Umfjöllun um Delas Crozes-Hermitage Les Launes 2011 á Víngarðinum

Delas Crozes-Hermitage Les Launes 2011 ****1/2

Hermitage-hæðin í þorpinu Tain við ána Rón rís 323 metra yfir sjávarmál og suðurhlíð hennar er hið eiginlega Hermitage og þar nefnast víngarðarnir nöfnum einsog tíðkast td í Búrgúnd, þeirra þekktastir eru le Méal, les Gréffieux og les Bessards. Þetta (ásamt Côte-Rôtie) er heimavöllur Syrah-þrúgunnar og bestu framleiðendur gera þarna vín sem eru stórkostleg í byggingu og endast áratugum saman. Uppá hæðinni (og þar norðuraf) og eins í þorpinu sjálfu, tekur við hið skilgreinda víngerðarsvæði Crozes-Hermitage sem hér í gamla daga var alltaf í skugganum af hinu dýra og þekkta Hermitage. En nú á dögum (með betri víngerð og hugsanlega hækkandi hitastigi) eru Crozes-Hermitage vínin farin að nálgast ískyggilega gæði stóra bróður og sannarlega eru þau flest betri núna en Hermitage sjálft var á árunum 1970-1995.

Les Launes kallst þetta vín frá hinum fína framleiðanda Delas og hefur ungan, þéttan og rauðfjólubláan lit. Það er nokkuð opið í nefinu, kraftmikið og dimmt með afar skemmtilegan ilm sem er síbreytilegur og heillandi. Þar má greina sveitalega tóna, tjöru, pipar, fjós, bökuð rauð ber, brenndan sykur, krækiberjasultu, lakkrís, læknastofu, rósir, marsipan og hið görótta Marc.

Í munni er það afar dökkt, þurrt með töluverða sýru, mikil og að mestu leiti fínkorna tannín, frábært jafnvægi og lifir mjög lengi. Að sama skapi er það lengi að koma og býður uppá bragðsimfóníu þar sem koma við sögu dökk ber, kirsuber, pipar, lakkrís, karamella, rósavatn og vanilla. Sannarlega gegnheilt, kraftmikið og upprunalegt og á eftir að þroskast og breytast í nokkur ár í viðbót. Hafið með villibráð og dökku kjöti.

Verð kr. 3.480.- Frábær kaup.