Víngarðurinn fjallar um Massolino Langhe Chardonnay 2013

Massolino Langhe Chardonnay 2013 ****

Um daginn skrifaði ég um Nebbiolo-vínið frá Massolino og rétteins og margir aðrir gerir þessi víngerð einnig hvítvín úr Chardonnay (sú franska eðalþrúga er sumsé leyfileg á hinu skilgreinda víngerðarsvæði Langhe) enda eru hæðirnar í Piemonte vel til þess fallnar að gefa af sér fersk og glæsileg hvítvín.

Þetta vín er gyllt að lit með rétt ríflega meðalopna angan af sítrusávöxtum, peru, epli, gúmmíi, steinefnum, ananas og stjörnuávexti. Það er bjart og heiðríkt yfir þessari angan en afar erfitt að meta með nefinu einu og saman, hvaðan úr veröldinni vínið kemur, nema að það kemur tæpast frá heitu svæði.

Í munni er það meðalbragðmikið, þurrt og sýruríkt en jafnframt mjúkt með fínt jafnvægi og prýðilega endingu en samt ekkert yfirmáta flókið, þótt það sé óneitanlega vel gert. Þarna eru pera, ananas, sætur sítrus, steinefni og epli. Það virkar ögn suðrænna í munninum og er vel matarvænt. Hafið með bragðmeiri fiskréttum og það þolir vel rjóma og fitu. Ljóst fuglakjöt kemur einnig til greina ásamt léttari forréttum. Gott að umhella því fyrir neyslu og þetta vín má ekki vera of kalt.

Verð kr. 3.750.- Mjög góð kaup.