Víngarðurinn fjallar um Finca La Colonia Malbec 2014

Finca La Colonia Malbec 2014 ***1/2

Ég hef áður skrifað um Cabernet Sauvignon og Sauvignon Blanc í þessari línu frá víngerðinni Norton í Mendoza í Argentínu og hér er Malbec-vínið þeirra og það er bara fínt líka. Kannski það besta?

Það hefur þéttan og gegnheilan rauðfjólubláan lit og nefið er blanda rauðum og dökkum sultuðum berjum, apótekaralakkrís, sveskjum í Armagnac, vanillu, heybagga, plómu, mómold og stálplötu.

Það hefur góða meðalfyllingu, er ungt, þurrt og með ferska sýru, mjúk tannín og ágæta endingu þótt það skorti kannski flækjuna sem maður gjarnan vill fá líka. Það má finna krækiber, rauð sultuð ber, papriku, vanillu, pipar og málm. Prýðilegt hversdagsrauðvín sem er fínt með flestu kjötmeti, bragðmeiri pottréttum og pasta.

Verð kr. 2.395.- Mjög góð kaup.