Víngarðurinn fjallar um Nipozzano Riserva 2010

Nipozzano Riserva 2010 ****

Chianti Rufina nefnist skilgreint víngerðarsvæði í Toskana, sem er innan Chianti en er þó ekki Chianti Classico (sem óhætt er að segja að sé hjarta héraðsins). Þar er Frescobaldi-fjölskyldan einna þekktasti framleiðandinn og Nipozzano er gamalkunnugt og gott vín frá þeim.

Þessi Riserva býr yfir skærum, kirsuberjarauðum lit og hefur dimma en tæplega meðalopna angan af kirsuberjum, leðri, þurrkuðum laufum, lakkrís, lyngi og Jägermeister-kryddvíni.

Í munni er það meðalbragðmikið með töluverð mjúk tannín, fína byggingu og langt og glæsilegt bragð. Það er þurrt, dökkt og fágað og í bragðinu má finna glefsur af þurrkuðum hindberjum, súkkulaði, plómum, þurrkuðum ávöxtum og krækiberjahlaupi. Afar toskanskt í stíl og áferð og fer best með ítalskæætuðum mat. Allskonar kjöti og jarðbundnum pastaréttum myndi ég halda.

Verð kr. 3.495.- Góð kaup.