Víngarðurinn fjallar um Herencia Altés Cupatge 2018

Herencia Altés Cupatge 2018 ****

Í fljótu bragði minnist ég þess ekki að vín frá héraðinu Terra Alta á Spáni hafi ratað í hillur vínbúðanna fyrr en þá núna. Terra Alta liggur dálítið inn til landsins, syðst og vestast í Katalóníu og einosg nafnið gefur til kynna eru víngarðarnir þar í töluverðri hæð yfir sjávarmáli enda eru vínin frá þessu svæði yfirhöfuð fínlegri en margt það sem ræktað er nær sjávarmálinu, einsog til dæmis í Penédes og Priorat. Þarna eru ræktaðar allskonar þrúgur, bæði spænskar og alþjóðlegar og fátt virðist því til fyrirstöðu að þarna verði gerð framúrskarandi vín, enda hefur héraðið uppá margt að bjóða, meðal annars ríkulegt magn af kalksteini í jarðveginum sem margoft hefur sýnt sig að er lykillinn af því að gera fínleg og margslungin vín.

Þetta lífræna rauðvín er blandað úr þrúgunum Syrah, Garnatxa og Carignan og býr yfir meðaldjúpum, plómurauðum lit. Það er svo meðalopið í nefinu kryddað og rautt enda eru mest áberandi þarna jarðarber, kirsuber, austurlensk krydd, þurrkaður appelsínubörkur og lakkrís. Það er svo rétt meðalbragðmikið í munni, sýruríkt og fínlegt með ferska sýru og töluvert langvarandi bragð sem heldur góðu jafnvægi allan tíman. Þarna eru jarðarber, kirsuber, sítrusávextir, hindber, austurlensk krydd og lakkrís. Sérlega ljúffengt vín sem minnir að mörgu leiti í stíl á vín úr Pinot Noir og er fínt með allskonar mat, villibráð, dekkra fuglakjöti og ljósu kjöti.

Verð kr. 2.795.- Mjög góð kaup.