Umfjöllun um Villa Wolf Pinot Noir 2012 hjá Víngarðinum.

Villa Wolf Pinot Noir 2012 ****

Í sumar skrifaði ég dóm um Villa Wolf Pinot Gris sem er framúrskarandi gott og ódýrt vín sem kom mér verulega á óvart og þetta vín er ekki síður allrar athygli vert og óhætt að mæla með því að þið lesendur góður fáið ykkur eina flösku til sjálfstæðra rannsókna.

Pinot Noir er svosem ekki óþekkt þrúga í Þýskalandi (þaðan sem vínið kemur, frá Pfalz, nánar tiltekið) en hefur sjaldan náð með tærnar sem frönsk og jafnvel austurrísk vín hafa hælana. Að einhverju leyti er það lélegum klónum að kenna en ekki síður skorti á meðalhita og sólarstundum. En nú með hækkandi hita og lengri vaxtartíma er ekki ólíklegt að betri Pinot Noir vín fari að koma frá Þýskalandi.

Þetta vín hefur dæmigerðan lit, tæplega meðaldjúpan (svona ljós-hinberjarauður) og meðalopna og dæmigerða angan af hind- og jarðarberjum, sveitalegum húsdýrailmi, þurrkuðum appelsínuberki og jörð.

Það hefur góða sýru í munni, er aðgengilegt og léttleikandi án þess að verða nokkurntíman „lítið“. Það er lengi að koma og lengi að fara og meðan það staldrar við má finna í því glefsur af jarðar- og hindberjum, þurrkuðum ávöxtum, steinefnum og bakaðri rauðrófu. Stórskemmtilegt vín í góðu jafnvægi og með mjúk tannín. Hafið með ljósu fuglakjöti, hægelduðu svínakjöti og feitum fiski svosem laxi.

Verð kr. 2.495.- Mjög góð kaup