Víngarðurinn fjallar um Librandi Magno Megonio 2011

Librandi Magno Megonio 2011 ****1/2

Einhver bestu kaup sem hægt er að gera í vínbúðunum okkar eru vínin frá Librandi. Ciró, bæði hvítt og rautt, eru einfaldlega ótrúlega góð miðað við þann pening sem þau kosta og Duca San Felice er eitt af topp vínunum sem ég fæ í dag (og það kostar sannarlega ekki mikið). Hér er svo komið eitt vín í viðbót sem kallast Magno Megonio og er gert úr þrúgu sem enginn kannast við; Magliocco og ég verð að segja að ég er alveg heillaður.

Það kemur frá skilgreindu víngerðarsvæði sem kallast Val di Neto í Kalabríu og hefur mjög þéttan lit af „svörtum“ kirsuberjum og meðalopna angan af rauðum sultuðum berjum (kirsuberjum aðallega en líka hindberjum), brómberjum, plómusultu, þurrkuðum appelsínuberki, heybagga, súkkulaði og jörð. Þetta er afar dökkur og flottur ilmur sem vex ef víninu er umhellt eða það fær að standa smá stund í glasinu.

Í munni er það bragðmikið og þurrt með töluverða sýru og mikla lengd. Það er í frábæru jafnvægi, þrátt fyrir stærðina og hefur gegnheilt bragð frá upphafi til enda. Það mé greina sprittlegin kirsuber, bróm- og bláberjasultu, þurrkaðan appelsínubörk, jörð og þurrkaða ávexti. Afar ólíkt Duca San Felice en alveg jafn stútfullt af stórskemmtilegum persónuleika og er sérlega matarvænt. Hafið með bragðmiklum og grófum mat, td allskonar hægelduðu kjöti, fínni tómatbaseruðum hversdagsmat og grillmat.

Verð kr. 3.695.- Mjög góð kaup.