Víngarðurinn fjallar um Norton Cabernet Sauvignon Reserva 2011

Norton Cabernet Sauvignon Reserva 2011 ****

Norton-víngerðin ætti að vera ykkur kunn, því að vín frá henni hafa fengist hér í meira en áratug og þetta vín hér er amk gamall kunningi minn. Það býr yfir þéttum og gegnheilum, fjólurauðum lit og ilm af sætum og sultuðum blá- og aðalbláberjum í bland við mintu, plómu, sólberjahlaup, eik og rauð ber. Það tekur svolitla stund að opna sig og mætti vera flóknara í nefinu en í munni er það með töluverða fyllingu, þurrt, þétt og inniheldur gnótt af fínlegum tannínum. Það hefur góða sýru, er unglegt og með góða lengd sem ætti að gera það mjög heppilegt með matnum. Það má finna glefsur af sólberjahlaupi, aðalbláberjasultu, vanillu, plómu, svörtum pipar og leirkenndum jarðartónum. Alveg hreint úrvals vín frá Argentínu sem fer vel með rauðu kjöti hverskonar og jafnvel einhverri villibráð.

Verð kr. 2.995.- Mjög góð kaup.