Víngarðurinn fjallar um Santa Tresa Cerasuolo di Vittorio 2012

Feudo di Santa Tresa Cerasuolo di Vittoria Classico 2012 ***1/2

Á austanverðri Sikiley er hið skilgreinda víngerðarsvæði Cerasuolo di Vittoria þar sem gerð eru vín úr rauðum, staðbundnum þrúgum héraðsins; Nero d’Avola og Frappato. Ekki nóg með það, þetta vín er líka lífrænt.

Það er tæplega meðaldjúpt að sjá (Frappato er afar litdauf þrúga þótt Nero d’Avola geti verið ansi massív á köflum) með kirsuberjarauðan lit og ágætan kannt. Það er tæplega meðalopið í nefinu og með keim af rauðum berjum, bláberjasultu, lyngi, grenitrjám og kryddjurtum, þá einkanlega tímjan.

Í munni er það með tæpa meðalfyllingu, fína sýru og góða endingu. Það hefur mjúk tannín en skortir einhvern þéttleika í ávöxtinn til að teljast yfir meðallagi. Þarna má finna rauð ber, lyng, kryddjurtir og beiskan lakkrís í lokin. Hafið með einfaldari ítölskum mat, td pasta og tómatsósu eða þannig réttum.

Verð kr. 2.495.- Ágæt kaup.