er stutt frá Etnu og er ræktað lífrænt af hugsjón.  Nútíma aðferðir í víngerðinni fá það besta úr fiano: ilmrík vín og tær, með melónum, ferskjum, ananas, blómum; mjög aðlaðandi.

Létt sýra,þétt vín og aðeins feitt en ferskt í frábæru jafnvægi; langt eftirbragð - hið skemmtilegasta vín.  Prófið með fiskréttum með miðjarahafsblæ, risotto eða pasta með humri.  Mjög gott verð.

Okkar álit: Logandi skemmtilegt vín, með fiskréttum með miðjarahafsblæ - eða sem fordrykk.

Verð: 2.495.-

Lesa meira

Umfjöllun um Louis Jadot Couvent des Jacobins Pinot Noir 2012 á Vinotek.is

Louis Jadot Couvent des Jacobines Bourgogone Pinot Noir 2012

Louis Jadot er eitt af stærstu og þekktustu negociant-húsunum í Búrgund í Frakklandi. Negociant-hús sem að kaupa inn þrúgur frá vínbændum af mismunandi svæðum eru mjög algeng í því héraði sökum þess hve ekrur eru smáar og eignarhald dreift.

Couvent des Jacobines Pinot Noir er grunnvínið frá Louis Jadot, ljósrauður litur, mild angan af rauðum berjum, jarðarberjum, lyngi og laufum. Mildur ávöxtur í munni, nokkur sýra, mjúkt.

3.199 krónur.

Lesa meira

Selvapiana Chianti Rufina 2012 fær frábæra dóma hjá Vinotek.is

Selvapiana Chianti Rufina 2012 ****1/2

Fattoria Selvapiana er gamalgróið vínhús á einhverju besta svæði Toskana, sem við sjáum alltof lítið af, Chianti Rufina, austur af borginni Flórens. Vínekrur Rufina-svæðisins eru í um 400 metra hæð yfir sjávarmáli og vínin þaðan eru þétt og yfirleitt með langlífari Chianti-vínum.

Selvapiana er ungt og mikið Chianti Rufina -vín þar sem svæðið brýst í gegn, þroskaðar plómur, þroskuð, nær þurrkuð kirsuber, mjög dökkt súkkulaði. Svöl tannín, sýrumikið, mjög þéttriðið og langt.  Hrikalega flott vín.

3.495 krónur. Frábær kaup.

Lesa meira

Delas Cotes du Rhone Sainte Esprit Blanc 2012 fær góða dóma á Wineanorak

Delas Frères St Esprit 2012 Côtes du Rhône, France.

Rich, sweet and meaty with lovely rounded berry and black fruits. Warm with a hint of olive and pepper.

This is a ripe, Syrah-dominant wine and it shows lovely richness. 90/100

Lesa meira

Víngarðurinn fjallar um Chateau Goumin 2011

Chateau Goumin 2011 ***1/2

Þetta vín kemur úr smiðju André Lurton, einum af hinum fjölmörgu úr Lurton-fjölskyldunni, sem hafa haft mikil áhrif í Bordeaux undanfarna áratugi og eiga eða stjórna mörgum af bestu vínhúsum svæðisins. Þetta vín er upprunið í Entre-Deaux-Mers og er blandað úr þrúgunum Merlot og Cabernet Sauvignon.

Það er meðaldjúpt að sjá með plómurauðan lit og þéttan kannt. Í nefi er það meðalopið og dæmigert með angan af sólberjum og plómu ásamt vanillu, heybagga og öðrum sveitalegum glefsum.

Í munni er það meðalbragðmikið, þurrt, ferskt og unglegt með góða sýru og þetta frábæra jafnvægi sem einkennir Bordó-vín öðru fremur. Þar má finna plómu, sólberjasultu, krækiber og jörð. Það sem helst dregur það niður um þessar mundir er að það vantar aðeins fyllingu í upphafi en miðjan og endirinn eru afar góð. Hafið með lambi og hörðum ostum.

Verð kr. 2.195.- Mjög góð kaup.

Lesa meira

Víngarðurinn fjallar um Fonterutoli Chianti Classico 2011

Fonterutoli Chianti Classico 2011 ****

Ég verð að viðurkenna að vera afar kátur með að þetta vín skuli nú aftur vera á boðstólnum eftir nokkura ára fjarveru (ég skrifaði einmitt um árganginn 2001 á sínum tíma sem allir aðdáendur mínir muna auðvitað eftir). Þá var þetta vín einn af betri fulltrúum hins „nýja“ Chianti-stíls sem hafði gengið í gegnum töluverðar breytingar áratuginn þar á undan. Núna er þetta vín vissulega enn með nýmóðins slagsíðu en hefur þó færst nær hinum fágaða klassíska Chianti-stíl, ef eitthvað er. Það hefur þéttan kirsuberjarauðan lit og gegnheilan kannt. Í nefi er það þétt, dökkt og skemmtilega flókið eins og við má búast. Sultuðu brómber, kirsuber, leður, leirkennd jörð, heybaggi. lakkrís, balsamedik, möndlumassi, vanilla, hrátt kjöt og jarðarber. Framúrskarandi ilmur og sver sig í ætt við bestu íhugunarvín.

Í munni er það þurrt, þétt og með lystaukandi sýru. Tannínin eru töluverð og afar þroskuð og jafnvægið hárrétt. Þarna eru krækiber, kirsuber, þurrkaðir ávextir, jörð, balsamedik, vanilla og lakkrís. Það er ungt og á nokkur ár eftir í fullþroska og því er umhelling ekki slæm hugmynd næstu mánuði. Hafið með besta rauða kjötinu sem þið fáið. Munar ekki nema hársbreidd að það fái hálfa stjörnu í viðbót.

Verð kr. 3.499.- Mjög góð kaup.

Lesa meira

Víngarðurinn fjallar um Villa Wolf Pinot Gris 2013

Villa Wolf Pinot Gris 2013 ****

Þetta ágæta vín er úr smiðju Ernest Loosen, þeim frábæra framleiðanda úr Móseldalnum en á reyndar ættir sínar að rekja til Pfalz og það er athyglisvert að kalla þrúguna Pinot Gris (uppá franska tungu) frekar en Grauburgunder sem er hið þýska heiti hennar. Kannski er þetta mismunandi eftir mörkuðum, en engu að síður er stíllinn sóttur til Alsace svo að því leitinu er ekki undarlegt að nota hið kynþokkafulla franska tungmál.

Það hefur strágylltan lit og ríflega meðalopna angan af þroskuðum perum, ferskju, hvítum blómum, melónu, fennel og jörð. Þetta er aðlaðandi og sætkennd angan sem ætti að koma öllum í gott skap. Ég er amk enn í góðu skapi.

Í munni er það þétt og feitt einsog Alsace-vín með góða sýru og fínt jafnvægi. Það er stærra og meira í munninum en nefinu og í guðs bænum ekki bera það fram helkalt beint úr ísskápnum. Þarna eru perur, sítróna, melóna, kerfill, epli, steinefni, rautt greipaldin, kalk og jógúrt. Hafið með feitum fiskréttum, bragðmeiri forréttum og ljósu fuglakjöti.

Verð. kr. 1.999.- Mjög góð kaup.

Lesa meira

Fonterutoli Chianti Classico 2012 fær 92 punkta hjá Wine Spectator

Fonterutoli Chianti Classico 2012 

Violet, cherry and raspberry aromas and flavors are pure, meshing seamlessly with the silky texture. Harmonious and approachable now, with fine length, but the light dusting of tannins on the finish suggests this will develop nicely as well. Drink now through 2020.

Score 92. –BS

Lesa meira

Vinotek.is gefur Delas Saint Esprit Cotes du Rhone Blanc 2013 4,5 stjörnur

Delas Saint-Esprit Cotes-du-Rhone Blanc 2013 ****1/2

Maison Delas Fréres eða vínhús Delas-bræðranna er einn af klassísku vínframleiðendunum í Rhone-dalnum í Frakklandi. Það var um skeið í eigu Deutz-fjölskyldunnar sem framleiðir Champange Deutz en bæði vínhúsin, Deutz og Delas hafa verið í eigu hins virta kampavínshúss Louis Roederer síðastliðna tvo áratugi.

