Víngarðurinn fjallar um Santa Tresa Fiano 2013

Feudo di Santa Tresa Fiano 2013 ***1/2

Þótt Fiano sé þrúga sem ættuð er frá meginlandi Ítalíu hefur hún breiðst víða út á Sikiley, ekki síst fyrir þær sakir að gefa af sér frekar sýrurík og ljúffeng vín við erfið skilyrði (hiti og sól eru stundum erfið skilyrði fyrir hvítar þrúgur) sem sannarlega eru stundum á Sikiley. Þetta vín er, einsog önnur vín frá Santa Tresa, lífrænt og bara þokkalegt.

Það hefur frekar fölan sítrónugulan lit og tæplega meðalopna angan af ananas, sætum sítrusávöxtum, stikilsberjum, peru, ferskju og guava. Þetta er dálítið búttuð og Alsace-leg angan enda er Fiano fremur feitlagin þrúga að eðlisfari.

Í munni hefur það meðalfyllingu, afar góða sýru og er þurrara og ferskara en maður ályktar eftir að hafa rekið nefið oní glasið. Þar má rekast á glefsur einsog peru, stikilsber, rautt greipaldin og ferskjujógúrt. Frísklegt og matarvænt hvítvín með góða lengd sem ætti að ganga vel með allskyns fiskmeti, salötum, bökum og ljósu pasta.

Verð kr. 2.495.- Góð kaup.