Umfjöllun um Fantini Montepulciano d’Abruzzo 2013 á Víngarðinum

Fantini Farnese Montepulciano d’Abruzzo 2013 ***1/2

Rauðvínin frá Abruzzo eru vafalítið einhver bestu hversdagsvín sem hægt er að njóta. Þétt, mjúk, sýrurík og spræk einsog folöld að vori og yfirleitt á afar góðu verði. Og þau eru sjaldnast að reyna að vera eitthvað annað en þau eru: einföld hversdagsvín.

Þetta vín er ríflega meðaldjúpt að sjá með unglegan, rauðfjólubláan lit. Í nefinu er það unglegt, tæplega meðalopið með einfalda angan af sultuðum kirsuberjum, fjólum, lakkrís, þurrkuðum appelsínuberki og jörð.

Í munni er það meðalbragðmikið, ungt og með tölverða ferska sýru, mjúk tannín en mætti gjarnan vera með lengri hala. Það er þurrt en meðan það varir er ávöxturinn þéttur og góður þar sem blandast saman kirsuber, fjólur, negull, pipar og þurrkaður appelsínubörkur. Það hefur frískandi biturleika í lokin sem gerir það vel matarvænt. Hafið með hversdagsmat, pasta, pottréttum og öðru því sem þið fáið ykkur á þriðjudögum.

Verð kr. 1.999.- Mjög góð kaup. (Fæst líka í magnumflösku: kr. 3.695.-)