Hvítvínið Saint-Esprit er blanda úr fjórum suður-frönskum þrúgum: Grenache Blanc, Clairette, Bourbolenc og Viognier. Ljósgult á lit, angan í fyrstu sítrusmikil, skörp, en smám saman breiðir ilmkarfan betur úr sér með melónu, apríkósum og ferskum kryddjurtum, fennel. Feitt, sýrumikið og ávaxtaríkt í munni,

2.595 krónur. Frábær kaup og hálf auka stjarna fyrir hlutfall verðs og gæða.

Lesa meira

Barone Pizzini Animante Brut fær góða dóma hjá Decanter

Barone Pizzini, Animante Brut, Franciacorta, Italy NV17/20pts (90/100pts)When it comes to Italian sparkling wine, there are two options: Prosecco or Franciacorta. Prosecco may be more familiar to most wine lovers, but Franciacorta is, in general, so much more rewarding. Made using the traditional Champagne method, this is a blend of Chardonnay, Pinot Noir and Pinot Bianco. Citrus and apple fruit on the palate are wrapped up with a fine mousse and a creamy texture. Franciacorta may not be widely available but it’s well worth looking out for.Price £19.99 Vintage RootsDrink 2015Alc 12.5%

Lesa meira

Calmel & Joseph Cotes du Roussillon Villages 2012 fær góða dóma á Vinotek.is

Calmel-Joseph Cotes du Roussillon Villages 2012 ****

Calmel & Joseph er nýjasta viðbótin hér á markaðinn frá Suður-Frakklandi. Lítið og spennandi vínhús í bænum Carcassonne þar sem víngerðarmennirnir Lauren Calmel og Jerome Joseph gera vín úr þrúgum sem þeir kaupa frá nokkrum af helstu svæðum Languedoc-Roussillon.

Vínið Cotes du Roussillon Villages er klassís frönsk Miðjarðarhafsblanda úr þrúgunum Grenache, Syrah og Carignan. Það er nokkuð dökkt með rauðfjólubláum tónum, sólber, rifsber, kirsuber í nefi en líka kryddjurtir í bland við skarpan berjaávöxtinn, estragon, fennel. Vínið er þétt og skarpt, kröftug tannín, ávöxturinn er kröftugur og sýrumikill, Það þarf þó nokkurn tíma til að byrja að opna sig og það þarf mat til að vinna með því og hann má alveg vera nokkuð kröftugur.

Hvers vegna ekki t.d. suður-franskt cassoulet?

2.995 krónur.Mjög góð kaup.

Lesa meira

Vinotek.is fjallar um Luis Felipe Edwards Cabernet Sauvignon 2013

Luis Felipe Edwards Cabernet Sauvignon 2013 ***1/2

Luis Felipe Edwards er níunda stærsta vínhús Chile og það eina af þeim tíu stærstu sem er enn fjölskyldurekið og eru það feðgarnir Luis Felipe eldri og Luis Felipe yngri sem halda um stjórnvölinn.

Þetta er vel gerður Cabernet Sauvignon, þroskaður plómu- og sólberjaávöxtur, í munni þykkur og fínn ávöxtur, mild tannín, þægilegt og ljúft.

1.873 krónur. Mjög góð kaup.

Lesa meira

Louis Jadot Chambertin-Clos de Béze 2012 skorar hátt hjá Wine Spectator

Louis Jadot Chambertin-Clos de Bèze 201295 points | $ 468.-

Taut and linear, with cherry, strawberry, smoke, tobacco, graphite,iron, vanilla and clove flavors. This is unyielding at this point,despite the complexity, with a steely structure and a lingeringtobacco finish. The terrific length indicates the ultimate potentialof this bottling. Best from 2018 through 2033. From France.—B.S.

Lesa meira

Víngarðurinn fjallar um Purato Catarratto Pinot Grigio 2013

Purato Catarratto Pinot Grigio 2013 ***

Ég hef fjallað um lífræna rauðvínið frá Purato og var bara þokkalega ánægður með það og þetta hvítvín er alveg ágætt þótt mér finnist það ekki alveg jafn spennandi og rauðvínið. Það er blandað úr þrúgunum Cataratto (sem sannarlega er sikiileysk þrúga) og Pinot Grigio sem verður að teljast alþjóðleg (enginn veit svosem með fullri vissu hvaðan allar þessar Pinot-þrúgur koma). Það er einsog rauðvínið lífrænt frá upphafi til enda og flest það sem hægt er að endurnýta er endurnýtt við gerð þess.

Það hefur ljósgylltan lit og tæplega meðalopna angan af peru, sætum sítrus, epli og agúrku. Í munni er það með tæpa meðalfyllingu, er þurrt með ágæta sýru en raknar upp fljótlega og þynnist hratt út. Er samt þægilegt meðan það staldrar við. Þar má finna sítrus, peru, melónu og smá steinefni eða pappakassa.

Hafið með léttum fiskréttum, salötum, puttamat og léttum forréttum.

Verð kr. 1.975.- ágæt kaup.

Lesa meira

Víngarðurinn fjallar um Librandi Magno Megonio 2011

Librandi Magno Megonio 2011 ****1/2

Einhver bestu kaup sem hægt er að gera í vínbúðunum okkar eru vínin frá Librandi. Ciró, bæði hvítt og rautt, eru einfaldlega ótrúlega góð miðað við þann pening sem þau kosta og Duca San Felice er eitt af topp vínunum sem ég fæ í dag (og það kostar sannarlega ekki mikið). Hér er svo komið eitt vín í viðbót sem kallast Magno Megonio og er gert úr þrúgu sem enginn kannast við; Magliocco og ég verð að segja að ég er alveg heillaður.

Það kemur frá skilgreindu víngerðarsvæði sem kallast Val di Neto í Kalabríu og hefur mjög þéttan lit af „svörtum“ kirsuberjum og meðalopna angan af rauðum sultuðum berjum (kirsuberjum aðallega en líka hindberjum), brómberjum, plómusultu, þurrkuðum appelsínuberki, heybagga, súkkulaði og jörð. Þetta er afar dökkur og flottur ilmur sem vex ef víninu er umhellt eða það fær að standa smá stund í glasinu.

Í munni er það bragðmikið og þurrt með töluverða sýru og mikla lengd. Það er í frábæru jafnvægi, þrátt fyrir stærðina og hefur gegnheilt bragð frá upphafi til enda. Það mé greina sprittlegin kirsuber, bróm- og bláberjasultu, þurrkaðan appelsínubörk, jörð og þurrkaða ávexti. Afar ólíkt Duca San Felice en alveg jafn stútfullt af stórskemmtilegum persónuleika og er sérlega matarvænt. Hafið með bragðmiklum og grófum mat, td allskonar hægelduðu kjöti, fínni tómatbaseruðum hversdagsmat og grillmat.

Verð kr. 3.695.- Mjög góð kaup.

Lesa meira

Víngarðurinn fjallar um Juan Gil Meses 2013

Juan Gil 4 Meses 2013 ****

Þrúgan Monastrell mætti alveg fá meiri athygli, enda geta vínin úr henni verið skemmtilega „rauð“ í nefi og munni, svo ekki sé minnst á litinn sem í þessu tilfelli er eðaldjúpur og fjólurauður. Það kemur frá hinu skilgreinda víngerðarsvæði Jumilla á Suð-austur Spáni (ekki langt frá Alicante) og Juan Gil er í fremstu röð víngerða á þessum slóðum.

Vínið býr yfir sætum og rauðum ávexti þar sem finna má hind-, jarðar- og kirsuber, sultuðu dökk ber, fjólur og balsam. Í munni er það unglegt með fína sýru sem vinnur vel með hinum sætkennda ávexti sem breiðir vel úr sér og endist alveg merkilega lengi. Þarna eru sæt, rauð ber, krydd, púrtvínstónar og sem betur fer dökknar vínið í lokin og bjargar því frá því að verða of einhliða. Það er mjúkt og dálítið nammilegt en bara skrambi gott og upprunalegt. Hafið með bragðmeiri Miðjarðarhafsmat og það þolir vel krydd einsog finna má í norður-afrískum mat.

