Víngarðurinn fjallar um Massolino Barbera d’Alba 2013

Massolino Barbera d’Alba 2013 ****

Barbera er frábær þrúga sem fleiri ættu að kynna sér hið snarasta enda eru fá vín í heiminum jafn lystaukandi og matarvæn og þau. Massolino er afar góður framleiðandi í Piemonte og ég hef áður ritað um Nebbiolo og Chardonnay frá honum (bæði ****).

Þetta er meðaldjúpt vín að sjá, rúbínrautt með góðan kannt og unglega „fjólubláa“ angan þar sem finna má súr kirsuber, hindber, krækiberjasultu, fjólur, beiskar möndlur, súkkulaði, lyng og balsam. Það er góð hugmynd að umhella þessu víni eða gefa því góðan tíma til að opnast í glasinu, því til að byrja með getur það verið svolítið klemmt.

Í munni er það þurrt, ferskt, sýruríkt og unglegt með töluverð mjúk tannín en jafnvægið er mjög gott og lengdin líka. Það er ríflega meðalbragðmikið, kannski ekki svo flókið en það bætir það upp með því að vera afar ljúffengt. Þarna eru rauð og dökk sultuð ber, beiskar möndlur, súkkulaði, kardimommur og negull. Sérlega matarvænt og lifandi vín sem er fínt með allskyns ítölskum mat, allt frá villisvepparísottó til hægeldaðra nautakinna. Eða bara með hverju sem er.

Verð kr. 3.690.- Góð kaup.