Víngarðurinn fjallar um Delas Cotes du Rhone Saint Esprit Blanc 2012

Delas Saint Esprit Côtes du Rhône (hvítt) 2012 ****

Það er ánægjulegt að fá í reynslu hvítt vín frá þessu svæði sem er að lang-stærstum hluta lagt undir rauðar þrúgur. Og sem betur fer er þetta ekki bara eitt Pinot Gris/Chardonnay-vínið í viðbót (nóg er af þeim!) heldur eru þetta skemmtilegar hvítar Miðjarðarhafsþrúgur einsog Grenache Blanc, Viognier og Bourboulenc, sem eru notaðar í vínið.

Það er strágullið að lit og hefur aðlaðandi meðalopna angan þar sem finna má sæta apríkósu, smjördeig, perujógúrt, Cantaloup-melónu og fennel. Dálítið ilmvatns- og Alsace-leg lykt sem er full af sumri og sól.

Í munni er það þykkt og með töluverða viðloðun og allsekki bera það of kalt fram því lengdin og breiddin í víninu kemur ekki fram fyrr en vínið er komið yfir 10° C Þarna má finna perur, apríkósur, fennel, brioche og rautt greipaldin. Það skortir kannski ögn steinefni til að gera það verulega skemmtilegt en engu að síður er þetta persónulegt og óvenjulegt hvítvín sem er gott með ljósu fuglakjöti, salötum og ljósu pasta.

Verð kr. 2.595.- Góð kaup.