Umfjöllun um Louis Jadot Couvent des Jacobins Bourgogone Chardonnay 2013 á Víngarðinum

Louis Jadot Couvent des Jacobins Bourgogne Chardonnay 2013 ****

Það er fátt sem toppar Chardonnay í sinni heimasveit. Jafnvel þótt að þrúgan sé afar heppileg í ræktun og skili af sér töluverðu magni af víni í frábæru jafnvægi, eiginlega hvarsem henni er holað niður á jarðarkringlunni. Enda höfum við neytendur fengið ansi margar útgáfur af Chardonnay frá öllum löndum, sum góð og önnur framúrskarandi. Engu að síður er Chardonnay frá Búrgúnd ennþá með vinningin hvernig sem á það er litið og allir reyna að líkja eftir þeim vínstíl sem þar hefur verið þróaður síðustu aldir.

Louis Jadot er sannarlega einn af betri (eða bestu) „négotiant“ sem eru á svæðinu og tappar á flöskur allskonar vínum, hvítum og rauðum frá Búrgúnd. Og þrátt fyrir að þetta sé eitt af einfaldari vínunum hans þá er það sannarlega ekkert léttmeti og stenst samanburð við hvaða þungaviktarvín frá öðrum vínræktarsvæðum heimsins.

Það er gyllt að lit með upprunalegan og aðlaðandi ilm þar sem finna má eplaböku, peru, steinefni, ristaða eik, vanillu, hunang, jasmín, ananas, smjör og sæta sítrónu. Í munni er það rétt ríflega meðalbragðmikið með flotta sýru, mikið jafnvægi og afar sannfærandi lengd. Það er ungt, ferskt (getur geymst í 2-3 ár en það er dásamlega gott núna strax, svo af hverju að bíða?), þurrt og dæmigert og einsog sérhannað fyrir góðan mat. Þarna innanum og samanvið má greina smjördeig, bökuð epli, sítrónu, peru, vanillu, reyk, hunang og steinefni. Algert nammi. Hafið með bragðmeira fiskmeti og það má gjarnan vera feitt. Ljósu fuglakjöti og rjómakenndum pastasósum.

Verð kr. 3.195.- Góð kaup.