Verð kr. 2.564.- Mjög góð kaup.

Lesa meira

Víngarðurinn fjallar um Delas Cotes du Rhone Saint Esprit Blanc 2012

Delas Saint Esprit Côtes du Rhône (hvítt) 2012 ****

Það er ánægjulegt að fá í reynslu hvítt vín frá þessu svæði sem er að lang-stærstum hluta lagt undir rauðar þrúgur. Og sem betur fer er þetta ekki bara eitt Pinot Gris/Chardonnay-vínið í viðbót (nóg er af þeim!) heldur eru þetta skemmtilegar hvítar Miðjarðarhafsþrúgur einsog Grenache Blanc, Viognier og Bourboulenc, sem eru notaðar í vínið.

Það er strágullið að lit og hefur aðlaðandi meðalopna angan þar sem finna má sæta apríkósu, smjördeig, perujógúrt, Cantaloup-melónu og fennel. Dálítið ilmvatns- og Alsace-leg lykt sem er full af sumri og sól.

Í munni er það þykkt og með töluverða viðloðun og allsekki bera það of kalt fram því lengdin og breiddin í víninu kemur ekki fram fyrr en vínið er komið yfir 10° C Þarna má finna perur, apríkósur, fennel, brioche og rautt greipaldin. Það skortir kannski ögn steinefni til að gera það verulega skemmtilegt en engu að síður er þetta persónulegt og óvenjulegt hvítvín sem er gott með ljósu fuglakjöti, salötum og ljósu pasta.

Verð kr. 2.595.- Góð kaup.

Lesa meira

Umfjöllun um Louis Jadot Couvent des Jacobins Bourgogone Chardonnay 2013 á Víngarðinum

Louis Jadot Couvent des Jacobins Bourgogne Chardonnay 2013 ****

Það er fátt sem toppar Chardonnay í sinni heimasveit. Jafnvel þótt að þrúgan sé afar heppileg í ræktun og skili af sér töluverðu magni af víni í frábæru jafnvægi, eiginlega hvarsem henni er holað niður á jarðarkringlunni. Enda höfum við neytendur fengið ansi margar útgáfur af Chardonnay frá öllum löndum, sum góð og önnur framúrskarandi. Engu að síður er Chardonnay frá Búrgúnd ennþá með vinningin hvernig sem á það er litið og allir reyna að líkja eftir þeim vínstíl sem þar hefur verið þróaður síðustu aldir.

Louis Jadot er sannarlega einn af betri (eða bestu) „négotiant“ sem eru á svæðinu og tappar á flöskur allskonar vínum, hvítum og rauðum frá Búrgúnd. Og þrátt fyrir að þetta sé eitt af einfaldari vínunum hans þá er það sannarlega ekkert léttmeti og stenst samanburð við hvaða þungaviktarvín frá öðrum vínræktarsvæðum heimsins.

Það er gyllt að lit með upprunalegan og aðlaðandi ilm þar sem finna má eplaböku, peru, steinefni, ristaða eik, vanillu, hunang, jasmín, ananas, smjör og sæta sítrónu. Í munni er það rétt ríflega meðalbragðmikið með flotta sýru, mikið jafnvægi og afar sannfærandi lengd. Það er ungt, ferskt (getur geymst í 2-3 ár en það er dásamlega gott núna strax, svo af hverju að bíða?), þurrt og dæmigert og einsog sérhannað fyrir góðan mat. Þarna innanum og samanvið má greina smjördeig, bökuð epli, sítrónu, peru, vanillu, reyk, hunang og steinefni. Algert nammi. Hafið með bragðmeira fiskmeti og það má gjarnan vera feitt. Ljósu fuglakjöti og rjómakenndum pastasósum.

Verð kr. 3.195.- Góð kaup.

Lesa meira

Víngarðurinn fjallar um Villa Sandi Prosecco Millesimato 2013

Villa Sandi Prosecco Millesimato 2013 ****

Um daginn skrifaði ég nokkur orð um hinn venjulega Villa Sandi Prosecco, sem er án árgangs (***1/2) og nú er komið að hinum betri helming þess víns. Það er að segja árgangs-Prosecco sem er ekki algengt fyrirbæri, skal ég segja ykkur. Rétt einsog hitt og önnur freyðivín frá Prosecco er það gert úr þrúgunni Glera og þetta er alveg gler-fint vín! Sennilega besti Prosecco sem nú er í boði.

Það hefur ljósan, strágylltan lit og meðalfínar loftbólur og í nefinu má greina sæta sítrónu, bakarísilm/vínarbrauð, peru, kalk og hlaupbangsa. Ekkert yfirmáta mikil né flókin angan en það er nú þannig með Prosecco yfirleitt.

Í munni er það hinsvegar mun meira spennandi og þótt það sé létt og þokkafullt er það meðalbragðmikið, þurrt og frísklegt með góða sýru og furðanlega langt miðað við hversu létt það er. Það má finna í þvi glefsur af sítrónu, möndlumassa, peru, vínberjum, smjördegi og rauðu greipaldini. Flott og skemmtilegt freyðivín sem ætti að koma öllum, nema kannski mestu vínsnobburum og leiðindapúkum, í gott skap. Hafið eitt og sér og með einhverjum léttum puttamat.

Verð kr. 2.595.- Mjög góð kaup.

Lesa meira

Víngarðurinn fjallar um Delas Cotes du Rhone Sainte Esprit 2012

Delas Côtes-du-Rhône Saint Esprit 2012 ****

Eins og þið munið réttilega skrifaði ég dóm um hið hvíta Côtes-du-Rhône Saint Esprit (****) fyrir skömmu og hér er svo til umfjöllunnar hið rauða.

Það hefur meðaldjúpan kirsuberjarauðan lit og meðalopna angan af hinum og þessum berjum, ýmist ferskum eða sultuðum svo sem krækiberjum, bláberjum, hindberjum, jarðarberjum og kirsuberjum ásamt plómu, lyngi, fjólu og kryddjurtum. Þetta er kannski ekkert yfirmáta flókinn eða persónulegur ilmur en dæmigerður, ljúfur og aðlaðandi.

Í munni er það hinsvegar mun meira spennandi með sérlega frískandi sýru, passleg og vel ofin tannín og afar mikla lengd miðað við „einfaldan“ Côtes-du-Rhône. Það er rétt ríflega meðalbragðmikið og hefur glefsur af sultuðum kirsu- og hindberjum, plómu, krækiberjahlaupi, pipar, þurrkuðum appelsínuberki og timjan. Flott og gott matarvín sem er fínt með allskyns bragðmeiri kjötmat, pottréttum, Miðjarðarhafsmat, pasta og ostum.

Verð kr. 2.595.- Mjög góð kaup.

Lesa meira

Víngarðurinn fjallar um Louis Jadot Couvent des Jacobins Bourgogone Pinot Noir 2012

Louis Jadot Couvent des Jacobins Bourgogne Pinot Noir 2012 ****

Um daginn skrifaði ég um hvíta vínið (árgangur 2013 ****) sem ber sama nafn en er auðvitað 100% Chardonnay. Þetta er hinsvegar að sjálfsögðu gegnheilt Pinot Noir og sem slíkt vel þess virði að smakka og mun ekki svíkja unnendur Búrgúndarvína.

Það hefur dæmigerðan, tæplega meðaldjúpan kirsuberjarauðan lit og skemmtilega angan þar sem blandast saman hindber, villijarðarber, jörð, negull, kanill, kúlutyggjó og balsamtónar. Afar upprunalegt og það gæti borgað sig að umhella víninu og þeir sem eiga Búrgúndarglös t.d. frá Riedel ættu að brúka þau til að margfalda ilmvönd vínsins.

Í munni er það meðalbragðmikið og dæmigert, með töluverða lifandi sýru, góða lengd og vel gerð tannín. Þar má finna keim af jarðar-, hind- og kirsuberjum ásamt kryddi einsog negul, kanil og kardimommum. Afar matarvænt vín og þótt það sé eftilvill ekki mjög persónulegt á mælikvarða dýrari Búrgúndarvína er það vel gert og léttleikandi. Hafið með fuglakjöti, td aligæs, kalkún og önd en líka með sýruríku rauðu kjöti einsog folaldi.

