Castello Fonterutoli 2010 valið Vín ársins 2014 á Víngarðinum!

Í fyrsta sæti er vín sem, að öðrum ólöstuðum, var besta vín ársins að mati Víngarðsins og það eina sem fékk fullt hús stiga. Um byggingu og glæsileika þess þarf tæpast að fjölyrða. Þetta er eitt af stóru vínunum sem fást í vínbúðunum þessa dagana og þótt það sé kannski ekki ódýrt þá vita þeir það, sem eitthvað hafa vit á vínum, að þegar vín eru komin í þennan gæðaflokk þá hækkar verðmiðinn. Að því leitinu eru vín einsog fótboltakappar.

Castello Fonterutoli 2010 *****

Það er gleðiefni að þetta vín skuli nú fást aftur, vínáhugafólki til upplyftingar og aukinnar hamingju, betra og fínlegra en nokkru sinni fyrr. Fonterutoli er á Chianti Classico-svæðinu og þetta vín er nánast hreinn Sangiovese með nokkrum Cabernet Sauvignon-berjum bætt útí, til að krydda og binda saman.

Það býr yfir afar þéttum lit af svörtum kirsuberjum og nokkuð opna og frábæra angan af kirsuberjum, plómu, vanillu (og eik auðvitað), leðri, rykugri jörð, lakkrís og gerjaðri heyrúllu. Flókinn, ungur og umfram allt gegnheill ilmur sem gælir við nefið og það borgar sig að umhella þessu víni nokkrum klukkustundum fyrir neyslu.

Í munni er það þurrt, langt og mjög stórt með mikla fyllingu og afar langa endingu án þess að tapa nokkurntímann glæsileikanum. Þarna eru glefsur af kirsuberjasultu, plómum, krækiberjahlaupi, jörð, súkkulaði, vanillu, lakkrís og þurrkuðum appelsínuberki. Þetta vín er ennþá ungt svo það má alveg geyma það næstu 5 árin til batnaðar og jafnvel lengur við góðar aðstæður en gott er að umhella því núna. Frábært vín með villibráð og alvarlegri nautasteikum. Mæli með því að þið kaupið það núna og hafið með jólamatnum. Besta vín sem Víngarðurinn hefur fjallað um á þessu ári að öðrum ólöstuðum.

Verð kr. 7.860.- Mjög góð kaup.