Umfjöllun um Villa Sandi Prosecco Il Fresco á Víngarðinum

Villa Sandi Prosecco Il Fresco ***1/2

Prosecco nefnist lítið svæði norður af Feneyjum þar sem gerð eru létt og þokkafull freyðivín úr þrúgunni Glera. Þegar þau eru góð þá eru þau frábær en mikið af Prosecco er oft á tíðum afar lítilfjörlegt sull (mikið búið að gagnrýna að leyft var að stækka svæðið sem rækta má Glera-þrúgurnar á til að gera Prosecco).

Villa Sandi er sannarlega einn af bestu framleiðendum Prosecco og því gleðiefni að það skuli fást hérna í hillunum. Það er mjög ljós-strágult að lit með tæplega meðalopna angan af eplum, steinefnum, hvítum blómum og sætum sítrus. Þetta er hvorki flókinn né persónulegur ilmur en afar aðlaðandi.

Í munni er það létt og yndisaukandi og mér detta í hug orð eins og „loftkennt“ og „sumarlegt“ þegar ég smakka það. Þarna eru epli, pera, vínber (!), jörð og sætur sítrus. Það er sannarlega ekki þungt og bragðmikið en furðu langt miðað við stærðina. Hafið á undan góðri máltíð og þá má alveg bíta í einhvern mildan pinnamat með því. Kannski ekki mikið af hvítlauk þó, einhverra hluta vegna.

Verð kr. 1.995.- Mjög góð kaup.