Verð kr. 3.195.- Mjög góð kaup.

Lesa meira

Umfjöllun um Fantini Montepulciano d’Abruzzo 2013 á Víngarðinum

Fantini Farnese Montepulciano d’Abruzzo 2013 ***1/2

Rauðvínin frá Abruzzo eru vafalítið einhver bestu hversdagsvín sem hægt er að njóta. Þétt, mjúk, sýrurík og spræk einsog folöld að vori og yfirleitt á afar góðu verði. Og þau eru sjaldnast að reyna að vera eitthvað annað en þau eru: einföld hversdagsvín.

Þetta vín er ríflega meðaldjúpt að sjá með unglegan, rauðfjólubláan lit. Í nefinu er það unglegt, tæplega meðalopið með einfalda angan af sultuðum kirsuberjum, fjólum, lakkrís, þurrkuðum appelsínuberki og jörð.

Í munni er það meðalbragðmikið, ungt og með tölverða ferska sýru, mjúk tannín en mætti gjarnan vera með lengri hala. Það er þurrt en meðan það varir er ávöxturinn þéttur og góður þar sem blandast saman kirsuber, fjólur, negull, pipar og þurrkaður appelsínubörkur. Það hefur frískandi biturleika í lokin sem gerir það vel matarvænt. Hafið með hversdagsmat, pasta, pottréttum og öðru því sem þið fáið ykkur á þriðjudögum.

Verð kr. 1.999.- Mjög góð kaup. (Fæst líka í magnumflösku: kr. 3.695.-)

Lesa meira

Umfjöllun um Delas Ventoux 2013 á Víngarðinum

Delas Ventoux 2013 ****

Eftir því sem rauðvínin frá Côtes-du-Rhône hafa orðið eftirsóttari, hafa gæði þeirra aukist og verðið að sama skapi. Það er því ekki tilviljun að margir framleiðendur hafa leitað út fyrir hið hefðbundna svæði og gert þar vín í svipuðum stíl og þeir gerðu áður úr sömu þrúgum, en yfirleitt á skaplegra verði. Eitt af þessum svæðum er Ventoux sem liggur upp að Côtes-du-Rhône, sunnarlega í Frakklandi þar sem Miðjarðarhafið hefur mildandi áhrif á veðurfarið.

Þetta er rúbínrautt vín með ríflega meðalopið og skemmtilegt nef þar sem finna má hindber, kirsuberja-clafoutis, timjan, jörð, lárviðarlauf og villiblóm (þetta kallar ýmsir vínsnobbarar „garrigue“ sem gott er að slá um sig með í réttum hóp). Ungleg, frískleg og aðlaðandi angan.

Í munni er það þurrt og með góða sýru en sjálfur ávöxturinn er ögn léttari en nefið gefur til kynna. Engu að síður er þetta dæmigert og skemmtilegt vín sem inniheldur glefsur af kirsuberjum, plómu, pipar, lakkrís og kryddjurtum. Afbragðs matarvín í kunnuglegum Côtes-du-Rhône-stíl, einfalt en gefandi og er fínt með allskonar hversdagsmat, rauðu kjöti, frönskum kæfum og krydduðum norður-afrískum mat.

Verð kr. 2.299.- Mjög góð kaup.

Lesa meira

Víngarðurinn fjallar um Fantini Sangiovese Terre di Chieti 2013

Fantini Farnese Terre di Chieti Sangiovese 2013 ***1/2

Fyrir nokkrum dögum skrifaði ég um Montepulciano d’Abruzzo frá sama framleiðanda (***1/2) og eiginlega er hér komið vínið sem ég hélt að ég væri að smakka þá. Með öðrum orðum þá finnst mér einsog að þetta vín sé nær Abruzzo-stílnum en hið fyrra vín. Terre di Chieti er auðvitað innan Abruzzo (er ég farinn að rugla ykkur of mikið með landafræðinni?) en þrúgan er toskönsk.

Það hefur meðaldjúpan kirsuberjarauðan lit og meðalopna angan sem er ungleg og fjólublá einsog vænta má. Þar má finna kirsuber í spritti, þurrkuð hindber, leður, kakó, lakkrís og balsamtóna.

Í munni er það opið og ögn sætkennt með góða sýru og mjúk tannín en ekkert mjög í ætt við hin fínlegri Sangiovese-vín frá Toskana einsog Chianti eða Brunello. Það er ungt og auðdrekkanlegt og skilur ekki mikið eftir fyrir hinn hugsandi mann, en á móti er það afar ljúft og vel gert og fínt með matnum. Þarna má finna sæt, rauð ber, lakkrís, þurrkaðan appelsínubörk, balsam og bitrar kryddjurtir. Af þessum tveim vínum þá finnst mér þetta vín betra og nær því að fá fjórðu stjörnuna. Hafið með hversdagsmatnum en kannski ekki fínlegum fiskréttum.

Verð kr. 1.975,- Mjög góð kaup.

Lesa meira

Umfjöllun um Delas Crozes-Hermitage Les Launes 2011 á Víngarðinum

Delas Crozes-Hermitage Les Launes 2011 ****1/2

Hermitage-hæðin í þorpinu Tain við ána Rón rís 323 metra yfir sjávarmál og suðurhlíð hennar er hið eiginlega Hermitage og þar nefnast víngarðarnir nöfnum einsog tíðkast td í Búrgúnd, þeirra þekktastir eru le Méal, les Gréffieux og les Bessards. Þetta (ásamt Côte-Rôtie) er heimavöllur Syrah-þrúgunnar og bestu framleiðendur gera þarna vín sem eru stórkostleg í byggingu og endast áratugum saman. Uppá hæðinni (og þar norðuraf) og eins í þorpinu sjálfu, tekur við hið skilgreinda víngerðarsvæði Crozes-Hermitage sem hér í gamla daga var alltaf í skugganum af hinu dýra og þekkta Hermitage. En nú á dögum (með betri víngerð og hugsanlega hækkandi hitastigi) eru Crozes-Hermitage vínin farin að nálgast ískyggilega gæði stóra bróður og sannarlega eru þau flest betri núna en Hermitage sjálft var á árunum 1970-1995.

Les Launes kallst þetta vín frá hinum fína framleiðanda Delas og hefur ungan, þéttan og rauðfjólubláan lit. Það er nokkuð opið í nefinu, kraftmikið og dimmt með afar skemmtilegan ilm sem er síbreytilegur og heillandi. Þar má greina sveitalega tóna, tjöru, pipar, fjós, bökuð rauð ber, brenndan sykur, krækiberjasultu, lakkrís, læknastofu, rósir, marsipan og hið görótta Marc.

Í munni er það afar dökkt, þurrt með töluverða sýru, mikil og að mestu leiti fínkorna tannín, frábært jafnvægi og lifir mjög lengi. Að sama skapi er það lengi að koma og býður uppá bragðsimfóníu þar sem koma við sögu dökk ber, kirsuber, pipar, lakkrís, karamella, rósavatn og vanilla. Sannarlega gegnheilt, kraftmikið og upprunalegt og á eftir að þroskast og breytast í nokkur ár í viðbót. Hafið með villibráð og dökku kjöti.

Verð kr. 3.480.- Frábær kaup.

Lesa meira

Víngarðurinn fjallar um Nipozzano Riserva 2010

Nipozzano Riserva 2010 ****

Chianti Rufina nefnist skilgreint víngerðarsvæði í Toskana, sem er innan Chianti en er þó ekki Chianti Classico (sem óhætt er að segja að sé hjarta héraðsins). Þar er Frescobaldi-fjölskyldan einna þekktasti framleiðandinn og Nipozzano er gamalkunnugt og gott vín frá þeim.

Þessi Riserva býr yfir skærum, kirsuberjarauðum lit og hefur dimma en tæplega meðalopna angan af kirsuberjum, leðri, þurrkuðum laufum, lakkrís, lyngi og Jägermeister-kryddvíni.

