Víngarðurinn fjallar um Louis Jadot Couvent des Jacobins Bourgogone Pinot Noir 2012

Louis Jadot Couvent des Jacobins Bourgogne Pinot Noir 2012 ****

Um daginn skrifaði ég um hvíta vínið (árgangur 2013 ****) sem ber sama nafn en er auðvitað 100% Chardonnay. Þetta er hinsvegar að sjálfsögðu gegnheilt Pinot Noir og sem slíkt vel þess virði að smakka og mun ekki svíkja unnendur Búrgúndarvína.

Það hefur dæmigerðan, tæplega meðaldjúpan kirsuberjarauðan lit og skemmtilega angan þar sem blandast saman hindber, villijarðarber, jörð, negull, kanill, kúlutyggjó og balsamtónar. Afar upprunalegt og það gæti borgað sig að umhella víninu og þeir sem eiga Búrgúndarglös t.d. frá Riedel ættu að brúka þau til að margfalda ilmvönd vínsins.

Í munni er það meðalbragðmikið og dæmigert, með töluverða lifandi sýru, góða lengd og vel gerð tannín. Þar má finna keim af jarðar-, hind- og kirsuberjum ásamt kryddi einsog negul, kanil og kardimommum. Afar matarvænt vín og þótt það sé eftilvill ekki mjög persónulegt á mælikvarða dýrari Búrgúndarvína er það vel gert og léttleikandi. Hafið með fuglakjöti, td aligæs, kalkún og önd en líka með sýruríku rauðu kjöti einsog folaldi.

Verð kr. 3.195.- Mjög góð kaup.