Víngarðurinn fjallar um Purato Catarratto Pinot Grigio 2013

Purato Catarratto Pinot Grigio 2013 ***

Ég hef fjallað um lífræna rauðvínið frá Purato og var bara þokkalega ánægður með það og þetta hvítvín er alveg ágætt þótt mér finnist það ekki alveg jafn spennandi og rauðvínið. Það er blandað úr þrúgunum Cataratto (sem sannarlega er sikiileysk þrúga) og Pinot Grigio sem verður að teljast alþjóðleg (enginn veit svosem með fullri vissu hvaðan allar þessar Pinot-þrúgur koma). Það er einsog rauðvínið lífrænt frá upphafi til enda og flest það sem hægt er að endurnýta er endurnýtt við gerð þess.

Það hefur ljósgylltan lit og tæplega meðalopna angan af peru, sætum sítrus, epli og agúrku. Í munni er það með tæpa meðalfyllingu, er þurrt með ágæta sýru en raknar upp fljótlega og þynnist hratt út. Er samt þægilegt meðan það staldrar við. Þar má finna sítrus, peru, melónu og smá steinefni eða pappakassa.

Hafið með léttum fiskréttum, salötum, puttamat og léttum forréttum.

Verð kr. 1.975.- ágæt kaup.