Víngarðurinn fjallar um Louis Jadot Macon Chardonnay 2014

Louis Jadot Mâcon Chardonnay 2014 ****+

Það er munur á Chardonnay frá Gullströndinni (Côte d’Or) og þeim sem eru gerð sunnar í Búrgúnd. Stundum er það lítilsháttar munur en oftast nær er hann vel greinanlegur og þá má yfirleitt segja að þau sem gerð eru í Mâcon séu suðrænni, ögn alkóhólríkari og með meira af austurlenskum ávöxtum. Þau frá suðurhlutanum eru að jafnaði einnig minna jarðbundin, endast skemur en geta á hinn bóginn verið ansi sjarmerandi í æsku sinni.

Þetta vín er einmitt frá suður-Búrgúnd og gert af hinu vel þekkta vínhúsi Louis Jadot. Það hefur gylltan lit með smá grænum tónum og meðalopna angan af sítrónu, eplum, peru, hvítum blómum, kerfil, apríkósum, læm, ananas, mjólkurfitu, mangó og melónu. Utan um þetta er léttur eikarilmur svo nefið verður að teljast afar skemmtilegt og dæmigert.

Í munni er það þurrt, sýruríkt og mjúkt með góða lengd og í mjög góðu jafnvægi. Það er alltumlykjandi einsog gott Chardonnay frá þessum slóðum á að vera og með glefsur af sítrónu, eplapæi, peru, grænum kryddgrösum, ananas, læm, rauðu greipaldin, rjóma, eik og toffí. Verulega góður Chardonnay sem munar engu að fái fjóra og hálfa stjörnu. Hafið með bragðmeiri fiskréttum, skelfisk, ljósu kjöti, mörgum forréttum og svo er það æði, barasta eitt og sér.

Verð kr. 2.999.- Frábær kaup.