Víngarðurinn fjallar um Finca la Colonia Chardonnay 2014

Finca La Colonia Chardonnay 2014 ***1/2

Þessi argentínski Chardonnay er ljós-gylltur að lit og býr yfir rétt tæplega meðalopinni angan af peru, melónu, sætri sítrónu, læm og smjöri. Þetta er ferskur, dæmigerður og létt- eða óeikaður ilmur sem er afar kunnuglegur en hreint ekki svo óaðlaðandi og engin furða að Chardonnay skuli vera ein af bestu hvítvínsþrúgum heimsins: það er eiginlega erfitt að gera úr henni vond vín þótt sum séu auðvitað dálítið hvert öðru líkt.

Í munni er það meðalbragðmikið, þurrt, með góða sýru, prýðilega byggingu og fína endingu af ekki stærra víni að vera. Þarna má finna glefsur af sætri sítrónu, læm, peru, rauðu greipaldin, smjöri og melónu. Fínasta hversdags-hvítvín sem er gott með bragðmeiri fiskréttum, ljósu pasta, bökum og léttari forréttum.

Verð kr. 2.395.- Góð kaup.