Umfjöllun um J.Christopher Willamette Valley Pinot Noir 2014 á Víngarðinum

J. Christopher Willamette Valley Pinot Noir 2014 ****+

Það eru margir á þeirri skoðun að útilokað sé að gera góð Pinot Noir vín utan heimahagana í Búrgúnd og undanfarin ár hefur líka vel tekist til með að heilaþvo stóran hóp vínunnenda svo þeir trúa því að einungis örfáir framleiðendur í Gullhlíðinni fögru geti gert góð vín. Ekki ósvipað og sértrúarsöfnuðurinn sem telur að súlfítlaus náttúruvín séu góð á bragðið.

En þessu er ég hjartanlega ósammála og undanfarin ár hef ég smakkað mörg verulega góð Pinot Noir vín frá ýmsum löndum og frá hinum og þessum upprunasvæðum, sem gefa Pinot Noir-vínum frá Búrgúnd lítið sem ekkert eftir. Eitt af þeim er þetta hér, frá framleiðandanum J. Christopher sem gerir sín vín í Willamette-dalnum í Oregon og þið ættuð endilega að prófa.

J. Christopher-víngerðin er í miklum tenglsum við Ernst Loosen, hinn óþreytandi víngerðarmann í Moseldalnum í Þýskalandi en hann hefur einnig unnið náið með Chateau St. Michelle í Washington (fyrir utan að gera frábær vín í Pfalz sem við könnumst vel við, Villa Wolf). Þessi Pinot Noir hefur dæmigerðan jarðarberjarauðan lit sem er tæplega meðaldjúpur, enda er litdýpt á Pinot Noir-vínum sjaldan mikil. Það hefur svo meðalopna angan þar sem blandast saman jarðarber, súr kirsuber, hindber, lakkrís, leirkennd steinefni og austurlensk grillsósa. Þetta er ilmur sem er ákaflega rauður og dæmigerður fyrir þessa frábæru þrúgu.

Það er svo meðalbragðmikið, mjúkt og sýruríkt með langt og fínlegt bragð og þarna eru einnig jarðarber, kirsuber, hindber, lakkrís, steinefni og austurlensk krydd. Ég er bara verulega ánægður með þetta vín sem minnir á góð Village-vín frá Búrgúnd og hægt að hafa með allskonar mat, bragðmiklum forréttum, ljósu og dökku fuglakjöti og rauðu kjöti.

Verð kr. 5.895.- Góð kaup.