Víngarðurinn fjallar um Luis Felipe Edwards Chardonnay 2013

Luis Felipe Edwards Chardonnay 2013 ***1/2

Luis Felipe Edwards er bara ansi stór fjölskylduvíngerð, á Chileskan mælikvarða og frá henni koma nokkur athyglisverð vín. Þetta er hér er Chardonnay sem ræktaður er í Valle Central, suður af höfuðborginni Santiago.

Vínið hefur strágylltan lit og meðalopna angan þar sem finna má peru, soðin epli, melónu, sítrónu, ananas og læm. Þetta er sætkennd og nokkuð exótísk angan og dæmigerð fyrir Chardonnay frá heitari ræktunarsvæðum.

Það er meðalbragðmikið með ferska sýru og ágætt jafnvægi þótt það sé hvorki flókið né persónulegt. Það er þurrt og endist vel með keim af sítrónu, læmi, ananas, peru, epli, jörð og greipaldin. Þetta er bara ljómandi vín sem sómir sé vel á hversdagsborðum landsmanna. Hafið með fiski, salötum, ljósu pasta og ljósu fuglakjöti.

Verð kr. 1.895.- Mjög góð kaup.