Víngarðurinn fjallar um Frescobaldi Albizzia Chardonnay 2013

Frescobaldi Albizzia Chardonnay 2013 ***1/2

Marchesi de’Frescobaldi er fínn framleiðandi í Toskana og þetta vín fékkst hér í búðum undir lok síðustu aldar ef einhver man svo langt aftur. Chardonnay í Toskana er kannski ekki algengasta hvíta þrúgan á því svæði en þó eru það nokkrir sem gera fín vín úr þessari útbreiddu þrúgu eða nota hana í bland með öðrum (t.d. Cervaro della Sala frá Antinori, reyndar í Úmbríu) en að mínu mati er Isole e Olena Chardonnay það besta. (allir árgangar sem ég hef smakkað hafa verið ****1/2-*****).

Þetta vín hefur ljós-gylltan lit með strágulum tón og tæplega meðalopna angan þar sem finna má epli, peru, melónu, smjör, sítrónu, hvít blóm og lyche. Dálítið líkara Pinot Gris (eða Grigio fyrst við erum á Ítalíu) en hinum alþjóðlega Chardonnay.

Í munni er það þurrt, sýruríkt og fínlegt með keim af peru, epli, sítrónu og greipaldin. Það raknar pínulítið upp í lokin og þarf mat til að sýna betri hliðina því það er dálítið stefnulaust og erfitt að átta sig á hvaða þrúga þetta er eða hvaðan það kemur. Hafið með meðalbragðmiklum fiskréttum og léttari réttum úr kjúkling.

Verð kr. 2.470.- Ágæt kaup.