Umfjöllun um Villa Wolf Pinot Noir 2012 á Vinotek.is

Villa Wolf Pinot Noir 2012 ****

Þjóðverjar eru ekki þekktir fyrir framleiðslu rauðvína en engu að síður eru inn á milli ræktuð virkilega aðlaðandi og heillandi rauðvín, ekki síst í heitari héruðum á borð við Baden og Pfalz.

Þetta rauðvín frá Villa Wolf (sem er vínhús í eigu meistarans Ernst Loosen) er einmitt í Pfalz. Það er kennt við þrúguna Pinot Noir, sem hér er ekki kennd við hið þýska nafn sitt, Blauer Spätburgunder.

Stíll vínsins er ekki ósvipaður betri Pinot Noir frá t.d. Alsace í Frakklandi. Léttur, ávaxtaríkur og þægilegur. Sneisafullt af rauðum berjum í nefi, skógarberjum, hindberjum og kirsuberjum, þarna er jörð og jafnvel örlítið súkkulaði. Þetta er ekki vín sem er mikið um sig en það heldur sér afskaplega vel, og nær að breiða vel úr sér á fínlegan hátt, milt, ekki áberandi tannín, sýran létt. Einfaldlega afskaplega neysluvænt rauðvín sem  fer vel með hvítu kjöti og jafnvel bleikum fiski.

2.495 krónur. Mjög góð kaup.