Víngarðurinn fjallar um Fonterutoli Chianti Classico 2011

Fonterutoli Chianti Classico 2011 ****

Ég verð að viðurkenna að vera afar kátur með að þetta vín skuli nú aftur vera á boðstólnum eftir nokkura ára fjarveru (ég skrifaði einmitt um árganginn 2001 á sínum tíma sem allir aðdáendur mínir muna auðvitað eftir). Þá var þetta vín einn af betri fulltrúum hins „nýja“ Chianti-stíls sem hafði gengið í gegnum töluverðar breytingar áratuginn þar á undan. Núna er þetta vín vissulega enn með nýmóðins slagsíðu en hefur þó færst nær hinum fágaða klassíska Chianti-stíl, ef eitthvað er. Það hefur þéttan kirsuberjarauðan lit og gegnheilan kannt. Í nefi er það þétt, dökkt og skemmtilega flókið eins og við má búast. Sultuðu brómber, kirsuber, leður, leirkennd jörð, heybaggi. lakkrís, balsamedik, möndlumassi, vanilla, hrátt kjöt og jarðarber. Framúrskarandi ilmur og sver sig í ætt við bestu íhugunarvín.

Í munni er það þurrt, þétt og með lystaukandi sýru. Tannínin eru töluverð og afar þroskuð og jafnvægið hárrétt. Þarna eru krækiber, kirsuber, þurrkaðir ávextir, jörð, balsamedik, vanilla og lakkrís. Það er ungt og á nokkur ár eftir í fullþroska og því er umhelling ekki slæm hugmynd næstu mánuði. Hafið með besta rauða kjötinu sem þið fáið. Munar ekki nema hársbreidd að það fái hálfa stjörnu í viðbót.

Verð kr. 3.499.- Mjög góð kaup.