Umfjöllun um Planeta la Segreta Bianco 2014 á Vingarðinum

Planeta La Segreta Bianco 2014 ****

Það kannast efalaust margir við víngerðina Planeta frá Sikiley en vín frá þessari víngerð voru lengi til sölu hér og féllu í afar góðan jarðveg. Margir sem ég þekki minnast td hinnar (duglega) eikuðu Chardonnay-útgáfu (sem er á leið aftur í vínbúðir bráðlega, en er nú mun meira elegant en þegar 21. öldin gekk í garð) en ég sjálfur var alltaf hrifnastur af Cometa (eikað Fiano) og svo La Segreta hvítt og rautt. Nú hafa þessi vín sumsé snúið aftur í hillur vínbúðanna og ég skora á ykkur öll að fara nú á stúfana og næla ykkur í eintak, því þetta eru einstaklega vel gerð og matarvæn vín.

Þótt flöskumiðinn sé nýr eru La Segreta vínin sem fyrr blönduð úr mörgum þrúgum og það hvíta er sett saman úr þrúgunum Grecanico, Chardonnay, Fiano og Viognier og þeir sem hafa nördast í vínfræðunum gera sér grein fyrir að þarna eru 2 ítalskar þrúgur og 2 franskar og úr sikileyskum jarðvegi verður þetta afar gómsæt blanda. Það er ljós-gyllt að lit með rétt rúmlega meðalopna og spennandi angan hvítum blómum, peru, melónu, austurlenskum ávöxtum, hunangi, sætum sítrus, agúrku og steinefnum. Virkilega flottur ilmur með þroskaðan ávöxt sem gaman er að láta kitla nefið.

Í munni er það meðalbragðmikið, þurrt með góða sýru, mikla lengd og framúrskarandi byggingu. Þarna er sítrus, pera, ferskja, austurlenskir ávextir, hunang og krydd. Matarvænt og spennandi vín sem munar bara hársbreidd að fái hálfa störnu í viðbót sem gerir það að virkilega góðum hvítvínskosti. Ég er amk glaður að geta farið og sótt mér þetta vín til að hafa með matnum. Hafið með allskonar bragðmeiri fiskréttum, humar og skeldýrum, ljósu fuglakjöti, pasta og grænmetisréttum. Býsna fjölhæft.

Verð kr. 2.499.- Frábær kaup