Umfjöllun um Telmo Rodriguez Corriente 2016 á Víngarðinum.

Telmo Rodrigues Corriente 2016 ****+

Allt alvöru vínáhugafólk á að hafa einhvern grun um hver Telmo Rodrigues er, en þessi spænski víngerðarmaður hefur komið ansi víða við á undanförnum áratugum. Hans þekktustu vín eru sennilega bundin við Rioja en hann gerir einnig fjölmörg önnur vín útum allan Spán (ég er persónulega alveg heillaður af hvítvínunum hans). Við hér uppá Íslandi höfum svo, sem betur fer, verið heppin að mörg af hans vínum hafa staðið okkur til boða og þar er líklega fremst Lanzaga en árgangarnir 2010 og 2012 fengu báðir fullt hús í Víngarðinum á sínum tíma, enda vandfundin betri Rioja-vín. LZ-vínið hefur einnig komið tvisvar inn á borð Víngarðsins og fengið í bæði skiptin fjórar og hálfa stjörnu. Þetta vín er að mörgu leiti ekki langt frá LZ í byggingu en nafnið Corriente („hversdags“) bendir til að það sé einfaldara. Það er þá bara rétt á yfirborðinu.

Einsog önnur Rioja-vín frá Telmo er það blandað úr Tempranillo, Graciano og Garnacha og kemur frá þeim hluta Rioja sem kallast Alavesa. Það býr yfir þéttum og djúpum lit af svörtum kirsuberjum og hefur dæmigerða, meðalopna angan af kræki- og brómberjum, súrum kirsuberjum, plómum, þurrkuðum appeslsínuberki, sveskjusteinum, leirkenndum steinefnum og mildri eikartunnu. Það er svo ríflega meðalbragðmikið, með þétt en mjúk tannín, góða sýru og unglega áru. Það hefur frábært jafnvægi og endingin er góð. Þarna má svo greina brómber, krækiberjasultu, bláber, plómur, sveskjusteina, kirsuber, kakó, leirkennda jarðartóna og sæta vanillutóna. Verulega vel gert Rioja-vín og það munar ekki miklu að það fái fjóra og hálfa stjörnu. Hafið með allskonar betra kjötmeti en lamb, naut og folald er líklega best með því.

Verð kr. 2.995.- Frábær kaup.