Víngarðurinn fjallar um Mucho Mas

Mucho Más (án árg.) ***1/2

Alltaf kann ég betur við að sjá árganga á vínflöskum, hvort sem þeir hafa verið góðir eða slæmir á því svæði sem vínið kemur frá. Maður veit þó amk aldur vínsins og getur því ályktað hvort það sé í réttu ástandi fyrir neyslu. Mörg vín eru reyndar árgangslaus, til dæmis langflest Kampavín en það er vegna þess að þau eru blönduð úr fleiri en einum árgangi og því ekki hægt að tilgreina hann sérstaklega. Eins eru flest einföld freyðivín, einsog td Prosecco án árgangs og til skamms tíma var ekki tilgreint um árgang á flestum kassavínum.

Þetta vín er nefnilega án árgangs og ekki nóg með það, þá er upprunastaðurinn skráður vera Spánn, sem merkir að það er blanda af vínum eða þrúgum frá fleiri en einu skilgreindu víngerðarsvæði. En þrátt fyrir blandaðan uppruna og árgangsleysi er þetta allsekki verra vín en mörg sem koma frá einum bletti og einum árgangi.

Það er heldur ekkert uppgefið á flöskumiðanum hvaða þrúga eða þrúgur eru í þessu víni (miðinn segir manni eiginlega nákvæmlega ekkert) en ef maður leitar á hinum svokallaða alneti þá kemur fljótlega í ljós að það er blanda úr hinni spænsku Tempranillo-þrúgu og hinni frönsku Syrah og til viðbótar má einnig lesa að það kemur frá norður- og miðhluta Spánar og það er þroskað lítillega í bandarískum eikartunnum.

Það býr svo yfir rétt ríflega meðaldjúpum, plómurauðum lit og í nefinum má greina kirsuber, hindber, jarðarber, bláberjasultu, þurrkaða ávexti, balsam og lakkrís. Þetta vín er með sætan undirtón í nefinu og sá sætleiki er einnig vel greinanlegur í munninum en það hefur einnig prýðilega sýru svo sætan verður aldrei óþægileg og jafnvægið er reyndar furðu gott. Tannín eru einnig mjúk og endingin bara ágæt. En það er líka ríflega meðalbragðmikið og þarna má finna sætan rauðan ávöxt, sultuð bláber, plómur, þurrkaða ávexti, balsam, krydd og lítilsháttar steinefni. Þetta er stórt en ekki flókið hversdagsvín og ég veit að mikilli reynslu að þetta er akkkúrat vín sem allir Íslendingar elska: bragðmikið, þétt og með sætan undirtón. Hafið með allskonar kjötmat, pottréttum, pasta og það þolir alveg vel kryddaðan mat.

Verð kr. 1.999.- Mjög góð kaup.