Í munni er það meðalbragðmikið með töluverð mjúk tannín, fína byggingu og langt og glæsilegt bragð. Það er þurrt, dökkt og fágað og í bragðinu má finna glefsur af þurrkuðum hindberjum, súkkulaði, plómum, þurrkuðum ávöxtum og krækiberjahlaupi. Afar toskanskt í stíl og áferð og fer best með ítalskæætuðum mat. Allskonar kjöti og jarðbundnum pastaréttum myndi ég halda.

Verð kr. 3.495.- Góð kaup.

Lesa meira

Víngarðurinn fjallar um Frescobaldi Remole 2013

Frescobaldi Remole 2013 ***1/2

Einsog flestar víngerðir í Toskana gerir Frescobaldi-klanið vín undir allskonar skilgreiningum og þetta hér, Remole, er undir regnhlífinni IGT Toscana sem þýðir nokkurnvegin að í víninu er meira af alþjóðlegum þrúgum einsog Cabernet Sauvignon og Merlot í bland við Sangiovese, en Chianti-skilgreiningin leyfir.

Það er meðaldjúpt að sjá með unglegan rauðfjólubláan lit og meðalopna, toskanska angan þar sem finna má kræki- og kirsuber ásamt leðri, plómu, vanillu og læknastofu. Þetta er þurr ilmur en víninu helst fremur illa á sprittinu sem dregur það ögn niður.

Í munni er það meðalbragðmikið, ungt og þurrt með fína sýru og þétt tannín en er í sjálfu sér ekki flókið þótt það lifni heldur yfir því þegar það er haft með mat. Þarna eru dökk ber, lakkrís, kirsuber og lyng. Hafið með hversdagslegum Miðjarðarhafsmat. Fínt á þriðjudegi tildæmis.

Verð kr. 2.395.- Góð kaup.

Lesa meira

Umfjöllun um Chateau Grossombre de Saint-Joseph 2007 á Víngarðinum

Chateau Grossombre de Saint-Joseph 2007 ****

Chateau Grossombre de Saint-Joseph kemur úr smiðju André Lurton sem er ákveðin ávísun á gæði og það er líka gott að geta verslað vín sem er komið með hæfilegan þroska og ber upprunanum skýrt vitni.

Vínið kemur sumsé frá Bordeaux og blandan er einföld Bordó-blanda: Cabernet Sauvignon og Merlot í nokkuð jöfnum hlutföllum. Það er meðaldjúpt að sjá, fjólurautt og komið með ögn þroskaða litatóna.

Í nefi er það hefðbundið og rétt tæplega meðalopið með glefsur af sólberjum, plómu, ydduðum blýanti, jörð. vanillu og kaffi.

Það er þurrt og vel gert í munni, sýrumikið og ljúffengt í góðu jafnvægi og dæmigert fyrir hefðbundið Bordeaux-vín í einfaldari kanntinum (þó ekki einfaldasta kanntinum). Það má segja að munnurinn sé beint framhald af nefinu og nánast endurtekning á því sem þar finnst: sólber, plóma, létt eik og kaffi. Mér finnst Bordó alltaf vera frábært, get ekkert að því gert og hafið það með lambi og nauti. Önd gæti gengið með því líka.

Verð kr. 2.718. Frábær kaup.

Lesa meira

Víngarðurinn fjallar um Frescobaldi Albizzia Chardonnay 2013

Frescobaldi Albizzia Chardonnay 2013 ***1/2

Marchesi de’Frescobaldi er fínn framleiðandi í Toskana og þetta vín fékkst hér í búðum undir lok síðustu aldar ef einhver man svo langt aftur. Chardonnay í Toskana er kannski ekki algengasta hvíta þrúgan á því svæði en þó eru það nokkrir sem gera fín vín úr þessari útbreiddu þrúgu eða nota hana í bland með öðrum (t.d. Cervaro della Sala frá Antinori, reyndar í Úmbríu) en að mínu mati er Isole e Olena Chardonnay það besta. (allir árgangar sem ég hef smakkað hafa verið ****1/2-*****).

Þetta vín hefur ljós-gylltan lit með strágulum tón og tæplega meðalopna angan þar sem finna má epli, peru, melónu, smjör, sítrónu, hvít blóm og lyche. Dálítið líkara Pinot Gris (eða Grigio fyrst við erum á Ítalíu) en hinum alþjóðlega Chardonnay.

Í munni er það þurrt, sýruríkt og fínlegt með keim af peru, epli, sítrónu og greipaldin. Það raknar pínulítið upp í lokin og þarf mat til að sýna betri hliðina því það er dálítið stefnulaust og erfitt að átta sig á hvaða þrúga þetta er eða hvaðan það kemur. Hafið með meðalbragðmiklum fiskréttum og léttari réttum úr kjúkling.

Verð kr. 2.470.- Ágæt kaup.

Lesa meira

Víngarðurinn fjallar um Purato Nero d’Avola 2013

Purato Nero d’Avola 2013 ***1/2

Hér er vín fyrir áhugafólk um lífrænar afurðir og endurnýttar auðlindir því ekki nóg með að vínberin séu lífræn, sem í vínið er notað heldur eru sjálfar flöskurnar og miðarnir að einhverju leyti líka endurunnin. Geri aðrir betur. Sjálft vínið er svo bara fínt.

Það er ríflega meðaldjúpt að sjá með fjólurauðan lit og þéttan kannt og dæmigerða angan sem er ung og ávaxtarík, en ekkert svakalega flókin. Þarna má finna hind-, jarðar- og kirsuber með krydduðum undirtónum sem minna á negul og kardimommur.

Í munni er það meðalbragðmikið, ungt og ávaxtaríkt með fína sýru og fremur þurrt þrátt fyrir sætan ávöxt, svo jafnvægið verður gott í heild sinni. Þarna eru hind-, kirsu- og rifsber ásamt austurlensku kryddi. Hafið með einföldum hversdagsmat, fuglakjöti og ljósari spendýrum. Fínt með allskonar pottréttum.

Verð kr. 1.975.- Mjög góð kaup.

Lesa meira

Víngarðurinn fjallar um Massolino Langhe Chardonnay 2013

Massolino Langhe Chardonnay 2013 ****

Um daginn skrifaði ég um Nebbiolo-vínið frá Massolino og rétteins og margir aðrir gerir þessi víngerð einnig hvítvín úr Chardonnay (sú franska eðalþrúga er sumsé leyfileg á hinu skilgreinda víngerðarsvæði Langhe) enda eru hæðirnar í Piemonte vel til þess fallnar að gefa af sér fersk og glæsileg hvítvín.

Þetta vín er gyllt að lit með rétt ríflega meðalopna angan af sítrusávöxtum, peru, epli, gúmmíi, steinefnum, ananas og stjörnuávexti. Það er bjart og heiðríkt yfir þessari angan en afar erfitt að meta með nefinu einu og saman, hvaðan úr veröldinni vínið kemur, nema að það kemur tæpast frá heitu svæði.

Í munni er það meðalbragðmikið, þurrt og sýruríkt en jafnframt mjúkt með fínt jafnvægi og prýðilega endingu en samt ekkert yfirmáta flókið, þótt það sé óneitanlega vel gert. Þarna eru pera, ananas, sætur sítrus, steinefni og epli. Það virkar ögn suðrænna í munninum og er vel matarvænt. Hafið með bragðmeiri fiskréttum og það þolir vel rjóma og fitu. Ljóst fuglakjöt kemur einnig til greina ásamt léttari forréttum. Gott að umhella því fyrir neyslu og þetta vín má ekki vera of kalt.

Verð kr. 3.750.- Mjög góð kaup.

Lesa meira

Umfjöllun um Massolino Barbera d’Alba 2013 á Vinotek.is

Massolino Barbera d’Alba 2013 ****

Massolino er eitt af þeim vínhúsum í Langhe þar sem að ný kynslóð fjölskyldunnar er að færa víngerðina yfir í nútímalegra horf án þess þó að fórna hefðunum og þeim kostum sem prýtt hafa vínin frá svæðinu um langt skeið. Hér er það Barbera þrúgan sem fær að láta ljós sitt skína og koma þrúgurnar af ekrum fjölskyldunnar í Serralunga d’Alba.

