Víngarðurinn fjallar um Chateau Goumin 2011

Chateau Goumin 2011 ***1/2

Þetta vín kemur úr smiðju André Lurton, einum af hinum fjölmörgu úr Lurton-fjölskyldunni, sem hafa haft mikil áhrif í Bordeaux undanfarna áratugi og eiga eða stjórna mörgum af bestu vínhúsum svæðisins. Þetta vín er upprunið í Entre-Deaux-Mers og er blandað úr þrúgunum Merlot og Cabernet Sauvignon.

Það er meðaldjúpt að sjá með plómurauðan lit og þéttan kannt. Í nefi er það meðalopið og dæmigert með angan af sólberjum og plómu ásamt vanillu, heybagga og öðrum sveitalegum glefsum.

Í munni er það meðalbragðmikið, þurrt, ferskt og unglegt með góða sýru og þetta frábæra jafnvægi sem einkennir Bordó-vín öðru fremur. Þar má finna plómu, sólberjasultu, krækiber og jörð. Það sem helst dregur það niður um þessar mundir er að það vantar aðeins fyllingu í upphafi en miðjan og endirinn eru afar góð. Hafið með lambi og hörðum ostum.

Verð kr. 2.195.- Mjög góð kaup.