
Þegar við horfum til hvítvína eru það hins vegar þýsk vín sem standa upp úr þetta árið. Framboð þýskra vína hefur ekki verið upp á marga fiska í gegnum árin og margir tengja Þýskaland enn við sæt og óspennandi vín. Riesling er hins vegar í höndum góðra víngerðarmanna einhver magnaðasta þrúga sem til er og hvergi nýtur hún sér betur en í hlíðunum við þýsku fljótin. Við viljum draga hér fram tvö slík hvítvín, mjög ólík en bæði ótrúlega góð. Í fyrsta lagi Erdener Treppchen Riesling Kabinett 2018 frá Ernst Loosen. Þrúgurnar koma af Treppchen-ekrunni við þorpið Erden. Treppchen mætti þýða sem „litlu tröppurnar“ en ekran er mjög brött eins og oft vill verða í bröttum hlíðunum upp af Mósel og voru á öldum áður útbúnar tröppur til að hægt væri að komast að vínviðnum. Þetta vín er algjört sælgæti, enn ungt og ferskt en agnarögn farið að glitta í steinolíuna og hunangið sem einkennir þroskaðri vín.