Umfjöllun um Muriel Crianza á Víngarðinum.

Muriel Vendemia Seleccionada Crianza 2010 ****

Spánn og Portúgal virðast vera athyglisverðustu víngerðarlöndin þessa dagana og makalaust hvað þessi frábæru vín sem þaðan streyma eru á frambærilegu verði miðað við gæði. Þetta hér kemur frá Rioja og hefur þéttan kirsuberjarauðan lit og dæmigerða, meðalopna angan af rauðum og dökkum sultuðum berjum, (kirsu,- hind,- og bláberjum) ásamt vanillu, plómu, eik, lakkrís og kakó.

Í munni er það ferskt, þurrt, afar vel byggt og fínlegt með áberandi sýru, flott tannín og langt bragð sem gerir það sérlega heppilegt með mat. Þarna eru sultuð rauð og dökk ber, vanilla, karamella, ósætur lakkrís (ég kallaði þetta apótekaralakkrís hér í gamla daga, en honum eru allir búnir að gleyma) og balsam-tónar. Hafið með lambi, svíni og bragðmeiri pottréttum, ættuðum frá Miðjarðarhafinu.

Verð kr. 2.395.- Frábær kaup.