Þurrt, mikil jörð, svartur ávöxtur, krækiber, leður nokkuð kryddað, Góð fersk sýra gefur víninu léttleika, mjög mild tannín,, nokkuð míneralískt, fágað. Vín sem gjarnan má umhella, þarf tíma til að mýkja sig og opnast.

3.695 krónur. Mjög góð kaup.

Lesa meira

Vinotek.is fjallar um Villa Wolf Riesling 2013

Villa Wolf Riesling 2013 ****

Ernst Loosen er með virtustu víngerðarmönnum ekki bara Móseldalsins heldur Þýskalands og hefur m.a. hampað titlinum víngerðarmaður ársins hjá fjölmörgum aðilum s.s., breska tímaritinu Decanter, hinu bandaríska Wine Enthusiast og Frökkunum hjá Gault Millau. Í Villa Wolf-línunni fer hann út fyrir Móseldalinn og framleiðir vín frá Pfalz.

Þetta er flottur Riesling og töluvert þurr á þýskan mælikvarða. Í nefinu greipávöxtur, ferskjur og melónur, ávöxturinn sætur og ferskur. Í munni gefur góð sýra víninu ferskleika en það hefur líka ágætis fyllingu og endist vel. Yndislegur Riesling. Reynið t.d. með rækjum með hvítlauk að hætti Spánverja.

1.999 krónur. Frábær kaup.

Lesa meira

Delas Crozes Hermitage Les Launes 2014 fær frábæra dóma á Vinotek.is

Delas Crozes-Hermitage Les Launes 2014 ****1/2

Crozes-Hermitage er heiti víngerðarsvæðisins sem er umhverfis þorpið Tain l’Hermitage við fljótið Rhone í Frakklandi og þarna er það þrúgan Syrah sem er ræktuð.

Les Launes frá Crozes-Hermitage er einmitt karaktermikið, norður-Rónarvín, ungt, rauður ávöxtur í nefinu, kirsuber og rifs, í bland við nokkuð fjós og krydd, smá piprað. Það er enn mjög ungt og tannínin hafa bit, leyfið því að standa í smá stund áður en það er borið fram.

2.995 krónur. Frábær kaup. 

Lesa meira

Umfjöllun um Villa Sandi Prosecco Il Fresco á Víngarðinum

Villa Sandi Prosecco Il Fresco ***1/2

Prosecco nefnist lítið svæði norður af Feneyjum þar sem gerð eru létt og þokkafull freyðivín úr þrúgunni Glera. Þegar þau eru góð þá eru þau frábær en mikið af Prosecco er oft á tíðum afar lítilfjörlegt sull (mikið búið að gagnrýna að leyft var að stækka svæðið sem rækta má Glera-þrúgurnar á til að gera Prosecco).

Villa Sandi er sannarlega einn af bestu framleiðendum Prosecco og því gleðiefni að það skuli fást hérna í hillunum. Það er mjög ljós-strágult að lit með tæplega meðalopna angan af eplum, steinefnum, hvítum blómum og sætum sítrus. Þetta er hvorki flókinn né persónulegur ilmur en afar aðlaðandi.

Í munni er það létt og yndisaukandi og mér detta í hug orð eins og „loftkennt“ og „sumarlegt“ þegar ég smakka það. Þarna eru epli, pera, vínber (!), jörð og sætur sítrus. Það er sannarlega ekki þungt og bragðmikið en furðu langt miðað við stærðina. Hafið á undan góðri máltíð og þá má alveg bíta í einhvern mildan pinnamat með því. Kannski ekki mikið af hvítlauk þó, einhverra hluta vegna.

Verð kr. 1.995.- Mjög góð kaup.

Lesa meira

Umfjöllun um Massolino Langhe Nebbiolo 2012 á Víngarðinum

Massolino Langhe Nebbiolo 2012 ****

Nebbiolo er þrúga, bara svo það sé á hreinu og Langhe er stórt svæði í Piemont en innan þess eru svo smærri og þekktari svæði einsog Barolo, Barbaresco og Asti. Á þessu svæði eru margir framleiðendur og fæstir þeirra stórir í sniðum enda eru þetta gjarnan fjölskyldufyrirtæki þar sem allir hjálpast að við víngerðina.

Það hefur lengi loðað við Nebbiolo-þrúguna að vera lítið aðgengileg nema eftir langa bið og einnig er hún þrúga sem þeir sem eru lengra komnir í vínsnobbinu kunna að meta meira en byrjendurnir. En frá því í lok síðustu aldar hafa framleiðendur reynt að gera vínin aðgengilegri fyrir alla og margir hafa horfið frá hinum hörðu og hægþroska tannínum yfir í mýkri og extrakteraðri vín. Um þetta eru deilur því mörgum finnst með því að verið sé að hverfa frá því sem gerir Nebbiolo-vín að Nebbiolo-vínum.

En Massolino fetar bil beggja. Er hefðbundinn að mörgu leiti en aðgengilegur og fínlegur og býr til afar athyglisverð vín. Þetta vín er rétt tæplega meðaldjúpt að sjá (segjum að það sé kirsuberjarautt) með gegnheilan kannt og dæmigerðan og unglegan ilm um þessar mundir. Þarna má finna kirsuber, lakkrís, hindber, fjólur og strá (dettur ekkert betra í hug). Þetta er ekki stórt nef en vínið er reyndar bara í vöggu svo ég kvíði engu.

Í munni er það vel bragðmikið með þétt tannín og töluverða sýru. Það er langvarandi, fágað, fínlegt og glæsilegt á dæmigerðan hátt með glefsur af kirsuberjum, lakkrís, þurrkuðum appelsínuberki og jörð. Eins og staðan er núna verður að umhella víninu nokkrum klukkustundum fyrir neyslu til að fá sem mest útúr því, en það stefnir hærra og ég spái því að strax á næsta ári verði það orðið ****1/2 Þetta er vín til að setja í kjallarann og geyma í 2-5 ár og smakka með reglulegu millibili. Hafið með villibráð, trufflumettuðum mat eða hörðum ostum.

Verð kr. 3.995.- Mjög góð kaup

Lesa meira

Librandi Magno Megonio 2011 fær 5 stjörnur á Vinotek.is!

Librandi Magno Megonio 2011 *****

Það eru ræktuð vín í öllum héruðum Ítalíu. Kalibría er hins vegar það hérað þar sem víngerð er hvað minnst áberandi. Þetta er ásamt Púglíu syðsta hérað meginlands-Ítalíu (táin á stígvélinu), þurrt og frekar hrjóstrugt. Engu að síður er þarna að finna nokkra víngerðarmenn og er óhætt að segja að Librandi sé þar fremstur meðal jafningja. Nokkur af ódýari vínum Librandi komu í sölu í fyrra (Ciró Rosso og Ciró Bianco) en nú er einnig fáanlegt eitt af bestu vínum vínhússins, Magno Megonio.

Þetta er vín sem er unnið 100% úr þrúgunni Magliocco og eflaust fyrsta vínið úr þeirri þrúgu sem að flestir smakka.

Dökkt með djúpum svarbláum lit, í nefinu þurrkuð ber, kirsuber, sólber, krækiber, nokkuð míneralískt, jörð og leir, kryddað, þurrt í munni, ágengt, nokkuð sýrumikið, kröftug og þægileg tannín, eikað, smá núggat.

Fyrir kraftmikinn ítalskan mat, hvort sem er pasta, risotto, osta…eða þess vegna rautt kjöt.

3.695. Frábær kaup

Lesa meira

Umfjöllun um Louis Jadot Couvent des Jacobins Pinot Noir 2011 á Vinotek.is

Louis Jadot Couvent des Jacobins Bourgogne Pinot Noir 2011 ****

Louis Jadot er eitt af þekktustu “négociant”-húsunum í Búrgund og á ekrur á flestum helstu svæðum héraðsins.

