Víngarðurinn fjallar um Delas Cotes du Rhone Sainte Esprit 2012

Delas Côtes-du-Rhône Saint Esprit 2012 ****

Eins og þið munið réttilega skrifaði ég dóm um hið hvíta Côtes-du-Rhône Saint Esprit (****) fyrir skömmu og hér er svo til umfjöllunnar hið rauða.

Það hefur meðaldjúpan kirsuberjarauðan lit og meðalopna angan af hinum og þessum berjum, ýmist ferskum eða sultuðum svo sem krækiberjum, bláberjum, hindberjum, jarðarberjum og kirsuberjum ásamt plómu, lyngi, fjólu og kryddjurtum. Þetta er kannski ekkert yfirmáta flókinn eða persónulegur ilmur en dæmigerður, ljúfur og aðlaðandi.

Í munni er það hinsvegar mun meira spennandi með sérlega frískandi sýru, passleg og vel ofin tannín og afar mikla lengd miðað við „einfaldan“ Côtes-du-Rhône. Það er rétt ríflega meðalbragðmikið og hefur glefsur af sultuðum kirsu- og hindberjum, plómu, krækiberjahlaupi, pipar, þurrkuðum appelsínuberki og timjan. Flott og gott matarvín sem er fínt með allskyns bragðmeiri kjötmat, pottréttum, Miðjarðarhafsmat, pasta og ostum.

Verð kr. 2.595.- Mjög góð kaup.