Víngarðurinn fjallar um Santa Tresa Grillo Viognier 2013

Feudo di Santa Tresa Grillo Viognier 2013 ***1/2

Ég skrifaði um daginn um annað hvítt vín frá þessari sömu sikileysku víngerð (Fiano ***1/2) og Cerasulo di Vittoria (rautt ***1/2) og rétt einsog þau vín er þetta lífrænt vín. Það er blandað úr þrúgunum Grillo (sem er upprunin á Sikiley) og Viognier (sem flestir þekkja frá Rhône eða Languedoc).

Það er gyllt að lit með angan af hunangi, apríkósum, peru, sætri sítrónu, einhverri mjólkurfitu og ögn af austurlenskum ávaxtakokteil. Þetta er ekki neitt sérstaklega flókinn ilmur en ljúfur er hann.

Í munni er það meðalbragðmikið, með fína sýru og gott jafnvægi en hefur ekki úthaldið, sem dregur það ögn niður. Þarna má finna apríkósur, hunang, sætan sítrus, peru og grænar jurtir. Einfalt en ljúffengt hvítvín sem er létt, sumarlegt og gott. Hafið með léttum forréttum, ljósu pasta, salötum og bökum. Gott eitt og sér.

Verð kr. 2.350.- Góð kaup.