Þetta er vel gerður Pinot Noir frá Jadot. Kirsuberja og plómuávöxtur í nefi, míneralískt og allt að því málmkennt, smá járn. Vel uppbyggt, mild tannín og sýra.

3.195 krónur. Góð kaup.

Lesa meira

Castello Fonterutoli 2010 fær 5 stjörnur hjá Víngarðinum

Castello Fonterutoli 2010 *****

Það er gleðiefni að þetta vín skuli nú fást aftur, vínáhugafólki til upplyftingar og aukinnar hamingju, betra og fínlegra en nokkru sinni fyrr. Fonterutoli er á Chianti Classico-svæðinu og þetta vín er nánast hreinn Sangiovese með nokkrum Cabernet Sauvignon-berjum bætt útí, til að krydda og binda saman.

Það býr yfir afar þéttum lit af svörtum kirsuberjum og nokkuð opna og frábæra angan af kirsuberjum, plómu, vanillu (og eik auðvitað), leðri, rykugri jörð, lakkrís og gerjaðri heyrúllu. Flókinn, ungur og umfram allt gegnheill ilmur sem gælir við nefið og það borgar sig að umhella þessu víni nokkrum klukkustundum fyrir neyslu.

Í munni er það þurrt, langt og mjög stórt með mikla fyllingu og afar langa endingu án þess að tapa nokkurntímann glæsileikanum. Þarna eru glefsur af kirsuberjasultu, plómum, krækiberjahlaupi, jörð, súkkulaði, vanillu, lakkrís og þurrkuðum appelsínuberki. Þetta vín er ennþá ungt svo það má alveg geyma það næstu 5 árin til batnaðar og jafnvel lengur við góðar aðstæður en gott er að umhella því núna. Frábært vín með villibráð og alvarlegri nautasteikum. Mæli með því að þið kaupið það núna og hafið með jólamatnum. Besta vín sem Víngarðurinn hefur fjallað um á þessu ári að öðrum ólöstuðum.

Verð kr. 7.860.- Mjög góð kaup.

Lesa meira

Umfjöllun um Can Blau 2012 á Víngarðinum.

Can Blau 2012 ****1/2

Héraðið Montsant er fjarri því að vera eins þekkt og Priorat en þau liggja samhliða í fjöllunum inn- og uppaf ströndinni í Katalóníu, sunnanvið Barcelona. Að stærstum hluta er lítill sem enginn munur á þessum vínum nema þá helst verðmunur, því vín frá Priorat seljast að jafnaði á helmingi hærra verði en vín frá Montsant.Þetta vín kemur einmitt frá Montsant, úr smiðju Juan Gil og er sett saman úr þrúgunum Mazuelo, Syrah og Garnacha, ekta Miðjarðarhafsblanda. Það hefur þéttan plómurauðan lit og gegnheilan kannt. Nefið er satt best að segja dásamlega furðulegt og heillandi; rommrúsínur, súkkulaði, sultuð rauð ber, sólberjahlaup, reykelsi, sveskja, rúgbrauð, vanilla, gúmmíbangsar, vindlar, minta og jörð.

Í munni er það bragðmikið, afar sýruríkt, langvarandi og í frábæru jafnvægi. Það er kryddað og flókið einsog í nefinu en með mjúk og gælandi tannín. Þarna eru dökk og rauð ber, pipar, kirsuber, dökkt súkkulaði, sveskja, möndlumassi og lakkrís. Það er þurrt, jarðbundið og framúrskarandi gott með mat. Eitt af því besta sem ég hef bragðað á þessu ári að öðrum ólöstuðum. Svo er miðinn svo flottur líka! Hafið með bragðmiklu, rauðu kjöti og jafnvel bragðmikilli villibráð. Þetta er íhugunarvín einsog þau gerast best.

Verð kr. 3.580.- Frábær kaup.

Lesa meira

Umföllun um Louis Jadot Couvent de Jacobins Bourgogne Chardonnay 2013 á Vinotek.is

Louis Jadot Couvent des Jacobins Bourgogne Chardonnay 2013 ****

Louis Jadot er eitt af þekktustu “négociant”-húsunum í Búrgund og á ekrur á flestum helstu svæðum héraðsins. Þetta er standard-hvítvínið frá Jadot. Flottur hvítur Búrgundari, vanilla og sítrus í nefi, hunang, vínið hefur góða þykkt, svolítið þykkt og smjörkennt með fínni sýru. Mjög flott vín fyrir Búrgandara á þessu verði. Reynið t.d. með grilluðum humar eða laxi.

3.195 krónur. Mjög góð kaup.

Lesa meira

Umfjöllun um Villa Wolf Pinot Gris 2013 á Vinotek.is

Villa Wolf Pinot Gris 2013 ***1/2

Villa Wolf er eitt af vínhúsum meistarans Ernst Loosen í Mósel. Hér er hann hins vegar að fást við þrúgur úr öðru héraði sem heitir Pfalz og er með heitari víngerðarsvæðum Þýskalands.

Vínið er mjög fölt á lit, og léttperlandi í fyrstu, mild ferskju, epla og sítrónuangan, mjög ferskt, með skörpum, titrandi og léttum ávexti, þægilegt sýrubit aftarlega í gómnum, Mjög gott t.d. sem fordrykkur eða með grillaðri bleikju.

1.999 krónur. Mjög góð kaup.

Lesa meira

Poggio Badiola 2012 fær frábæra dóma á Vinotek.is

Poggio Badiola 2012 ****1/2

Poggio Badiola er rauðvín frá Toskana á Ítalíu. Það er framleitt af Mazzei-fjölskyldunni (sem á hið fræga vínhús Castello di Fonterutoli) úr þrúgum frá Chianti Classico. Vínið er hins vegar blanda af þrúgunum Sangiovese (70%) og Merlot og flokkast því sem IGT Toscana en ekki Chianti Classico.

Engu að síður hefur vínið að mörgu leyti einkenni Chianti-vína. Ferskur, bjartur, svolítið kryddaður rauður berjaávöxtur, rifsber, bláber, skógarber. Nokkuð kryddað og með þessu undursamlegu sýru sem svo oft er einkenni góðra ítalskra rauðvína, lyftir þeim upp, gerir þau lifandi og fersk og að frábærum matarvínum. Afskaplega heillandi vín fyrir góðan ítalskan mat, s.s. þessum frábæra ítalska kjúkling sem þið finnið uppskrift af hér.

2.695 krónur. Frábær kaup á því verði og vínið fær hálfa auka stjörnu fyrir samspil verðs og gæða.

Lesa meira

Umfjöllun um Castello Fonterutoli 2010 á Vinotek.is

Castello Fonterutoli 2010 ****1/2

Fonterutoli-kastalinn í Chianti Classico í Toskana er í eigu Mazzei-fjölskyldunnar, einni helstu víngerðarfjölskylduhéraðsins. Hér er á ferðinni sjálft “chateau”-vínið, sem er með betri vínum sem framleidd eru í Chianti.

Þetta er stórt og mikið vínið, mjög dökkt á lit, út í svarfjólublátt. Í nefi hefur vínið þurrt yfirbragð, blekað, fínlegt, með löngu sýruríku bragði, örlítill lakkrís, kryddað, lyng, te. Fínlegt en mjög öflug tannín, flottur strúktur. Massíft vín.

7.860 krónur. Mjög góð kaup.

Lesa meira

Umfjöllun um Les Rocailles 2013 á Vinotek.is

André Lurton Les Rocailles 2013 ***1/2

Það er ekki oft sem að maður rekst á Bordeaux-vín á undir tvöþúsundkallinum en þetta vín úr smiðju André Lurtons nær þó að rjúfa þann múr.

Þetta er ungt vín, fallega rautt á lit út í fjólublátt, sætur berjasafi í nefi, rifsberja og krækiberjasafi. Milt og mjúkt í munni, þægilegur ungur berjasafinn heldur áfram í munni  með mildum kryddum. Þetta er hið prýðilegasta sumarvín, má alveg bera fram örlítið kælt, kannski rétt undir 18 gráðum með t.d. grilluðum kjúkling og öðrum sumarlegum réttum.

1.999 krónur. Góð kaup.

