Umfjöllun um Massolino Langhe Nebbiolo 2012 á Víngarðinum

Massolino Langhe Nebbiolo 2012 ****

Nebbiolo er þrúga, bara svo það sé á hreinu og Langhe er stórt svæði í Piemont en innan þess eru svo smærri og þekktari svæði einsog Barolo, Barbaresco og Asti. Á þessu svæði eru margir framleiðendur og fæstir þeirra stórir í sniðum enda eru þetta gjarnan fjölskyldufyrirtæki þar sem allir hjálpast að við víngerðina.

Það hefur lengi loðað við Nebbiolo-þrúguna að vera lítið aðgengileg nema eftir langa bið og einnig er hún þrúga sem þeir sem eru lengra komnir í vínsnobbinu kunna að meta meira en byrjendurnir. En frá því í lok síðustu aldar hafa framleiðendur reynt að gera vínin aðgengilegri fyrir alla og margir hafa horfið frá hinum hörðu og hægþroska tannínum yfir í mýkri og extrakteraðri vín. Um þetta eru deilur því mörgum finnst með því að verið sé að hverfa frá því sem gerir Nebbiolo-vín að Nebbiolo-vínum.

En Massolino fetar bil beggja. Er hefðbundinn að mörgu leiti en aðgengilegur og fínlegur og býr til afar athyglisverð vín. Þetta vín er rétt tæplega meðaldjúpt að sjá (segjum að það sé kirsuberjarautt) með gegnheilan kannt og dæmigerðan og unglegan ilm um þessar mundir. Þarna má finna kirsuber, lakkrís, hindber, fjólur og strá (dettur ekkert betra í hug). Þetta er ekki stórt nef en vínið er reyndar bara í vöggu svo ég kvíði engu.

Í munni er það vel bragðmikið með þétt tannín og töluverða sýru. Það er langvarandi, fágað, fínlegt og glæsilegt á dæmigerðan hátt með glefsur af kirsuberjum, lakkrís, þurrkuðum appelsínuberki og jörð. Eins og staðan er núna verður að umhella víninu nokkrum klukkustundum fyrir neyslu til að fá sem mest útúr því, en það stefnir hærra og ég spái því að strax á næsta ári verði það orðið ****1/2 Þetta er vín til að setja í kjallarann og geyma í 2-5 ár og smakka með reglulegu millibili. Hafið með villibráð, trufflumettuðum mat eða hörðum ostum.

Verð kr. 3.995.- Mjög góð kaup