Víngarðurinn fjallar um Finca La Colonia Sauvignon Blanc 2014

Finca La Colonia er ódýrasta og einfaldasta vínið frá víngerðinni Bodegas Norton í Mendoza í Argentínu og hvernig sem ég leitaði á flöskunni fann ég ekki árganginn skráðan (vona þá að réttir aðilar leiðrétti mig en vínið getur tæpast verið eldra en 2014 hvort eð er).

Það er gul-grænt að lit með meðalopna og frekar evrópskan Sauvignon Blanc ilm, þótt örlitlir austurlenskir tónar slæðist þarna inn. Þar má greina peru, sítrónu, læm, rifsber, ananas, hvít blóm, nektarínu, guava og steinefni. Fersk, sumarleg og spennandi angan.

Í munni er það þurrt og sýruríkt í góðu jafnvægi og afar aðgengilegt þótt það sé ekki mjög flókið. Þarna er sítróna, læm, pera, ananas, steinefni. rifsber og apríkósa. Það er evrópskt í stíl, matarvænt og sumarlegt. Hafið með ljósu kjöti, meðalbragðmiklum fiskréttum, salötum, geitaosti og svo er ekkert mál að hafa það sem fordrykk.

Verð kr. 2.395.- Mjög góð kaup. ****