Vingarðurinn fjallar um Purato Catarratto Pinot Grigio 2019

Purato Cataratto Pinot Grigio 2019 ***1/2

Hin ágætu, lífrænu vín frá Purato hafa nokkrum sinnum verið til umfjöllunar hérna í Víngarðinum, bæði Grillo / Viognier-blandan og svo Siccari Appassimento sem ég var reyndar býsna hrifinn af (en einsog lesendur mínir vita er ég sjaldnast ánægður með slík vín, en það vín fékk hjá mér fjórar stjörnur). Cataratto og Pinot Grigio-blandan hefur verið nokkuð lengi til sölu hér á landi og eins Nero D’Avola, en bæði þessi vín hafa í gegnum tíðina fengið hérna þrjár eða þrjár og hálfa stjörnu. Þessi árgangur er hinsvegar bara einn sá besti og vonandi stefnir þetta vín enn hærra á komandi árgöngum.

Cataratto er sannarlega sikileysk þrúga en Pinot Grigio er frönsk/alþjóðleg og útkoman er vel neysluhæf þótt vínið sé ókomplexað og létt. Það hefur ljós-strágulan lit og meðalopinn ilm af hvítum blómum, peru, sítrusávöxtum, grænum eplum, steinaávöxtum og grænum kryddgrösum. Það er svo meðalbragðmikið, þurrt, létt og sýruríkt með keim af sítrónum, perum, grænum eplum, steinaávöxtum og einhverju sem minnir á túnsúru. Heilbrigt og auðvitað lífrænt hvítvín frá Sikiley sem er fínt með léttum forréttum, salötum, súpum, bökum og léttum fiskréttum. Ágætt líka bara eitt og sér.

Verð kr. 2.350.- Góð kaup.