Víngarðurinn fjallar um Louis Jadot Chablis 2018

Louis Jadot Chablis 2018 ****+

Fyrir viku var hér pistill um hið frábæra rauðvín Combe aux Jacques Beaujolais Village 2018, sem Louis Jadot framleiðir í samnefndu víngerðarsvæði og einsog ég nefndi þá gerir Louis Jadot víða vín innan Búrgúndar og þetta vín hér er einmitt eitt slíkt.

Chablis er eitt besta þekkta skilgreinda víngerðarsvæði Frakklands og reyndar eitt best heppnaða „vörumerki“ sem nútíma víngerð getur um, enda voru „Chablis“-vín framleidd víða um heim (og þá sérstaklega í Kaliforníu) allt þartil frönskum yfirvöldum tókst að semja um afnám þessarar nafngjafar á sínum tíma. Þótt mér kæmi ekki á óvart að það séu enn framleidd „Chablis“-vín í Kína þá er það ekki tilviljun að víngerðarmenn um allan heim vilji feta í fótspor þessa smáþorps, nyrst í Búrgúnd.

Og hvað er það svo sem gerir Chablis-vín einstök? Þarna er eingöngu leyfð ein hvít þrúga, Chardonnay og jarðvegurinn (á öllum bestu ekrunum) er gamall sjávarbotn sem inniheldur mikið magn af kalki (eða samanþjöppuðum skeljum frá ýmsum tímum) sem gerir vínin afar steinefnarík. Eins er þetta svæði það norðarlega á hnettinum að það má engu muna að þrúgur þroskist yfir höfuð og því eru þessi vín ætíð með afar góða og frísklega sýru.

Þessi Chablis er gylltur að lit með meðalopna og aðlaðandi angan af þroskuðum eplum, sætum sítrónubúðing, vínberjum, steinaávöxtum, hvítum blómum, mjólkurfitu, steinefnum og perujógúrt. Þetta er dæmigerð og ungleg angan en Chablis-vín eru einmitt þekkt fyrir að vera afar ljúf í æsku en eiga einnig mjög farsæla elli (elli er kannski rangt hugtak, bestu Chablis-vínin eru frábær svona 5-10 ára gömul).

Það er svo meðalbragðmikið og þurrt með afar frísklega sýru og til að jafna hana út eru þarna mjúkir og kremaðir fitutónar. Þarna eru epli, sítróna, pera, steinaávextir, perujógúrt, steinefni og hunang. Virkilega vel gert Chablis-vín í mjög góðu jafnvægi og með fína endingu. Hafið þetta vín með allskonar sjávarréttum, feitur fiskur einsog humar eða flatfiskur er klassísk með þessu en ef þið eruð svo heppin að komast í ostrur þá er þetta vínið til að hafa með.

Verð kr. 3.695.- Mjög góð kaup.