Víngarðurinn fjallar um Villa Wolf Pinot Gris 2013

Villa Wolf Pinot Gris 2013 ****

Þetta ágæta vín er úr smiðju Ernest Loosen, þeim frábæra framleiðanda úr Móseldalnum en á reyndar ættir sínar að rekja til Pfalz og það er athyglisvert að kalla þrúguna Pinot Gris (uppá franska tungu) frekar en Grauburgunder sem er hið þýska heiti hennar. Kannski er þetta mismunandi eftir mörkuðum, en engu að síður er stíllinn sóttur til Alsace svo að því leitinu er ekki undarlegt að nota hið kynþokkafulla franska tungmál.

Það hefur strágylltan lit og ríflega meðalopna angan af þroskuðum perum, ferskju, hvítum blómum, melónu, fennel og jörð. Þetta er aðlaðandi og sætkennd angan sem ætti að koma öllum í gott skap. Ég er amk enn í góðu skapi.

Í munni er það þétt og feitt einsog Alsace-vín með góða sýru og fínt jafnvægi. Það er stærra og meira í munninum en nefinu og í guðs bænum ekki bera það fram helkalt beint úr ísskápnum. Þarna eru perur, sítróna, melóna, kerfill, epli, steinefni, rautt greipaldin, kalk og jógúrt. Hafið með feitum fiskréttum, bragðmeiri forréttum og ljósu fuglakjöti.

Verð. kr. 1.999.- Mjög góð kaup.