Víngarðurinn fjallar um Villa Sandi Prosecco Millesimato 2013

Villa Sandi Prosecco Millesimato 2013 ****

Um daginn skrifaði ég nokkur orð um hinn venjulega Villa Sandi Prosecco, sem er án árgangs (***1/2) og nú er komið að hinum betri helming þess víns. Það er að segja árgangs-Prosecco sem er ekki algengt fyrirbæri, skal ég segja ykkur. Rétt einsog hitt og önnur freyðivín frá Prosecco er það gert úr þrúgunni Glera og þetta er alveg gler-fint vín! Sennilega besti Prosecco sem nú er í boði.

Það hefur ljósan, strágylltan lit og meðalfínar loftbólur og í nefinu má greina sæta sítrónu, bakarísilm/vínarbrauð, peru, kalk og hlaupbangsa. Ekkert yfirmáta mikil né flókin angan en það er nú þannig með Prosecco yfirleitt.

Í munni er það hinsvegar mun meira spennandi og þótt það sé létt og þokkafullt er það meðalbragðmikið, þurrt og frísklegt með góða sýru og furðanlega langt miðað við hversu létt það er. Það má finna í þvi glefsur af sítrónu, möndlumassa, peru, vínberjum, smjördegi og rauðu greipaldini. Flott og skemmtilegt freyðivín sem ætti að koma öllum, nema kannski mestu vínsnobburum og leiðindapúkum, í gott skap. Hafið eitt og sér og með einhverjum léttum puttamat.

Verð kr. 2.595.- Mjög góð kaup.