Calmel & Joseph Cotes du Roussillon Villages 2012 valið vín mánaðarins hjá Gestgjafanum

Í nýjasta hefti Gestgjafans sem var að koma út velur Dominique Plédel vínrýnir blaðiðsins vínið Cotes du Roussillon 2012 frá Calmel & Joseph sem vín mánaðarins.  Þetta vín ásamt Vieux Carignan 2012 frá Calmel & Joseph eru nýlega byrjað á markaðnum hérna heima og hafa fengið mjög góðar viðtökur enda virkilega góð vín á ferðinni sem eru trú sínum uppruna og bera einkenni svæðisins sem þau koma frá, Languedoc Roussillon í Suður Frakklandi.  Núna um mánaðarmótin apríl-maí byrjar svo þriðja vínið frá þeim í reynslusölu í ÁTVR en það er vínið Saint Chinian 2012 sem hefur fengið mjög góða dóma erlendis m.a. hjá Jancis Robinson þar sem vínið fékk 17 punkta af 20 mögulegum.

Hér að neðan má sjá dóminn sem Cotes du Roussillon Villages 2012 fékk hjá Gestgjafanum.

Calmel & Joseph Cotes du Roussillon Villages 2012  ****1/2

Vínið kemur frá Roussillon sem hefur stundum verið kallað hér heima franska Katalonía. Calmel og Joseph stofnuðu vínhúsið fyrir nokkrum árum og víngerðin þar er nútímaleg en byggð á gömlum grunni.  Þrúgurnar eru hefðbundnar fyrir Roussillon, syrah, ggrenache og carignan og jarðvegurinn er fjölbreyttur, allt frá flögubergi yfir í kalk og leir.  Dökkt vín í fjólubláum tónum, ilmur af ferskum dökkum berjum (bláberjum, brómberjum) en líka rauðum þegar víninu er þyrlað í glasinu og kryddjurtir sem lofa góðu.

Bragðið leynir á sér; ferskleiki, hreinn og ferskur ávöxtur (dökk ber eins og koma fram í nefinu), létt sýra, fíngerð tannín – vínið er einfaldlega gómsætt og ber með besta móti einkenni héraðsins.  Frábært vín með Miðjarahafsréttum, sérstaklega kúskúsi og tagines frá Marokkó, en líka grænmetiskássum.

Okkar álit: Gómsætt vín, afar vel gert, með öllum Miðjarahafsréttum, meðal annars kúskúsi og tagines frá Marokkó.

Verð: 2.995 kr.