Lesa meira

Umfjöllun um Muriel Crianza á Víngarðinum.

Muriel Vendemia Seleccionada Crianza 2010 ****

Spánn og Portúgal virðast vera athyglisverðustu víngerðarlöndin þessa dagana og makalaust hvað þessi frábæru vín sem þaðan streyma eru á frambærilegu verði miðað við gæði. Þetta hér kemur frá Rioja og hefur þéttan kirsuberjarauðan lit og dæmigerða, meðalopna angan af rauðum og dökkum sultuðum berjum, (kirsu,- hind,- og bláberjum) ásamt vanillu, plómu, eik, lakkrís og kakó.

Í munni er það ferskt, þurrt, afar vel byggt og fínlegt með áberandi sýru, flott tannín og langt bragð sem gerir það sérlega heppilegt með mat. Þarna eru sultuð rauð og dökk ber, vanilla, karamella, ósætur lakkrís (ég kallaði þetta apótekaralakkrís hér í gamla daga, en honum eru allir búnir að gleyma) og balsam-tónar. Hafið með lambi, svíni og bragðmeiri pottréttum, ættuðum frá Miðjarðarhafinu.

Verð kr. 2.395.- Frábær kaup.

Lesa meira

Umfjöllun um Chateau Guibon 2011 á Vinotek.is

Chateau Guibon 2011 ***1/2

Þrátt fyrir að það séu til óteljandi lítil og frambærileg vínhús í Bordeaux falla þau yfirleitt í skuggann á stóru Grand Cru-húsunum sem tróna yfir ekki bara sveitunga sína heldur flest önnur rauðvín í heiminum. Stóru og frægu vínin eru hins vegar flest hver orðin svívirðilega dýr og því ágætt að muna eftir minni húsunum þegar Bordeaux er annars vegar.

Chateau Guibon er lítið vínhús á Entre-Deux-Mers-svæðinu sem verið hafði í eigu sömu fjölskyldunnar frá því á tímum frönsku byltingarinnar þegar André Lurton festi nýlega kaup á því. Þetta er snoturt og klassískt Bordeaux-vín, auðvitað blanda úr Cabernet Sauvignon og Merlot eins og önnur rauðvín svæðisins. Sólber í nefi, plómur og krydd, súkkulaði og lakkrís, mild eik, meira að segja örlítill sedrusviður. Þétt, vel uppbyggt, ágæt tannín.

2.495 krónur. Góð kaup.

Lesa meira

Umfjöllun um Villa Wolf Pinot Noir 2012 hjá Víngarðinum.

Villa Wolf Pinot Noir 2012 ****

Í sumar skrifaði ég dóm um Villa Wolf Pinot Gris sem er framúrskarandi gott og ódýrt vín sem kom mér verulega á óvart og þetta vín er ekki síður allrar athygli vert og óhætt að mæla með því að þið lesendur góður fáið ykkur eina flösku til sjálfstæðra rannsókna.

Pinot Noir er svosem ekki óþekkt þrúga í Þýskalandi (þaðan sem vínið kemur, frá Pfalz, nánar tiltekið) en hefur sjaldan náð með tærnar sem frönsk og jafnvel austurrísk vín hafa hælana. Að einhverju leyti er það lélegum klónum að kenna en ekki síður skorti á meðalhita og sólarstundum. En nú með hækkandi hita og lengri vaxtartíma er ekki ólíklegt að betri Pinot Noir vín fari að koma frá Þýskalandi.

Þetta vín hefur dæmigerðan lit, tæplega meðaldjúpan (svona ljós-hinberjarauður) og meðalopna og dæmigerða angan af hind- og jarðarberjum, sveitalegum húsdýrailmi, þurrkuðum appelsínuberki og jörð.

Það hefur góða sýru í munni, er aðgengilegt og léttleikandi án þess að verða nokkurntíman „lítið“. Það er lengi að koma og lengi að fara og meðan það staldrar við má finna í því glefsur af jarðar- og hindberjum, þurrkuðum ávöxtum, steinefnum og bakaðri rauðrófu. Stórskemmtilegt vín í góðu jafnvægi og með mjúk tannín. Hafið með ljósu fuglakjöti, hægelduðu svínakjöti og feitum fiski svosem laxi.

Verð kr. 2.495.- Mjög góð kaup

Lesa meira

Umfjöllun um Fonterutoli Chianti Classico 2011 á Vinotek.is

Fonterutoli Chianti Classico 2011 ****1/2

Fonterutoli eru vín frá Mazzei-fjölskyldunni, einni þekktustu vínfjölskyldu Toskana-héraðsins á Ítalíu. Þau voru fáanleg hér fyrir all nokkrum árum, hurfu því miður af markaðnum en nú er hægt að fagna því að vín frá Fonterutoli eru farin að birtast í hillunum á nýjan leik. Hér er Chianti Classico-vínið.

Nokkuð djúpur, fjólublár litur. Dökkur berjasafi, plómur, austurlensk krydd og kryddjurtir í nefi, blóðberg, blek vottur af reyk. Þurrt, þykkt, kröftug og nokkuð mikil tannín, góð sýra. Þetta er vín fyrir allan góðan ítalskan mat, hvort sem er t.d. pastasósur með kjöti, Fiorentina-steik eða ostum.

3.499 krónur. Mjög góð kaup.

Lesa meira

Massolino Langhe Nebbiolo 2012 fær frábæra dóma á Vinotek.is

Massolino Nebbiolo 2012 ****1/2

Nebbiolo er þrúga sem að ætti að flokka með stóru heimsþekktu þrúgunum. Hún líður hins vegar fyrir að ferðast ekkert afskaplega vel, það er að segja það hefur ekkert gengið afskaplega vel að fá hana til að blómstra annars staðar en í heimahéraðinu Langhe í Piemont í norðausturhorni Ítalíu. Þar er hún hins vegar í essinu sínu og þaðan koma einhver bestu rauðvín Ítalíu og heimsins, stóru Barolo og Barbaresco-vínin. Þetta flotta vín frá Massolino er eins konar örlítið smækkuð útgáfa af Barolo.

Fínlegur rauður rifsberjaávöxtur, blóm, rósir, lyng, kryddað, lakkrís/anís. Í munni mikill undirliggjandi kraftur, það ræðst ekki á mann heldur faðmar mann þéttingsfast, kryddað, fínlegt og fágað, þarf tíma og krefst absólút umhellingar. Með t.d. íslenskri villibráð eða lambi, nauti Wellington þar sem það dansar með sveppunum. Mun þroskast vel næstu 5-10 árin.

3.995 krónur. Frábær kaup.  4,5 Stjörnur.

Lesa meira

Umfjöllun um Muriel Reserve 2008 á Víngarðinum.

Bodegas Muriel Vendemia Seleccionada Reserva 2008 ****1/2

Enn á ný fjalla ég um eitt af þessum frábæru rauðvínum frá Rioja og ég verð bara að segja að við lifum góða tíma nú, að hafa aðgang að öllum þessu framúrskarandi flöskum sem okkur standa til boða. Reynið þau öll!

Þetta er meðaldjúpt vín að sjá, með þroskaðan rúbínrauðan lit og spennandi angan þar sem eikin er áberandi (einsog nærri má geta, vínið er þroskað í tunnum í tvö ár) en að auki má þar finna vanillu, rauð ber, toffí, balsam, brenndan sykur, sveskjur og sultuð bláber. Þetta er margslunginn og nokkuð opinn ilmur, dæmigerður fyrir upprunann og aðlaðandi fyrir byrjendur sem og lengra komna.

Í munni er það mjúkt en bragðmikið í frábæru jafnvægi, með góða lengd og glæsileika einsog sönnu hefðarvíni ber. Það er þurrt og með ferska sýru og töluverð fínkorna tannín úr tunnu og hýði og virkar ungt þrátt fyrir ríflega sex ára þroska. Þarna má finna rauð, sultuð ber, krækiber, sveskju, balsam og vanillu. Hafið með betri kjötréttum og ekki of flóknum. Lamb, naut og folald.

Verð kr. 2.960.- Frábær kaup.

Lesa meira