Víngarðurinn fjallar um Frescobaldi Remole 2013

Frescobaldi Remole 2013 ***1/2

Einsog flestar víngerðir í Toskana gerir Frescobaldi-klanið vín undir allskonar skilgreiningum og þetta hér, Remole, er undir regnhlífinni IGT Toscana sem þýðir nokkurnvegin að í víninu er meira af alþjóðlegum þrúgum einsog Cabernet Sauvignon og Merlot í bland við Sangiovese, en Chianti-skilgreiningin leyfir.

Það er meðaldjúpt að sjá með unglegan rauðfjólubláan lit og meðalopna, toskanska angan þar sem finna má kræki- og kirsuber ásamt leðri, plómu, vanillu og læknastofu. Þetta er þurr ilmur en víninu helst fremur illa á sprittinu sem dregur það ögn niður.

Í munni er það meðalbragðmikið, ungt og þurrt með fína sýru og þétt tannín en er í sjálfu sér ekki flókið þótt það lifni heldur yfir því þegar það er haft með mat. Þarna eru dökk ber, lakkrís, kirsuber og lyng. Hafið með hversdagslegum Miðjarðarhafsmat. Fínt á þriðjudegi tildæmis.

Verð kr. 2.395.- Góð kaup.