Víngarðurinn fjallar um Purato Nero d’Avola 2013

Purato Nero d’Avola 2013 ***1/2

Hér er vín fyrir áhugafólk um lífrænar afurðir og endurnýttar auðlindir því ekki nóg með að vínberin séu lífræn, sem í vínið er notað heldur eru sjálfar flöskurnar og miðarnir að einhverju leyti líka endurunnin. Geri aðrir betur. Sjálft vínið er svo bara fínt.

Það er ríflega meðaldjúpt að sjá með fjólurauðan lit og þéttan kannt og dæmigerða angan sem er ung og ávaxtarík, en ekkert svakalega flókin. Þarna má finna hind-, jarðar- og kirsuber með krydduðum undirtónum sem minna á negul og kardimommur.

Í munni er það meðalbragðmikið, ungt og ávaxtaríkt með fína sýru og fremur þurrt þrátt fyrir sætan ávöxt, svo jafnvægið verður gott í heild sinni. Þarna eru hind-, kirsu- og rifsber ásamt austurlensku kryddi. Hafið með einföldum hversdagsmat, fuglakjöti og ljósari spendýrum. Fínt með allskonar pottréttum.

Verð kr. 1.975.- Mjög góð kaup.