Víngarðurinn fjallar um Fantini Sangiovese Terre di Chieti 2013

Fantini Farnese Terre di Chieti Sangiovese 2013 ***1/2

Fyrir nokkrum dögum skrifaði ég um Montepulciano d’Abruzzo frá sama framleiðanda (***1/2) og eiginlega er hér komið vínið sem ég hélt að ég væri að smakka þá. Með öðrum orðum þá finnst mér einsog að þetta vín sé nær Abruzzo-stílnum en hið fyrra vín. Terre di Chieti er auðvitað innan Abruzzo (er ég farinn að rugla ykkur of mikið með landafræðinni?) en þrúgan er toskönsk.

Það hefur meðaldjúpan kirsuberjarauðan lit og meðalopna angan sem er ungleg og fjólublá einsog vænta má. Þar má finna kirsuber í spritti, þurrkuð hindber, leður, kakó, lakkrís og balsamtóna.

Í munni er það opið og ögn sætkennt með góða sýru og mjúk tannín en ekkert mjög í ætt við hin fínlegri Sangiovese-vín frá Toskana einsog Chianti eða Brunello. Það er ungt og auðdrekkanlegt og skilur ekki mikið eftir fyrir hinn hugsandi mann, en á móti er það afar ljúft og vel gert og fínt með matnum. Þarna má finna sæt, rauð ber, lakkrís, þurrkaðan appelsínubörk, balsam og bitrar kryddjurtir. Af þessum tveim vínum þá finnst mér þetta vín betra og nær því að fá fjórðu stjörnuna. Hafið með hversdagsmatnum en kannski ekki fínlegum fiskréttum.

Verð kr. 1.975,- Mjög góð kaup.