Telmo Rodriguez Gaba do Xil Godello 2016 valið bestu hvítvínskaupin árið 2017 hjá Vinotek.is

Gaba de Xil er enn eitt vínið frá Telmo Rodriguez, einhverjum magnaðasta víngerðarmanni Spánar, sem hingað berst. Rodriguez er oft nefndur í sömu andrá og snillingurinn Alvaro Palacios í Priorat. Rodriguez gerir vín víða um Spán og leitast við að draga fram sérkenni og styrk hvers svæðis fyrir sig og þeirra vínþrúgna sem þar eru ræktaðar. Áður höfum við m.a. fjallað um vín hans frá Rioja, Alicante og Toro .Þetta hvítvín er hins vegar frá Valdeorras í Galisíu og þrúgan er Godello, þrúga sem aðallega má finna á norðversturhluta Spánar og nýtur vaxandi vinsælda. Ljógult á lit, angan af sætum, ljósum ávöxtum, ferskjur, „tutti frutti“-tyggjó, blóm,  fókuserað, míneralískt með vott af þægilegri seltu í lokin. Algjörlega magnað.

2.850 krónur. Frábær kaup. Magnað vín með mat.