Víngarðurinn fjallar um Luis Felipe Edwards Cabernet Sauvignon 2013

Luis Felipe Edwards Cabernet Sauvignon 2013 ***1/2

Einsog flest frá Luis Felipe Edwards er þessi Cabernet ljúfur og góður án þess að vera neitt framúrskarandi og það væri gaman að fá Carménere frá honum í hillurnar, en það vín hefur fengið einna bestu dómana undanfarið í útlendu pressunni.

Það hefur þéttan rauðfjólubláan lit og ilm af suðrænum Cabernet; plóma sólber, þurrkaðir ávextir og evkalyptus. Sprittið er eilítið laust frá meginlandinu en það er ekki til stórra vandræða. Í munni er það meðalbragðmikið, ungt og ferskt með góða sýru og mjúk tannín. Það hefur einsog jafnan með suðræn Cabernet-vín, sætkenndan ávöxt sem endist vel og einfaldan keim af plómu, sólberjum, rauðum berjum og súkkulaði. Einfalt en ljúft hversdagsvín sem er fínt með rauðu kjöti, pasta og pottréttum.

Verð kr. 1.895.- Mjög góð kaup.