Umfjöllun um Delas Ventoux 2013 á Víngarðinum

Delas Ventoux 2013 ****

Eftir því sem rauðvínin frá Côtes-du-Rhône hafa orðið eftirsóttari, hafa gæði þeirra aukist og verðið að sama skapi. Það er því ekki tilviljun að margir framleiðendur hafa leitað út fyrir hið hefðbundna svæði og gert þar vín í svipuðum stíl og þeir gerðu áður úr sömu þrúgum, en yfirleitt á skaplegra verði. Eitt af þessum svæðum er Ventoux sem liggur upp að Côtes-du-Rhône, sunnarlega í Frakklandi þar sem Miðjarðarhafið hefur mildandi áhrif á veðurfarið.

Þetta er rúbínrautt vín með ríflega meðalopið og skemmtilegt nef þar sem finna má hindber, kirsuberja-clafoutis, timjan, jörð, lárviðarlauf og villiblóm (þetta kallar ýmsir vínsnobbarar „garrigue“ sem gott er að slá um sig með í réttum hóp). Ungleg, frískleg og aðlaðandi angan.

Í munni er það þurrt og með góða sýru en sjálfur ávöxturinn er ögn léttari en nefið gefur til kynna. Engu að síður er þetta dæmigert og skemmtilegt vín sem inniheldur glefsur af kirsuberjum, plómu, pipar, lakkrís og kryddjurtum. Afbragðs matarvín í kunnuglegum Côtes-du-Rhône-stíl, einfalt en gefandi og er fínt með allskonar hversdagsmat, rauðu kjöti, frönskum kæfum og krydduðum norður-afrískum mat.

Verð kr. 2.299.- Mjög góð kaup.