Víngarðurinn fjallar um Calmel & Joseph Cotes du Roussillon Villages 2012

Calmel-Joseph Côtes-du-Roussillon Villages 2012 ****

Það mættu alveg fleiri vín frá Roussillon fást hér því flest eru þau afar upprunaleg og skemmtileg. Þetta vín er frá framleiðanda sem hefur verið að fá mikla athygli undanfarin ár fyrir stórskemmtileg vín svo það er gaman að geta verslað þetta í hillum vínbúðanna núna.

Það er blandað úr þrúgunum Syrah, Grenache og Carignan og hefur þéttan og djúpan, fjólurauðan lit. Í nefinu sem er meðalopið, má finna afar suður-franska tóna af sultuðum rauðum berjum, pipar, kardimommum, grænum kryddjurtum, negul, lími og kemískum steinefnatónum. Það er svolítið sprittað til að byrja með en það lagast þegar vínið fær að anda.

Í munni er það bragðmikið, þétt og með góða sýru og töluverð fínkorna tannín sem hjálpa til við að húða þennan dökka ávöxt og tryggja víninu mikla endingu. Þarna er krækiberjasulta, bláberjabaka, kryddjurtir, lakkrískjarni, kirsuber, pipar og steinefni. Persónulegt og stórskemmtilegt vín sem er fínt með bragðmiklum Miðjarðarhafsmat.

Verð kr. 2.995.- Mjög góð kaup.