Víngarðurinn fjallar um Villa Wolf Riesling 2013

Villa Wolf Riesling 2013 ****

Ég hef áður skrifað um Pinot Gris og Pinot Noir (bæði ****) frá Villa Wolf, sem mér finnast alveg framúrskarandi góð og á góðu verði og þessi Riesling er ekki síðri. Hann er reyndar, rétt einsog hin vínin, mun franskari í stíl en hinn þýski uppruni þess gefur til kynna.

Hann er ljós-strágylltur að lit með sæta og blómlega angan þar sem finna má sætan sítrus, epli, peru, hvít blóm, pipar, jasmín og steinefni en þarna eru líka feitari, austurlenskir ávextir á bakgrunni (rétt einosg í Pinot Gris).

Í munni er það tæplega hálfþurrt með mjög góða sýru, ferskt, létt og glæsilegt bragð og afar alsaskt í stíl þótt það hafi kannski ekki alveg þyngdina. Á móti er það léttleikandi og og í frábæru jafnvægi með góða lengd. Þarna er sætur sítrus, mandarína, pera, rautt greipaldin og epli. Ferskt, sumarlegt en líka mjög matarvænt sem gerir þetta fjölhæft vín að öllu leiti. Hafið eitt og sér eða með vatnafiski, tælenskum mat, ljósu fuglakjöti og eggjabökum.

Verð kr. 1.975.- Frábær kaup.