Villa Wolf Pinot Noir 2018 fær toppdóma hjá Víngarðinum

Villa Wolf Pinot Noir 2018 ****+

Ég er afar ánægður með að vínin sem Ernst Loosen gerir í Pfalz skuli vera svona aðgengileg hérna á landi og öll eru þau ýmist verulega góð eða þá framúrskarandi. Ég ætla að játa að rósavínið úr Pinot Noir hefur sennilega alltaf verið það vín sem ég held mest uppá, af þeim sem nú fást, en fast á hæla þess koma svo Pinot Gris, Pinot Noir og Riesling og ég hef frétt að jafnvel muni bætast í þennan hóp einhverntíman um mitt þetta ár. Vonandi verður það. Þessi Pinot Noir er er virkilega góður fulltrúi þessarar þrúgu og svona til upprifjunnar þá var ég með um daginn umfjöllun um Pinot Noir-vínið sem Gérard Bertrand gerir í Languedoc. Mér þykir Villa Wolf vera nokkrum punktum betra og sennilega er það vegna þess að Pfalz er mun tempraðra og heppilegra svæði til ræktunar á þessari einstöku þrúgu.

Það hefur tæplega meðaldjúpan, hindberjarauðan lit og meðalopna angan sem er afar dæmigerð. Þarna má hitta fyrir jarðarber, hindber, appelsínublóm, málm, kanil, negul og steinefni. Það er svo meðalbragðmikið, sýruríkt, fínlegt og langt með öll þau einkenni sem maður sækist eftir í þessari þrúgu. Þarna eru villijarðarber, kirsuber, hindber, appelsínubörkur, málmur, steinefni og austurlensk krydd. Alveg sérlega ljúft og elegant rauðvín sem passar svo vel með allskonar mat. Allt frá forréttum fiski uppí fuglakjöt og jafnvel létta villibráð.

Verð kr. 2.850.- Frábær kaup.